Náði varla að taka af sér svuntuna

Anna Sigríður og Helena Lea Alfonsdóttir Ramel.
Anna Sigríður og Helena Lea Alfonsdóttir Ramel. Ljósmynd/Ásta Kristjáns

Anna Sigríður Ólafsdóttir, prófessor í næringarfræði við Háskóla Íslands, og dóttir hennar, Helena Lea Alfonsdóttir Ramel, áttu margar góðar stundir þegar Helena Lea fermdist í fyrra. Þær ákváðu að fara óvenjulega leið í veitingum og buðu upp á indverskan mat. 

Anna Sigríður segir að það hafi verið að Helana Lea hafi átt frumkvæðið að indverska þemanu.

„Það sem stendur upp úr tengt fermingarundirbúningnum eru stundirnar sem við mæðgur áttum saman í kringum undirbúning og skipulag. Við héldum veisluna heima og öll veisluhöld og matseðillinn voru eftir hennar höfði. Indverskur matur eldaður frá grunni, fagnað með góðum vinum og ættingjum og litaþemað hennar uppáhald – fjólublátt – með páskaívafi, af því mamman elskar vorstemmninguna sem fylgir skreyttum páskagreinum,“ segir hún.

Kjúklingurinn og nan-brauðið slógu í gegn

„Matseðillinn samanstóð af kjúklinga tikka masala, aloo gobi blómkáls-kartöflu-karrýrétti og punjabi-kjúklingabaunarétti. Með þessu var raita sem er gúrku-jógúrtsósa, nan-brauð með hvítlaukssmjöri og hrísgrjón. Svo var alls konar smálegt með til að lífga enn frekar upp á bragðupplifunina svo sem tvær tegundir af mangó chutney (gróft og fínt), salthnetur, kasjúhnetur og kóríander. Auk þess voru hreinar kjúklingalundir fyrir þá sem ekki vilja sósur.“

Anna Sigríður lagðist í talsverða rannsóknarvinnu fyrir veisluna.

„Hjá mér fór mikill tími í að lesa og bera saman uppskriftir og stækka þær í samræmi við fjölda gesta. Mér tekst sjaldan að fylgja uppskriftum heldur tvinna saman nokkrum og bæti og breyti í samræmi við eigin smekk og hugmyndir. Krakkarnir mínir hafa aðeins smitast af þessari nálgun og eru duglegir að leika sér með hráefnin í eldhúsinu. Það voru því allmargar gæðastundir í kringum útfærslu á matseðlinum. Daginn fyrir veisluna maríneruðum við mæðgur kjúklinginn og svo var vaknað snemma til að undirbúa sósuna og forsteikja kjúklinginn í tikka masala, saxa grænmeti og fleira.“

Það komu um 40 manns í veisluna og segir Anna Sigríður að stór hluti hafi verið börn og unglingar og því hafi matseðillinn tekið mið af því.

„Með því að hafa meðlætið allt í litlum skálum og gefa val um hvað fer á diskinn er auðveldara að höfða til allra. Kóríander er mjög þekkt dæmi um bragð sem alls ekki er allra, á meðan sumum finnst fátt betra finna aðrir sápubragð! Í heildina heppnaðist maturinn mjög vel en kjúklingurinn og nan-brauðið áttu þó klárlega vinninginn umfram grænmetisréttina. Miðað við alla vinnuna sem fer í undirbúning hefði ég alveg viljað eiga meiri afgang af tikka masala fyrir næstu daga, en blómkálsrétturinn er aðeins viðkvæmari fyrir upphitun og því verra að sitja uppi með mikið af honum.“

Veisluborðið var glæsilegt.
Veisluborðið var glæsilegt. Ljósmynd/Aðsend

Vinkonur og bróðir hjálpuðu mikið

„Ekki má svo heldur gleyma kökunum í svona veislu, en bróðir minn tók að sér baksturinn. Mér finnst sjálfri ekkert sérlega gaman að baka, en nýt mín þeim mun betur í tilraunaeldamennsku með fjölbreytt hráefni, sérstaklega með grænmeti sem grunn,“ segir Anna Sigríður.

„Það er mikilvægt að undirbúningur sé góður og við unnum okkur í haginn eins og hægt var dagana á undan. Mér hættir þó til að vera á síðustu stundu og þannig var kannski full mikið fjör að vera bæði sjálf að sjá um matinn og að gera fermingargreiðsluna að morgni fermingardagsins. Í heildina var það þó virkilega gaman þrátt fyrir smá stress. Það mátti reyndar varla tæpara standa að ég næði að taka af mér svuntuna og fara sjálf í kjól áður en við fórum í kirkjuna, en ég á frábærar vinkonur sem mættu heim og redduðu rest á meðan við vorum í fermingarathöfninni. Þakklæti er efst í huga á svona tímamótum, dagurinn heppnaðist í alla staði eins og best verður á kosið og það var auðvitað sérstaklega verðmætt að geta blásið til fjölmennrar veislu og knúsað allt fólkið sitt eftir alla covid-mánuðina. Það er samveran sjálf sem mestu máli skiptir á svona dögum,“ segir Anna Sigríður að lokum, ánægð með daginn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál