Breyttist ekkert þrátt fyrir bænirnar

Bjarni Snæbjörnsson í fermingarmyndatökunni árið 1992.
Bjarni Snæbjörnsson í fermingarmyndatökunni árið 1992. Ljósmynd/Aðsend

Bjarni Snæbjörnsson leikari fermdist 7. júní 1992 í Stóru-Laugardalskirkju í Tálknafirði. Þegar Bjarni var á fermingaraldri skammaðist hann sín fyrir kynhneigð sína. Hann skráði sig seinna úr þjóðkirkjunni og er í dag athafnastjóri hjá Siðmennt, sem hann segir gríðarlega gefandi.

Bjarni segist hafa breyst mikið frá því að hann var á fermingaraldri. „Á þeim tíma var ég frekar vansæll og í mikilli afneitun um hver ég væri í raun og veru. Ég kepptist við að afneita samkynhneigð minni og í kjölfarið deyfði ég marga aðra hluta af mér. Ég var mjög áhugasamur um leiklist og elskaði að taka þátt í öllu leiklistarstarfi sem var í boði, þannig að það var gleðilegt. Ég man ekki eftir að hafa stefnt á að verða leikari sérstaklega. Mér fannst erfitt að hugsa um framtíðina á þessum tíma.“

Manstu eftir fermingunni sjálfri eða fermingarfræðslunni?

„Já, ég man mjög vel eftir fermingardeginum því mér fannst þetta svo hátíðlegur dagur. Fram að fermingu fór ég með bænir á hverju kvöldi. Ég var mjög trúaður og ég trúði því einlæglega að guð myndi bjarga mér frá samkynhneigðinni sem ég skammaðist mín mikið fyrir og vissi ekkert hvað ég átti að gera við. Þetta voru allt aðrir tímar og fræðsla var engin um mismunandi kynhneigðir eða kynvitund. Ég hætti að biðja bænir nánast um leið og ég fermdist því ég fann að ég var ekkert breyttur, ég burðaðist ennþá með skömmina. Þegar ég var orðinn fullorðinn skráði ég mig úr þjóðkirkjunni þegar biskup var spurður hvort það ætti að gefa prestum leyfi til að gefa saman samkynja pör í sjónvarpsviðtali og hann svaraði: „Við þurfum að hugsa okkur tvisvar um áður en við köstum hjónabandinu á sorphaugana.“ Mér fannst ég mjög svikinn. Nú er ég hjá Siðmennt og er athafnastjóri þar og elska allt það sem Siðmennt stendur fyrir: upplýst samfélag sem byggir á kærleika, manngæsku og heilindum.“

Bjarni er leikari í dag og hefur meðal annars vakið …
Bjarni er leikari í dag og hefur meðal annars vakið mikla athygi í einleiknum Góðan daginn faggi. mbl.is/Unnur Karen

Fór í myndatöku í september

Hvernig var veislan þín?

„Ég hef alltaf elskað góð kökuboð þannig að ég bað um risakökuhlaðborð. Fullt af ættingjum kom vestur á Tálknafjörð fyrir þess hvítasunnuhelgi og þetta var mjög skemmtilegt. Ég fór með mjög stutta þakkarræðu en lét aðallega mömmu um að tala. Ég var alls ekki með tónlistaratriði því ég var rosalega feiminn á þessum árum.“

Fórstu í myndatöku?

„Já, ég fór í myndatöku í september, nokkrum mánuðum eftir ferminguna því þá var ég næst í Reykjavík. Ég var mjög ánægður með myndatökuna. Fannst ég bara frekar flottur þó ég hefði viljað hafa færri bólur.“

Bjarni Snæbjörnsson.
Bjarni Snæbjörnsson. Ljósmynd/Aðsend

Manstu hvað þú fékkst í fermingargjöf?

„Ég man ekki mikið eftir gjöfunum. Mig minnir að ég hafi fengið rúm frá foreldrum mínum.“

Hvað væri á óskalistanum ef þú værir að fermast í dag, árið 2023?

„Ég myndi biðja fólk um að sleppa gjöfum og gefa peninga til Samtakanna ‘78 eða Trans Ísland,“ segir Bjarni að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál