Íslandsmeistari í sínum þyngdarflokki

Sigríður Andersen keppti á kraftlyftingarmóti á dögunum og varð í …
Sigríður Andersen keppti á kraftlyftingarmóti á dögunum og varð í fyrsta sæti.

Sigríður Andersen fyrrverandi dómsmálaráðherra hefur lyft lóðum síðan hún var 12-13 ára gömul. Sigríður, sem er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar, varð nýlega Íslandsmeistari í sínum þyngdarflokk í kraftlyftingum. Hún hefur æft mjög lengi og ákvað svo að áeggjan þjálfara síns að stíga út fyrir boxið og taka þátt í keppnum:

„Ég er í klassískum kraftlyftingum, ekki ólympískum. Það er bara bekkpressa, hnébeygja og réttstaða. Ég tók þátt í bekkpressumóti utandyra núna á menningarnótt í sumar. Ég hef lyft frá því að ég var 12-13 ára gömul og lét sjá mig í lyftingasölum áður en World Class opnaði bara til að setja þetta í samhengi. Það opnaði lítil rækt rétt hjá heimili mínu og þar byrjaði ég að mæta sem unglingur innan um fólk sem voru nánast frumkvöðlar í því að stunda nútíma líkamsrækt á Íslandi. Svo fór ég að lyfta með þjálfara 2015 og fyrir nokkrum árum henti þjálfarinn mér í keppni og það er gott að hafa eitthvað markmið framundan. Þá æfir maður öðruvísi. Konum er alltaf að fjölga í þessu og fólki á mínum aldri og það er skemmtilegt,“ segir Sigríður. 

Hér má sjá Sigríði taka 110 kíló í réttstöðulyftu: 

Þorir að segja það sem aðrir hugsa

Sigríður var oft milli tannanna á fólki þegar hún var í stjórnmálum og fékk stundum talsverðan mótvind fyrir að viðra óvinsælar skoðanir. Hún segist hafa þykkan skráp og að hún hafi aldrei tekið gagnrýni inn á sig:

„Ég segi svo sannarlega alls ekki allt sem ég er að hugsa og maður þarf að velja sér slagi. En af því að ég talaði oft um hluti sem aðrir veigruðu sér við gerðist það oft að fólk hringdi í mig alveg brjálað af því því fannst að ég ætti að taka alla slagi. En í stórvægilegum málum hef ég þá reglu að segja minn sannleika og þegar maður er í stjórnmálum á maður að setja sig inn í sem flest mál og þora að segja það sem maður er að hugsa,” segir Sigríður, sem var oft gagnrýnd mjög fyrir skoðanir sínar, ekki síst þegar hún var dómsmálaráðherra:

„Kannski er ég með þykkari skráp en margir, en það plagaði mig aldrei þegar fólk var ósátt við mig. Ekki síst af því að ég lagði mig fram um að setja mig vel inn í málin og tjáði mig aldrei nema vera búin að kynna mér hlutina vel. Auðvitað fann ég vel fyrir því hvað dómsmálaráðuneytið er erfitt ráðuneyti. Það snýr oft að málum sem eru mjög persónuleg fyrir fólk og varða mannréttindi þess. Stundum á gagnrýnin alveg rétt á sér og það þarf auðvitað að hafa eftirlit með lögreglu og valdastofnunum. En stundum finnst mér gagnrýnin mjög ómálefnaleg, óvægin og tilfinningahlaðin. En ég tók það aldrei inn á mig og hafði gaman að því að takast á við þessar áskoranir. Það þýðir ekkert að vera í pólitík ef maður ætlar að taka hlutina mikið inn á sig. Og ég hef aldrei lent í neinu alvarlegu aðkasti eða eitthvað slíkt og er bara þakklát fyrir það.“

Óvinsælar skoðanir 

Sigríður hafði uppi óvinsælar skoðanir í kórónuveirufaraldrinum og var ein af þeim fáu sem opinberlega talaði um að aðgerðir í faraldrinum hafi gengið of langt og staðið of lengi:

„Þetta var mjög merkilegur tími og maður uppgötvaði að mjög margir vilja bara fá einfaldar leiðbeiningar í lífinu og treysta þeim án þess að spyrja neinna spurninga. Það kom mér á óvart að tala við jafnvel ungt frjálshyggjufólk sem viðurkenndi fyrir mér að það væri bara svo hrætt að það væri tilbúið að láta öll prinsipp frá sér. Þetta var eftir á að hyggja algjör sturlun og mjög mikið rugl. Þegar lögreglan var farin að mæta á glugga í unglingapartýum og banka upp á, löngu eftir að það var komið í ljós að hættan var ekki sú sem talið var í upphafi. Lagaheimildirnar til allra þessara aðgerða voru bara ekki til staðar, en það var bara ekkert hlustað á það. Jafnvel þegar dómur féll um ólögmæti aðgerða í kringum sóttvarnarhús var það bara eins og að skvetta vatni á gæs. Það gerði enginn neitt með það og engin umræða fór fram um afsögn ráðherrans eða annað í þeim dúr. Mig óraði ekki fyrir því hvað þetta yrði langur tími og hve lengi fólk sætti sig við þessar aðgerðir. Það hefur mikið verið rannsakað hvernig ákveðin tegund af múgsefjun getur átt sér stað og fólk horfir oft til baka í sögunni og skilur ekki hvernig ákveðnir hlutir gátu gerst. En ég held að það þurfi ekkert að rannsaka múgsefjum neitt frekar. Nú höfum við bara lifandi dæmi um hvernig það virkar.  Það er að skapa þennan mikla ótta um eitthvað og fá svo fólk til fylgis við sig þegar það er óttaslegið.”

Elt af lögreglu 

Sigríður tekur í þættinum persónulegt dæmi af einum morgni þar sem hún var elt af lögreglu á tíma þar sem eftirlit með fólki var orðið býsna mikið:

„Það var auðvitað fullt af fólki að æfa á þessum tíma og ég hef alltaf verið að æfa og við komum okkur bara upp „underground“ aðstöðu. Ég var þingmaður á þessum tíma og einn morguninn er ég að keyra um klukkan 6 og það er lögreglubíll á eftir mér og enginn annar á götunum. Svo keyri ég áfram og beygi inn götur og lögreglan alltaf á eftir mér og á endanum er ég kominn inn botnlanga og lögreglan er enn á eftir mér. Ég fann að ég varð bara hrædd og drap á bílnum og á endanum sneri lögreglan við og fór. En ég man að þarna hugsaði ég: „Hvert erum við eiginlega komin“. Ég var ekki að fara að fremja einhvern agalega glæp, heldur bara að fara að lyfta lóðum. Þetta fyrir mér var orðið hræðilegt þjóðfélag, þar sem að miðaldra húsmóðir í Vesturbænum er hrædd af því að lögreglan er á eftir henni þegar hún er að fara í ræktina. Ég er ekki efni í neinn glæpamann og fattaði það þarna. Mér hugnast ekki svona eftirlitssamfélag þar sem stjórnvöld eru farin að grípa svona mikið inn í líf þegnanna.“

Sigríður segist enn hafa áhuga á stjórnmálum, þó að hún njóti þess að starfa við lögmennsku og finnst margt gott við að vera ekki lengur í ati stjórnmálanna:

„Ég get alveg sagt það af heiðarleika að mjög margir koma að máli við mig og biðja mig um að fara aftur í stjórnmál. Mér þykir mjög vænt um það og það er alltaf gott að vita að það sé einhver eftirspurn eftir þínum starfskröftum. En ég segi stundum við fólk að mér finnist ég stundum vera meira í pólitík en kjörnir fulltrúar sem sumir tjá nánast aldrei skoðanir sínar opinberlega. Það er hægt að vera í stjórnmálum og hafa áhrif án þess að vera kjörinn fulltrúi. Þannig að ég kýs að líta svo á að ég sé enn í stjórnmálum með því að mæta hingað og tala og beita mér í þjóðmálaumræðunni og þú ert að gera það líka með því að vera með þennan þátt. Ég þreytist ekki að benda ungu fólki á að það geti haft mikil áhrif þó að það henti ekki öllum að vera kjörnir fulltrúar.

Það er hægt að hafa mikil áhrif án þess að vera inn í hinum formlega ramma stjórnmálanna. En ég útiloka ekkert þegar kemur að möguleikanum á að fara aftur formlega inn í stjórnmál. En ég er ekki að fara að gera það á DD listanum hans Bolla.“

Hægt er að hlusta á brot úr þáttum Sölva á hlaðvarpsvef mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda