Laufey Lín Bing Jónsdóttir, söngkona og lagahöfundur, prýðir forsíðuna á nýjasta hefti Vogue í Singapúr.
Djasssöngkonan, sem hefur svo sannarlega farið sigurför um heiminn undanfarna mánuði, er í ítarlegu viðtali í tískutímaritinu og ræðir um lífið og tilveruna sem tvíburi, uppeldið og tónlistardrauminn.
Laufey lýsir æskuárunum á Íslandi og viðurkennir að hafa stundum upplifað sig út undan.
„Börnin fá að láta ímyndunaraflið og leikgleðina leika lausum hala; maður byrjaði snemma að taka sjálfstæðar ákvarðanir,” útskýrir söngkonan sem greindi frá því að móðir hennar, sem er kínversk, hafi kosið að ala hana og tvíburasystur hennar upp með venjum kínverskrar siðmenningar og aga.
„Foreldrar mínir, móðir mín þá sérstaklega, voru aðeins strangari en aðrir þegar kom að tónlistar- og hljóðfæraæfingum. Það hafði vissulega sína kosti og er ég að sjálfsögðu mjög þakklát fyrir það í dag, en ég upplifði mig oft út undan í æsku. Eftir skóla fóru vinir mínir að leika en ég fór ávallt rakleitt í selló- eða píanótíma.”
Laufey var ljósmynduð af tískuljósmyndaranum Maddy Rotman og klæddist fallegum flíkum frá spænska tískuhúsinu Loewe. Hún deildi myndum úr tökunni á Instagram-síðu sinni á mánudag.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem djasssöngkonan prýðir forsíðu á erlendu tímariti. Hún sat fyrir á forsíðumynd eins þekktasta tónlistartímarits í heimi, Billboard, fyrr á þessu ári og einnig tískutímaritinu Female.