„Ég ber enga ábyrgð á því sem Gógó gerir“

Ljósmynd/David Terraz

Sigurður Heimir Starr Guðjónsson, betur þekktur sem dragdrottningin Gógó Starr, hefur staðið í ströngum undirbúningi fyrir Hinsegin dagana sem nú standa yfir. Hann mun einnig taka þátt í gleðigöngunni sem verður gengin frá Hallgrímskirkju kl. 14:00 á morgun.

Sigurður fann sig fyrst sem dragdrottning í framhaldsskóla og í dag er hann í fullu starfi sem dragdrottningin Gógó Starr ásamt því að skipuleggja skemmtiviðburði. Einnig kennir hann dragförðun í Reykjavík Make Up School og stefnir að því að halda námskeið í hárkollugerð. 

Hvernig byrjaði áhuginn á dragi?

„Ég hef alltaf haft áhuga á sviðslist frá því ég man eftir mér en dragið byrjaði í framhaldsskóla þegar ég var í leikfélaginu í Menntaskólanum á Akureyri. Við settum upp söngleik og ég endaði þar í svolitlu drag-hlutverki. Það var í fyrsta skiptið sem ég gerði drag annað en eitthvað svona grín á öskudag. Á þessum tíma er ég líka að taka upp minn hinseginleika og finna mig betur sem manneskju eins og margir gera. Dragið hjálpaði mér við það. Eftir það fór ég að leika mér smá meira, fór oftar í drag og gera einhvern karakter,“ segir Sigurður.

„Á þessum tíma var eiginlega ekki til nein fyrirmynd af dragdrottningum á Íslandi. Það eina sem ég vissi af var að það var til Dragkeppni Íslands en ég vissi ekkert hvað fór þar fram. Ég var samt heppinn að geta séð hvað var að gerast út í heimi en RuPaul's Drag Race byrjaði um svipað leyti árið 2009. Við bjuggum svo til Dragkeppni Norðurlands árið 2010 þar sem þetta var bara vinahópur sem ákvað að koma saman og gera skemmtilegan viðburð en svo var fullur salur og við vorum bara vó,“ bætir hann við. 

RuPaul, þáttastjórnandi og dómari í grænum kjól, ásamt dómgæslu liði …
RuPaul, þáttastjórnandi og dómari í grænum kjól, ásamt dómgæslu liði sínu í sjónvarpsþáttunum RuPaul´s Drag Race. Skjáskot/Instagram

Hver er uppáhalds dragdrottningin þín?

„Ég horfi mikið upp til Sasha Velour sem vann níundu seríu RuPaul's Drag Race. Ég elska hvað hún er bæði mikill performer en hún er líka snillingur í að framleiða og búa til sýningar og lyfta öðrum upp í kringum sig. Ég tengi mikið við það. Svo er eiginlega ómögulegt að segja ekki RuPaul, mér líður eins og RuPaul sé gjörsamlega búinn að breyta öllu hvað varðar sýnileika hinseginfólks á miðlum í dag og þá sérstaklega fyrir okkur sem eru í draginu. Það eru forréttindi að leika sér að þessu og vera ekki hent út af heimilinu eða eitthvað verra.“

Hvaðan færðu innblástur?

„Innblásturinn kemur auðvitað eitthvað úr Drag Race til að vera með á hreinu hvað er í gangi, hverjir eru að koma fram á sjónarsviðið og hvaða stílar eru komnir hvað varðar tísku. Ég fylgist líka vel með hártískunni og förðuninni. Stundum koma nýjr hlutir inn sem maður hefur ekki séð áður og þá fer maður mikið að spá hvort allir eru komnir með svoleiðis. Svo elska ég líka popp-dýfur, grínista og gamla sketsa. Það er allskonar sem ég sanka að mér.“

Gógó Star í dressi innblásið af landnámskonum.
Gógó Star í dressi innblásið af landnámskonum. Ljósmynd/Lilja Draumland

Hver er uppáhalds fataverslunin þín?

„Á Íslandi eru í rauninni mjög fáar verslanir sem eru með góð dragföt. Þegar ég er uppi á sviði þá vil ég alltaf vera í einhverju sem er einstakt, einhverju sem er auðvelt að klæða sig úr, lítur vel út og er hægt að leika sér með á einhvern hátt. Það sama á við hluti. Ég kaupi oft hluti og breyti þeim smá. Annars myndi ég segja að uppáhalds verslanirnar mínar eru nytjamarkaðir, eins og Extraloppan, Spúútnik, Gyllti kötturinn og svo fer ég í Júník til að poppa dressið með glimmeri eða pallíettum,“ segir Sigurður.

Ég veit samt ekki um neinn stað sem selur gæðahárkollur sem virka fyrir dragið. Það eru í rauninni bara kollur úr Partýbúðinni og Hókus pókus í boði. Svo er reyndar verslun í Breiðholti sem heitir AfroZone sem selur besta hárspreyið í bænum og eru með góðar hárkollur. Hins vegar henta þær bara ekki alveg Gógó stílnum. Annars kaupi ég allt mitt á netinu og sauma hárkollunar bara sjálfur og ég hef einmitt verið með námskeið í því,“ bætir hann við.

Sigurður sumar hárkollur og mikið af dressunum sínum sjálfur fyrir …
Sigurður sumar hárkollur og mikið af dressunum sínum sjálfur fyrir dragið. Ljósmynd/Lilja Jons

Saumar þú eitthvað sjálfur?

„Ég er að reyna að vera duglegur að sauma sjálfur, ég kann það eitthvað. Ég get gert nógu góða hluti fyrir sviðið en ef maður skoðar þetta í smáatriðum þá er ýmislegt sem má gera betur, en þetta gengur uppi á sviði. Mér finnst mjög gaman að gera eitthvað sjálfur og það fá líka allir að vita af því. Ef einhver spyr mig hvar ég fékk flíkina, þá tekur það mig 0,2 sekúndur að svara „ég gerði þetta sjálfur!“ Efni eru samt sjúklega dýr á Íslandi, þannig að ég tek alltaf með mér auka tösku þegar ég fer erlendis, til dæmis til New York-borgar. Þá kaupi ég mér fulla ferðatösku af aukaefnum, svona mismunandi skrauti, aukahlutum, steinum og fleira til að sauma á flíkur,“ segir Sigurður. 

Áttu þér uppáhaldsliti til að klæðast í draginu?

„Allt sem er með einhverskonar gulli í grípur augað mitt alltaf. Ég tek líka ákveðin tímabil með ákveðna liti, en ég var til dæmis rosalega lengi mikið í kóngabláum. Þetta var í öllu hjá mér, svo fékk ég leið á því þannig að nú er allt í gulli. Litaæði á líka við um hárkollurnar mínar en undanfarið hef ég verið mikið með rosalega rautt hár, alveg jólarauðar kollur. Ég er líka búinn að lita alvöru hárið mitt í sama lit,“ segir Sigurður.

Sigurður fyrir utan Bessastaði að skarta rauða fallega hárinu.
Sigurður fyrir utan Bessastaði að skarta rauða fallega hárinu. Ljósmynd/Aðsend

Hver er uppáhalds drag flíkin þín?

„Ég myndi segja að það væri síður langerma pallíettukjóll sem nær upp í háls og er með opið bak. Mér finnst hann svo skemmtilegur og sexí og hann lítur vel út í sviðsljósinu. Hann hefur líka farið á milli nokkurra dragdrottninga hér á landi. Þetta er kjóll sem hefur gengið á milli okkar sem þarf stöðuga ást og umhyggju,“ segir dragdrottningin.

Gógó Starr í sögufræga pallíettukjólnum sem hefur flakkað á milli …
Gógó Starr í sögufræga pallíettukjólnum sem hefur flakkað á milli íslenskra dragdrottninga í gegnum árin. Ljósmynd/Sunna Ben

Hvar myndirðu kaupa í næsta dragdress ef peningar væru ekki vandamál?

„Þá myndi ég fara í samstarf við Diego Montoya en hann gerir bestu dressin í Drag Race-þáttunum. Ef það er eitthvað klikkað drag „lúkk“ í þáttunum þá eru það 90% líkur á að Montoya hafi búið það til. Hann gerir bara sérhönnun fyrir dragdrottningar. Ég veit ekki einu sinni hvað það kostar, örugglega mjög mikla peninga en ég væri svo til í það,“ segir Sigurður.

Gógó starr í essinu sínu uppi á sviði.
Gógó starr í essinu sínu uppi á sviði. Ljósmynd/Icelandicphoto

Hvernig breytist sjálfsöryggið með Gógó Starr?

„Ég finn óbilandi sjálfstraust. Mér líður eins og ég geti gert hvað sem er. Þetta er ekki önnur manneskja heldur meira eins og 500% ég. Það er einhvernvegin hægt að sleppa sér lausum og mér finnst eins og Gógó komist upp með allskonar sem Siggi kemst ekki upp með. Ég ber enga ábyrgð á því sem Gógó gerir. Síðan hef ég líka lært svolítið af Gógó, að taka hluta af þessu sjálftrausti inn í mitt daglega líf. Ég hef mun meira sjálfstraust í dag heldur en áður en ég byrjaði í dragi. Gógó hefur hjálpað mér mikið í gegnum lífið og er óneitanlega hluti af mér,“ segir Sigurður.

Sigurður segir að hann sama manneskjan hvort sem hann er …
Sigurður segir að hann sama manneskjan hvort sem hann er í dragi eða ekki en Gógó gefur honum frelsi til að ýkja ýmsa takta og þá fer sjálfstraustið á flug. Samsett mynd
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál