Stórleikkonurnar og æskuvinkonurnar, Halldóra Geirharðsdóttir og Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, eru byrjaðar með hlaðvarp þar sem allt er látið flakka. Þær eru óhræddar, hispurslausar og í hlaðvarpinu skín í gegn hvað þær eru fyndnar og skemmtilegar.
Hlaðvarpið Á ég að hend’enni snýst um tiltekt hið innra sem hið ytra en er fyrst og fremst trúnó þeirra vinkvennanna um allt milli himins og jarðar. Þær vinkonur eiga engin leyndarmál og það er ekkert þeim óviðkomandi.
Leiðir þeirra Halldóru og Steinunnar lágu fyrst saman í Þjóðleikhúsinu, þegar þær voru 10 og 11 ára. Þá léku þær saman í Óvitum eftir Guðrúnu Helgadóttur. Í sýningunni léku börn fullorðna og fullorðnir börn.
Unglingárunum eyddu þær á Hressó og á Hallærisplaninu en Steinunn segir að það sé mildi að hún hafi haldið tánum eftir þrálátar göngur hennar og Halldóru um miðbæ Reykjavíkur í Kínaskóm um helgarnætur.
„Að ganga um bæinn að veturlagi í Kínaskóm er náttúrlega bara eins og að fara berfættur á Everest,“ segir Steinunn og bætir við að Halldóra hafi alltaf verið skynsamari vinkonan enda hafi hún klæðst föðurlandi í öllum veðrum.
„Ég var allavega alltaf með vettlinga,“ segir Halldóra og Steinunn bætir við:
„Þess vegna hélst þú alltaf á Anhäuser flöskunni.“
„Við höfum fundið okkur nýjan leikvöll,“ segir Halldóra um hlaðvarp þeirra vinkvennanna. „Við erum bara í algjöru flæði, erum að gera þetta allt sjálfar og ég er að finna alveg nýja týpu inni í mér. Ég er að elska að klippa og ganga frá þáttunum okkar, ég er búin að finna minn innri tæknimann, tæknimann sem ég vissi ekki að byggi innra með mér,“ segir Halldóra.
„Áhugi og geta Halldóru á þessu sviði hentar mér stórkostlega vel,“ segir Steinunn sem segist ekki hafa snefil af tæknigetu en bætir við að ekki sé hún hissa. „Halldóra er bara svona týpa, ef hún fær áhuga á einhverju þá verður hún bara fáránlega góð í því.“
Nú eru komnir átta þættir í loftið af hlaðvarpinu Á ég að hend’enni og eru þeir hver öðrum skemmtilegri. Stundum fíflast þær Steinunn og Halldóra eins og þeim er einum lagið en stundum er kafað dýpra þar sem ástin, dauðinn og eilífðin eiga sinn stað og tíma.
Hægt er að hlusta á þáttinn hér fyrir neðan: