Snapchat-stjarnan Garðar Viðarsson, eða Gæi eins og hann er kallaður, ætlar að vera til staðar fyrir fjölskyldu sína um páskana. Gæi, sem er þekktur sem ICEREDNECK á snappinu, er einn af þeim sem elska hvítt súkkulaði.
„Ég ætla að vera heima í faðmi fjölskyldunnar og hafa það huggulegt af því heima er best,“ segir Gæi aðspurður hvernig páskarnir verða hjá honum í ár.
Hvernig voru páskarnir í æsku þinni?
„Ég man sérstaklega eftir því hvað það var erfitt að sofna fyrir páskadag því ég var svo spenntur fyrir páskaegginu. Páskarnir gengu út á páskaegg, náttföt og teiknimyndaáhorf. Auðvitað var síðan borðaður góður páskamatur að páskadagskvöldi.“
Hvað finnst þér skemmtilegt að gera með þínum börnum um páskana?
„Páskaeggjaleitin að páskadagsmorgni er uppáhaldið. Við hjónin felum lítil páskaegg úti um allt hús sem krakkarnir svo leita að þegar þau vakna. Ef einhver egg finnast ekki eru gefnar vísbendingar í átt að þeim.“
Hvort skiptir meira máli hvað varðar páskaegg, stærðin eða gæðin?
„Í seinni tíð segi ég allan daginn gæðin, annars er hvítt súkkulaði í uppáhaldi hjá mér. Ég er samt lúmskt spenntur að smakka karamellusúkkulaðieggið frá Nóa-Síríusi.“
Gæi hætti að drekka fyrir rúmu ári. Hann er ánægður með lífið án áfengis. „Edrúlífið er yndislegt. Allsgáður alla daga og góð samviska. Þetta er lífið,“ segir Gæi.
Eru páskarnir öðruvísi eftir að þú hættir að drekka?
„Já, svo sannarlega. Ég er 100% til staðar með konu og börnum.“
Ertu öflugur á grillinu um páskana?
„Konan hefur séð um þetta. Oftast höfum við verið með lambalæri en að grilla um páskana er reyndar geggjuð hugmynd. Góður punktur.“
Hvert ferð þú á páskarúntinn?
„Páskarúnturinn er ekki endilega tekinn nema veðrið sé gott. Þá er bara rúnturinn tekinn um heimahagana, Suðurnesin,“ segir Gæi.