„Ég ætlaði að enda þetta með því að lenda í slysi“

Arna Magnea hefur fengið sinn skerf af áföllum í lífinu.
Arna Magnea hefur fengið sinn skerf af áföllum í lífinu. mbl.is/Árni Sæberg

Arna Magnea Danks! Að baki þessu hljómmikla og fallega nafni býr mikil saga, kaflaskipt, svo ekki sé meira sagt. Oft og tíðum sorgleg og löngum falin á bak við hin dökku ský tilverunnar. Barnæska hennar var á margan hátt erfið og óvenjuleg. Hún bar löngum harm sinn í hljóði, en svo sagði hún tilverunni stríð á hendur og ákvað að standa með sjálfri sér. 

Arna Magnea fæddist árið 1970 í Reykjavík. Hún kom inn í þennan heim í líkama drengs en fann sig aldrei í því hlutverki enda komst hún fljótt að því að hún væri í hjarta sínu kvenkyns. Á fyrstu árum ævi Örnu Magneu var henni gjarnan strítt fyrir kvenlega hegðun og mátti hún þola ýmislegt vegna þess, meðal annars innan veggja heimilis síns. 

Ólst upp við heimilisofbeldi

Arna Magnea hlaut strangt og ofbeldisfullt uppeldi. Foreldrar hennar glímdu við erfiða djöfla, en faðir hennar, sem Arna nefnir kallinn, var ofbeldismaður og alltaf með hnefann á lofti. Móðir hennar átti líka við andlega vanlíðan að stríða og misnotaði lyfseðilsskyld lyf. Samskiptin á heimilinu voru því ekki eins og best var á kosið. 

„Ég ólst ekki upp á hamingjusömu heimili,“ segir Arna Magnea hikandi. „Pabbi var mikill ofbeldismaður, algjör stólpakjaftur, og mamma var þunglynd og ánetjaðist snemma ópíóíðum og svefntöflum. Barnæskan var flókin. Ég og systir mín, sem er einu ári yngri en ég, vorum sendar í fóstur til ættingja okkar í tíma og ótíma, við vorum eins og jójó. Þannig hélt það áfram, eða þangað til við vorum orðnar nógu gamlar til að byrja að vinna fyrir kallinn, við áttum ekkert val.“

Arna Magnea á barnsaldri.
Arna Magnea á barnsaldri. Ljósmynd/Aðsend

Arna Magnea og yngri systir hennar fóru reglulega í vistun rétt fyrir utan Sandgerði, á stað sem þá hét Miðneshreppur. „Ég ólst upp á bæ sem hét Hólkot og systir mín á næsta bæ sem hét Hólshús. Þarna var sjálfsþurftarbúskapur, kotbændur með fimm mjólkandi beljur og 40 rollur. Ég naut mín í náttúrunni, innan um dýrin. Fólkið í Hólkoti reyndist mér vel og sýndi mér umhyggju. Við systurnar vorum þarna öll sumur, páska, jól og stundum þegar mamma þurfti að fara á spítala en á endanum vorum við alltaf sendar aftur heim í óstandið,“ útskýrir Arna Magnea sem segir eitt það erfiðasta vera að vita hversu margir vissu af ofbeldinu og erfiðleikunum á fjölskylduheimilinu en kusu að loka augunum í stað þess að hjálpa. 

„Ég rakst á gamlan kennara á „grunnskóla-reunion“ fyrir allnokkrum árum síðan sem sagði við mig: „Æj, mér þykir alltaf leiðinlegt þetta með þig og systur þína. Við töluðum oft um ykkur á kennarastofunni“. Ég get ómögulega skilið af hverju þau gerðu ekki neitt.“

„Ég átti skilið að verða lamin“

Faðir Örnu Magneu var mjög orðljótur í hennar garð og sýndi lítinn skilning á þörfum hennar, bæði í æsku og á fullorðinsárum. Hann hikaði ekki við að beita börn sín ofbeldi, líkamlegu og andlegu. 

„Pabbi er ástandsbarn, það útskýrir reiði hans og biturleika. Hann var á sjó og frá heimilinu þar til ég varð átta ára og þegar hann var ekki heima voru hlutirnir, ég vil ekki segja auðveldir, en andrúmsloftið var léttara. Við bjuggum í landi óttans, vorum alltaf á tánum þegar hann var heima en gátum andað léttar þegar hann var á sjónum,“ útskýrir hún. 

„Barnssálin er næm. Ég lærði því fljótt að taka ábyrgð á ofbeldinu. Það var mér að kenna að mamma var lasin og pabbi reiður. Ég gerði aldrei neitt rétt og átti bara skilið að verða lamin. Stór hluti af minningum æskuáranna er að ég var sífellt að reyna að þóknast öðrum, þá sérstaklega kallinum, og bæta fyrir það að hafa fæðst röng og vond. Hann kallaði mig frík, kellingu og píku og viðurkenndi fyrir mér mörgum árum seinna að hann hefði bara verið að reyna að berja úr mér hommann.“ 

Ertu í sambandi við foreldra þína í dag?

„Mamma er dáin en pabbi er enn á lífi. Ég hef ekki talað við hann í mörg ár, hann er 83 ára gamall. Mamma lést árið 2004, hún svelti sig í hel. Dánarorsökin var langvarandi næringarskortur, hún fékk heilablóðfall og lést 66 ára gömul. Hún var búin að segja mörgum að hún ætlaði sér ekki að verða 67 ára og það varð raunin.“

Arna Magnea hefur ekki talað við föður sinn í mörg …
Arna Magnea hefur ekki talað við föður sinn í mörg ár. mbl.is/Árni Sæberg

Arna Magnea flúði gjarnan inn í ævintýraheim bókanna en þar var tilveran björt og öðruvísi.

„Ég var einræn og fáskiptin og átti fáa vini. Sem barn leitaði ég huggunar í skáldskap og þjóðsögum og var um tíma viss um að ég væri álfabarn, ég sá mig sem eins konar umskipting. 

Einn kennarinn hélt því fram að ég væri heyrnarlaus og heimtaði að ég færi í alls kyns athuganir og þá kom í ljós að ég væri bráðgreind en alls ekki heyrnarlaus. Ég var bara rólynd og tranaði mér ekki fram. Ég komst hins vegar að því á fullorðinsárum að ég væri einhverf. Eftir að einn sonur minn fékk einhverfugreiningu þá ákvað ég að fara í greiningu og þá kom í ljós að við áttum hana sameiginlega.“

Örlögin geta stundum verið grimm

Skólaganga Örnu Magneu var ekki mikill gæfu- og gleðitími. Hún lenti í mjög alvarlegu einelti í grunnskóla og varð eitt sinn fyrir fólskulegri árás samnemenda sinna á leiðinni heim úr skólanum. 

„Ég er greind með flókna áfallastreituröskun, að hluta til út af ofbeldinu sem ég ólst upp við en einnig út af svakalegri hópárás sem ég varð fyrir sem barn,“ segir Arna Magnea kjökrandi og vitnar þar til þess sem að framan greinir. „Það var drengjahópur sem gjörsamlega eyðilagði mig, dagurinn er einn sá myrkasti í lífi mínu. Minningin er alls ekki falleg en svo skýr að ég man hvert smáatriði. 

Þetta gerðist í september 1982. Það var valdaklíka í skólanum, tveir forsprakkar. Einum þeirra fannst fyndið að sýna sig fyrir framan vini sína og ákvað að sparka hækju undan félaga mínum sem var að snúa aftur í skólann eftir veikindi. Ég varð vitni að þessu, hljóp til og reyndi að hjálpa. Ég náði að hrinda einum drengjanna frá. Sá fékk blóðnasir. Í hefndarskyni reyndu þeir að drekkja mér í klósettinu en mér tókst að komast undan, ég hljóp upp á ljósastaur, sem ég átti til að gera, og sat þar, allt þar til þeir fóru. 

Eftir þetta þá þorði vinur minn ekki að ganga einn heim að loknum skóladegi. Ég fylgdi honum því heim, flestalla daga, og gekk síðan einsömul heim til mín. Einn daginn erum við að ganga saman og mætum valdaklíkunni, ég vissi að eitthvað var í vændum, eitthvað mjög slæmt. Þeir byrja fljótt að sparka og kýla. Vinur minn stendur til hliðar og horfir á, hjálpar mér ekki. Eftir stutta stund heyri ég einn þeirra segja: „Það er úldinn fiskur hérna“. Þeir taka hann upp og byrja að troða honum ofan í kokið á mér. Síðan var reynt að troða einhverju inn á mig og inn í mig. Ég veit ekki hvað þetta stóð yfir í langan tíma, ég missti meðvitund og þegar ég rankaði við mér þá voru allir farnir, þar á meðal vinur minn. Ég fann mikið til að neðan og var öll í slori. Þegar ég komst loks heim þá fór ég rakleitt á salernið og sat þar, ég man bara eftir öllu blóðinu,“ útskýrir Arna Magnea sem sagði engum frá þessu atviki í hartnær 30 ár. 

Komst að sannleikanum

Eftir mjög erfið ár á Íslandi þá flutti Arna Magnea til Bretlands í leit að nýju, breyttu og bættu lífi. Hún stundaði nám í leiklist við East 15 Acting School í Loughton og lærði síðan sviðsbardagalistir og áhættuleikstjórn í Academy of Dramatic Combat í Lundúnum. Það var í Bretlandi sem hún komst að sínu sanna sjálfi. 

„Ég vissi alltaf að ég væri hinsegin en reyndi allt hvað ég gat til að bæla slíkar hugsanir niður. Það var ekki fyrr en um vorið 2003, nýútskrifuð sem sviðsbardagakennari, að ég rakst á „metró-blað“ eða svokallað samgöngutímarit. Ég settist niður og byrjaði að lesa hverja greinina á fætur annarri og tók svo eftir lítilli grein eftir trans konu frá Blackpool. Ég las greinina aftur og aftur og aftur og upplifði þetta aha-móment, það kviknaði á ljósaperu. Ég var 32 ára gömul og komst loksins að sannleikanum. Þetta var rosalegur léttir en í framhaldi hófst mikil og erfið barátta.“

Arna Magnea kom út úr skápnum sem trans kona árið …
Arna Magnea kom út úr skápnum sem trans kona árið 2018. mbl.is/Árni Sæberg

Hvernig var að segja vinum og vandamönnum frá þessu?

„Ég deildi þessu með vinum í Bretlandi en sagði ekki sálu á Íslandi frá uppgötvun minni, ég þorði það bara alls ekki. Í lok árs 2003 ætlaði ég að koma út úr skápnum gagnvart foreldrum mínum og flaug heim til Íslands. Pabbi tók á móti mér á flugvellinum. Ég var klædd í silki, með naglalakk og litaðar augabrúnir og það fyrsta sem hann sagði var: „Oj bara, ertu farinn að totta tittlinga núna?“ Hann heilsaði ekki eða neitt. Ég fór strax í lás og byrjaði að undirbúa mig eins og fyrir hlutverk, ég vissi að leikritið væri að hefjast eða hafið. Ég ákvað því ekki að koma út úr skápnum á þessum tíma. Mamma lést svo áður en ég fékk tækifæri til þess að segja henni sannleikann, ég hafði þó margreynt það, allt frá því að ég var lítil.“

„Pakkaði mér aftur inn í skápinn“

Í Bretlandi varð Arna Magnea fyrir annarri fólskulegri árás. Góðkunningi hennar og fyrrverandi samstarfsfélagi fékk að gista í íbúð hennar eftir partí þar sem lestarnar voru hættar að ganga. Þá nóttina réðst hann á Örnu Magneu, er hún svaf, og nauðgaði henni. 

„Ég reyndi að kæra en lögreglan sagði: „There's no point for people like you to press charges, you're always on your knees anyways.“ Þetta varð til þess að ég fór til Íslands í þeirri von um að fá hjálp. Þar var mér aftur á móti mætt með mikilli vanþekkingu og vantrú. Mér voru bara gefin þunglyndislyf. Ég hélt því aftur út til Bretlands, í tómu tjóni.

Ég stóð á erfiðum krossgötum í lífinu og pakkaði mér aftur inn í skápinn. Ég reyndi allt til þess að sannfæra sjálfa mig um að inn við beinið væri ég ekki trans. Í framhaldinu kynntist ég konu og eignaðist fyrsta son minn. Það slitnaði þó fljótlega upp úr sambandinu. Eftir það kynntist ég annarri konu, við giftum okkur og eignuðumst tvo drengi saman. Við vorum gift í sjö ár. Allan þann tíma reyndi ég allt til þess að sannfæra sjálfa mig að ég væri ekki trans, ég væri geðklofi, kona að innan, karl að utan og fengi að fæðast rétt í næsta lífi. Mér leið alls ekki vel, ég var komin á mjög dimman stað. Ég ætlaði að enda þetta með því að lenda í slysi. Ég var búin að ganga frá erfðaskrá þegar fyrrverandi eiginkona mín spurði mig hreint út: „Ertu hommi?“

Bara ef það væri svo einfalt, sagði ég.“

Arna Magnea er loksins sátt í eigin skinni.
Arna Magnea er loksins sátt í eigin skinni. mbl.is/Árni Sæberg

Arna Magnea kom út úr skápnum sem trans kona árið 2018. 

Hvernig gekk trans ferlið?

„Ég var búin að vera hjá sálfræðingi, af og til, frá árinu 2012 til að vinna úr áfallastreitunni og það var hann sem hjálpaði mér að horfast í augu við sjálfa mig. Eftir það gekk þetta tiltölulega hratt fyrir sig, ég byrjaði á hormónum vorið 2018 og komst í leiðréttingaraðgerð tæpum tveimur árum seinna. Aðgerðin var framkvæmd á Íslandi en það komu strax upp mikil vandamál, miklir verkir fylgdu sem og blæðingar. Sá sem skar mig upp var verktaki og var eftirfylgnin því varla nokkur. Eftir átta daga í helvíti fékk ég skoðun og þá kom í ljós að ég var komin með drep inni í leggöngunum og væri mjög hætt komin. Það þurfti að skafa allt út og loka leggöngunum. Þetta var stöðug barátta, bæði andleg og líkamleg, næstu mánuði á eftir. Ég fékk sortuæxli í eyrað árið 2022 og skurðlæknirinn, sem fjarlægði það, bauðst til að hjálpa mér. Með hans hjálp fann ég sérfræðing og gekkst undir aðgerð sem kallast Peritoneal pull-through. Sú aðgerð hafði aldrei verið framkvæmd í Evrópu, ég er fyrsta og eina konan í Evrópu sem hef gengist undir þessa aðgerð.“

Sex ára gömul og þriggja barna foreldri

Þrátt fyrir allt sem hefur gengið á í lífi Örnu Magneu er hún þakklát fyrir að hafa staðið mér sjálfri sér og komið út úr skápnum. Hún fagnar sex ára tilvistarafmæli sínu í ár. 

Hvernig var að stíga fyrstu skrefin sem Arna?

„Það var rosalegur léttir, bara gífurlegur léttir að fá að vera ég sjálf og ekki í neinum feluleik. Það er svo lýjandi og þreytandi að vera að ljúga að sjálfum sér og öllum öðrum í leiðinni. Allt það var nú horfið. Þetta leikrit var á enda, ég hafði lengur ekkert að fela. Það er ólýsanlegt frelsi.“

Arna Magnea er foreldri þriggja drengja.

„Ég á þrjá syni á aldursbilinu 9 til 18 ára. Samband mitt við þann elsta er frekar stirt en fer batnandi með hverjum deginum. Ég á gott samband við yngri tvo, þeir kalla mig Örnu mömmu, og eyða miklum tíma hjá mér.

Ég og fyrrverandi eiginkona mín deilum forræði þeirra. Við eigum gott samband og erum góðar vinkonur. En það var vissulega mjög erfitt fyrir hana þegar maðurinn hennar reyndist vera kona. Það var mikið áfall og það tók mig langan tíma að endurheimta traust hennar. Við fórum í fjölskylduráðgjöf og búum í dag í sama hverfinu, af ásetningi. Strákarnir hafa alltaf aðgengi að okkur báðum. Við erum frábærir samstarfsaðilar í barnauppeldi.“

Í aðalhlutverki

Arna Magnea fer með aðalhlutverk í kvikmyndinni Ljósvíkingar ásamt Birni Jörundi Friðbjörnssyni. Hún verður frumsýnd þann 6. september næstkomandi og er þetta fyrsta burðarhlutverk Örnu Magneu í kvikmynd. 

„Snævar Sölvi Sölvason, leikstjóri og handritshöfundur, hafði samband við mig fyrir þó nokkrum árum síðan og bað mig um að lesa yfir handritið og koma með athugasemdir. Við hittumst reglulega á fundum og á einum þeirra sagði ég að trans kona yrði að fara með aðalhlutverkið. Ég er eina leiklistarlærða trans konan á Íslandi en þurfti samt að sanna mig, að sýna að ég gæti farið með burðarhlutverk í kvikmynd.

Ég fór í ansi margar prufur en hreppti á endanum hlutverkið. Björn Jörundur leikur á móti mér, hann er dásamlegur og var algjör klettur í gegnum ferlið. Ég má einnig til með að minnast á hvað Snævar Sölvi er umhyggjusamur, einlægur,  hjartahlýr og hæfileikaríkur leikstjóri,“ segir Arna Magnea sem býður nú spennt eftir viðtökunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu og umsjónarmaður Meðvirknipodcastsins

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda

fasteignasali svarar spurningum lesenda