Þorleifur Örn Arnarsson og Erna Mist Yamagata eru að vinna saman í fyrsta sinn í sýningunni Köttur á heitu blikkþaki. Þau segja að það sé engin greining á milli vinnu og einkalífs heldur flæði þetta allt saman í eitt.
„Við erum alltaf að ræða samfélagsmálin og listina, bæði innanlands og erlendis. Oft ræðum við vinnuna heima en þetta heltekur ekki sambandið,“ segir Þorleifur.
„Eða að við erum bara svo fullkomlega blind á það,“ segir hún og hlær.
„Svo tókst þú þig til og málaðir þrjú málverk af leikmyndinni,“ segir hann.
„Það er bara af því ég kann ekki á þessi teikniforrit sem leikmyndahönnuðir nota. Ég er málari,“ segir hún og brosir.
„Málverkin fóru bara upp á vegg í leikhúsinu. Það er svo gaman og svo magnað í ferlinu, af því að hún mætti með málverkin varð þetta svo metaforískt og stemningsþrungið að takast á við dýpstu þrár, vonir og væntingar manneskjunnar,“ segir hann.
„Málverkið slær svo ljóðrænan tón,“ segir hún.
Þegar Erna og Þorleifur voru nýbyrjuð að hittast gistu þau á InterContinental hótelinu í Vínarborg. Erna sótti mikinn innblástur í hótelið þegar hún gerði leikmynd verksins. Hótelið hýsti öll helstu fyrirmenni heimsins hér á árum áður þegar Vínarborg var heimsótt.
„Í miðju hótelanddyrinu er mögnuð kristallsljósakróna sem gnæfir yfir allan barinn. Þessi ljósakróna hleður salinn gylltu andrúmslofti en myndar á sama tíma ákveðið búr utan um mannskapinn,“ segir hann.
„Hún táknar í senn ákveðið ríkidæmi og glerþak,“ segir hún.
Það er ekki hægt að hitta ástfangið fólk án þess að spyrja það hvernig það hafi kynnst.
„Mætti ekki segja að við höfum kynnst í Mogganum?“ segir Erna, sem hefur birt skoðanapistla í blaðinu um samfélagsmál.
„Jú, ég rakst á grein eftir Ernu, sem ég vissi engin deili á,“ segir hann.
Og hugsaðir þú bara, hvaða meistari er þetta?
„Það er ekkert oft sem þú lest einhvern texta úr þessu litla samfélagi og hugsar: Hver er þetta? Þetta snerti mig ofboðslega djúpt. Ég hugsa, þarna er einhver ofboðslega magnaður hugsuður sem bæði mótar og sér heiminn og ég fann að þetta væri manneskja sem mig langaði að kynnast. Ég vissi engin deili á henni og vissi ekki hvernig hún leit út. Vissi ekkert. Ég gúgglaði hana, fann hana á Instagram og addaði henni,“ segir hann.
„Ég vissi hver hann var og þekkti hann í gegnum sýningarnar hans. Það er svo fyndið með listamenn – oft þekkir maður þá að vissu leyti án þess að hafa nokkurn tímann hitt manneskjuna. Persónuleikinn skín í gegnum verkin sem maður skapar,“ segir hún.
„Einhverjum vikum síðar sat ég inni í stofu og var að skrolla og þá poppaði upp Story hjá Ernu á Instagram. Þá var hún í New York og var á söngleik sem heitir The Book of Mormon, sem er skrifuð af South Park-genginu og mig hefur lengi langað að sjá. Ég droppaði skilaboðum á hana og sagði: „Nú er ég öfundsjúkur.“ Ég fékk strax svar og við byrjuðum að skrifast á, gátum í rauninni ekki hætt að skrifast á og nú er komið ár og fjórir dagar síðan þetta hófst,“ segir hann.
„Þetta var svona samtal sem vildi ekki enda,“ segir Erna.
Hvernig verða jólin í ár?
„Nú búum við saman,“ segir hún.
„Við erum að skapa heimilið, það er búið að ganga á miklu, barn á leiðinni,“ segir hann.
„Það kemur vonandi ekki fyrr en eftir jól,“ segir Erna, sem er komin rúmlega 30 vikur á leið.
„Barnið er sett þremur vikum eftir frumsýningu. Mjög óvænt ólétta,“ segir hún.
„Við erum að smíða okkar fyrsta listaverk saman, okkar fyrsta heimili, tengja fjölskyldur saman,“ segir hann.
„Þetta verða samsett jól,“ segir hún.
„Auðvitað er þetta ekki alltaf auðvelt. Það er svo margt að gerast á stuttum tíma,“ segir hann.
„Við búum að þessu samtali sem hefur aldrei hætt,“ segir Erna, sem tengir vel við jólin.
„Ég er mikið jólabarn. Ég skrifa og mála mest á þessum myrka árstíma því ímyndunaraflið fer á flug í skammdeginu. Ég er ekki mikið sumarbarn, sólin varpar of björtu ljósi á umheiminn. Mín listræna vinna reiðir sig kannski á flóttann inn á við, og það er auðveldara að hverfa inn í sig þegar umhverfið er kalt og stormasamt. En desember er hlýr þó að hann sé kaldur. Mig vermir við tilhugsunina um jólaljósin og hvernig þau lýsa upp frosna byggð, heimabakstur, heitt súkkulaði og jólabókaflóðið. Þetta er hátíð huggulegheitanna,“ segir hún.
En þú Þorleifur, ert þú jólabarn?
„Ég er alinn upp á leiklistarheimili. Við vorum fimm systkini og það var mikill atgangur og brambolt um jólin. Jólin voru oft mjög mikið stress en þótt ég eigi góðar minningar um að skreyta jólatréð með pabba var alltaf kominn einhver slaki um áramótin og þar raungerist hið hátíðlega hjá mér,“ segir hann.
Er það vegna þess að þá byrjar formlega nýtt tímabil?
„Tíminn milli jóla og nýárs er ekki eiginlegur tími. Þetta er tímalaust tækifæri endurlits, uppgjörs og stöðutöku. Ég hugsa hlutina í ferli, hvað hefur vel farið og hvað hefur ekki gengið nógu vel. Auðvitað kemur inn á það að systir mín féll frá fyrir 20 árum og síðan þá hefur fjölskyldan alltaf komið saman og haldið minningarstund um áramótin. Þessi stund er svo heilög. Í 15 ár hef ég verið í alþjóðlegum ferli og það hefur gefist lítill tími til að njóta þess sem þú segir að sé svo fallegt við jólin,“ segir Þorleifur og lítur á Ernu.
Hvernig geta tvær skapandi manneskjur búið sér til heimili?
„Finnst þér ég ekki hreinlát?“ segir hún og hlær.
„Erna bjó ein í stúdíóinu sínu. Það eru mikil umskipti. Í fataskáp mínum er allt í röð og reglu en hennar helmingur er eins og sprengja,“ segir hann
„Þú ert búinn að vera fjölskyldufaðir í 15 ár. Þú kannt að umgangast fólk og heimili,“ segir hún og hlær.
Þannig að þú ert að læra að vera í sambúð núna, Erna?
„Já, ég er gjarnari á að skilja málverk og föt eftir úti um allt,“ segir hún en í ljós kemur að hún er þó ekki bara að drasla til á heimilinu heldur er virk í að fegra það.
„Innanhússlega séð ert þú sterkari,“ segir hann og játar að hafa litla sem enga rýmisgreind.
„Þú ert duglegri við heimilisstörfin, og ég er duglegri við að velja hluti inn,“ segir hún.
„Heimili er listrænt verkefni utan um líðan okkar. Heimili er framlenging af okkur sjálfum og sambandi okkar,“ segir hún
„Þú vildir rífa þetta eldhús og byrja upp á nýtt,“ segir hann og bendir á ægifagra innréttingu sem prýðir eldhúsið sem er frá Bulthaup.
„Þá kom sér vel að vera í lýðræðislegu sambandi,“ segir hún.
Hvað um jólagjafir? Hvað langar ykkur í í jólagjöf?
„Ég væri til í eitthvað sem bara þú gætir gefið mér. Eitthvað sem er ekki hægt að kaupa,“ segir hún og lítur á Þorleif.
„Þetta er alltaf svona. Þegar maður er að flytja inn og að smíða líf koma stór útgjöld sem er ekkert gaman að gera að jólagjöf. Maður leggur í ákveðin fjárútlát. Það gerist á ákveðnum tímapunkti í lífinu og það flækir jólagjafapælinguna,“ segir hann.
„Mig grunar að ég fái bara gjafir handa barninu í jólagjöf og því væri jólagjöfin frá þér eina jólagjöfin sem væri fyrir mig,“ segir hún.
„Ég er með alltaf með skýra jólagjafastefnu. Mér finnst aðalatriðið í jólagjöf að þú upplifir á gjöfinni að viðkomandi hafi tekið til hliðar tíma til að hugsa um þig. Það skiptir ekki máli hvort þetta er stór eða lítil gjöf heldur tíminn sem var varið í ákvörðunartökuna. Það er tíminn sem maður fékk í hugarheimi einhvers annars,“ segir hann.