„Ég hugsa aldrei um hvort ég sé ungleg, það skiptir mig engu máli“

Listir og menning hafa leikið stórt hlutverk í lífi Þórunnar …
Listir og menning hafa leikið stórt hlutverk í lífi Þórunnar Sigurðardóttur frá því hún var ung stúlka. Morgunblaðið/Karítas

Þórunn Sigurðardóttir er mikill menningarviti. Hún á að baki áratuga langan feril á sviði menningarmála og hefur afrekað margt, ansi magnað og mikilvægt, í gegnum ævina. Hún lét til sín taka á leiksviðinu á yngri árum sínum en sneri sér síðar að menningarstjórnun og gegndi meðal annars stöðu listræns stjórnanda Listahátíðar í Reykjavík á árunum 2000 til 2008.

Þórunn fagnaði 80 ára afmæli sínu með pomp og prakt í sameiginlegri veislu með eiginmanni sínum, Stefáni Baldurssyni leikstjóra, síðastliðið haust, í Tjarnarbíói, húsinu þar sem tókust með þeim ástir fyrir rúmri hálfri öld.

Þrátt fyrir að vera komin á hið svokallaða „gulláraskeið“, tímabilið þar sem flestir setja tærnar upp í loft og byrja að njóta efri áranna, er Þórunn hvergi nærri hætt að auðga og dýpka listalífið hér á landi og er nú að ljúka stóru verkefni sem tengist stofnun þjóðaróperu á Íslandi, enda spáir hún ekkert í aldurinn og segir ástríðu fyrir menningu drífandi afl í lífi sínu.

„Ég er alin upp við mikinn kúltúr“

Þórunn er Reykvíkingur í húð og hár, fædd og uppalin í höfuðborginni. Hún er næstelst sex barna hjónanna Sigurðar E. Ólasonar, hæstaréttarlögmanns og deildarstjóra í fjármálaráðuneytinu, og Unnar Kolbeinsdóttur kennara. Þórunn segir foreldra sína hafa byrjað snemma að kynna þeim systkinunum þann mikla menningararf sem leikrit og leikhús hafa að geyma.

„Foreldrar mínir voru menningarsinnaðir, mamma var vel lesin og áhugasöm um allt sem var að gerast í samfélaginu og pabbi var músíkalskur og hafði gaman af söng. Ég var alin upp við mikinn kúltúr, enda af þessari kynslóð sem kemur fyrst inn í Þjóðleikhúsið sem barn, en það opnaði dyr sínar árið 1950, eða þegar ég er sex ára gömul. Ég sá allar barnasýningarnar sem voru settar á svið og þannig kviknaði þessi óbilandi áhugi minn á leiklist.“

Þórunn er að eigin sögn mikið borgarbarn. Hún átti góða og fjöruga æsku, enda hluti af stórum systkinahópi.

„Ég átti skemmtilega æsku, það var alltaf mikið fjör og mikil læti í okkur krökkunum. Ég var send í sveit, líkt og tíðkaðist hér á árum áður, og átti dásamlegar stundir á Kvískerjum í Öræfum. Unglingsárin reyndust mér þó erfið, það var ekki fyrr en ég fór í leiklistarnámið að ég virkilega fann mig. Ég útskrifaðist úr Leiklistarskóla Leikfélags Reykjavíkur árið 1967 eftir fjögurra ára nám og lék á sviði um tíma, en ég áttaði mig fljótlega á því að það væri ekki hægt að lifa á listinni einni og sér á Íslandi. Í framhaldinu fór ég á fullt að skrifa og leikstýra, kom að tugum leiksýninga sem leikstjóri og skrifaði nokkur leikrit sem hafa verið flutt í atvinnuleikhúsunum. Ég sinnti einnig störfum á öðrum vettvangi: ég starfaði sem blaðamaður á Vísi og síðar á Þjóðviljanum, og gerðist kennari í seinni tíð.“

Saknarðu sviðsins?

„Nei, aldrei, en Stebba finnst það voðaleg synd að ég hafi hætt snemma að leika. Dóttir mín, Unnur Ösp, er í þessu, ég er því rosalega tengd leikhúsinu, sé allt og fylgist með öllu. Ég hefði frekar haldið áfram að leikstýra og skrifa, mér fannst alveg rosalega gaman að skrifa, það hefði alveg getað orðið starfsferill minn, en hér á litla Íslandi er bara ekki hægt að gefa sér að það sé hægt að vinna við eitthvað eitt.“

Þórunn segir mikilvægt að vernda menningararf landsins.
Þórunn segir mikilvægt að vernda menningararf landsins. Morgunblaðið/Karítas

Kynntust í leikhúsinu

Þórunn kynntist eiginmanni sínum í leikhúsinu þegar Stefán var aðstoðarleikstjóri sýningar í Iðnó sem nefnist Yvonne Búrgundarprinsessa. Þórunn lék aðalhlutverkið þar. Ástin hitti þau þó ekki í hjartastað fyrr en tveimur árum síðar þegar Stefán leikstýrði Þórunni í Poppleiknum Óla sem sýndur var í Tjarnarbíói.

„Leiklistaráhuginn leiddi okkur saman á sínum tíma og nú höfum við verið gift í 54 ár. Við höfum brallað ýmislegt í gegnum árin, fluttum til Svíþjóðar, nánar tiltekið til Stokkhólms, og fórum þar í nám, en þar varð ég ófrísk að syni okkar, Baldri Stefánssyni framkvæmdastjóra. Við fluttum aftur heim þegar hann var nokkurra mánaða og fórum á fullt í leikhúsinu og tókum einnig þátt í stofnun Barnaheimilisins Óss, sem var fyrsti foreldrarekni leikskólinn á Íslandi.“

Hver er lykillinn að hjónabandinu?

„Það snýst allt um að leyfa hvort öðru að vera það sjálft. Við erum mjög ólík, gætum varla verið ólíkari og erum til dæmis ekki sammála um leikhús,“ segir Þórunn og hlær. „En við höfum alltaf stutt hvort annað, annars væri þetta ekki hægt.“

Þórunn og Stefán eiga tvö börn, fyrrnefndan Baldur og Unni Ösp leikkonu. Auk þess eiga þau sjö barnabörn sem þau sinna mikið.

„Ég varð amma 55 ára gömul. Barnabörnin eru sannarlega skemmtileg viðbót við lífið. Þú ert ekki alveg með sömu skyldurnar eins og foreldri en færð að njóta ávinningsins. Við erum mjög náin heild, njótum þess að verja tíma saman og erum dugleg að ferðast vítt og breitt um heiminn.“

Þórunn vinnur nú hörðum höndum að stofnun Þjóðaróperu.
Þórunn vinnur nú hörðum höndum að stofnun Þjóðaróperu. Morgunblaðið/Karítas

Hugsar aldrei um aldurinn

Þórunn fagnaði áttræðisafmæli sínu á síðasta ári, umkringd fjölskyldu, vinum og vandamönnum. Aðspurð segist hún ekkert hugsa um aldurinn, enda með aðra hluti til að láta hugann reika um.

„Ég hugsa aldrei um hvort ég sé ungleg, það skiptir mig engu máli. Ég er það sem ég er, það er bara þannig. Ég hef um margt annað og mikilvægara að hugsa en hvort ég sé ungleg. Fólk verður bara gamalt af því að hugsa um það, það fær bara áhyggjuhrukkur. Móðir mín lést 94 ára gömul, fyrir nokkrum árum, við vorum mjög nánar. Hún var mjög lengi aktíf og mikil fyrirmynd fyrir mig.“

Hvernig heldur þú þér aktífri?

„Með því að vera skapandi í störfum mínum og tómstundum, það gefur mér alveg rosalega mikið. Ég syndi, fer helst annan hvern dag í laugina, mér finnst það yndislegt, ég hef alltaf reynt að stunda einhverja hreyfingu.“

Hefur lífsviðhorf þitt breyst með aldrinum?
„Ég hef lært mikið af reynslunni og af góðu fólki. Það skiptir máli að taka sjálfan sig ekki of hátíðlega, það deyr enginn þótt mikið gangi á.“

Gengur beint í verkið

Þórunn hefur komið víða við og er hokin af reynslu á sviði menningarmála. Hún hefur aldrei skorast undan áskorun, enda var henni snemma kennt að standa á eigin fótum.

„Pabbi var mjög harður á því að við þyrftum að standa okkur, fara að heiman, vera sjálfstæð. Okkur systkinunum var snemma kennt að standa á eigin fótum.“

Þessi mikilvæga lexía hefur hjálpað Þórunni að takast á við stór verkefni og standa í lappirnar þegar á móti blæs, líkt og þegar hún tók við Menningarborginni, en það kom mörgum á óvart þegar kona var ráðin til að sinna svona stóru verkefni.

„Í borgarstjórnarkosningunum 1994 var ég að vinna fyrir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur verðandi borgarstjóra. Hún setti mig í stjórn Listahátíðar og þar með breyttist líf mitt. Fljótlega var ég beðin að taka við stjórn Menningarborgarinnar, sem var risastórt, alþjóðlegt verkefni, með átta öðrum borgum. Ráðningin kom mér mjög á óvart og ábyggilega fleirum þar sem ég var eina konan í stjórnendahópnum. Það voru allt karlar sem stjórnuðu hinum borgunum, þeir mændu á mig eins og fyrirbæri þegar ég mætti á svæðið, þetta var þessi tími, þótt það sé ekki lengra síðan, en samstarfið gekk mjög vel.“

Þórunn fékk Þorgerði Ingólfsdóttur, tónlistarkennara og kórstjóra, til að stjórna kór allra borganna, sem varð stærsta verkefni Menningarborgarinnar, eina verkefnið sem allar borgirnar tóku þátt í.

„Við Þorgerður erum nýbúnar að rifja þetta upp og hún sagði einmitt við mig: „Þú varst ekkert að hugsa um hvort ég væri kona eða karl,“ sem er alveg rétt, ég var bara að hugsa um að vera með almennilegan stjórnanda. Ráðning Þorgerðar kom körlunum heldur betur á óvart, þeim fannst þetta fráleit hugmynd, en um leið og þeir kynntust henni sáu þeir að hún var metnaðargjörn og tilbúin að leggja allt í verkefnið, sem hún gerði.“
Þórunn var listrænn stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík á árunum 2000 til 2008 og kynnti landsmönnum menningu ýmissa landa. Ber þar ef til vill hvað hæst komu frönsku „Risessunnar“ sem gekk um götur Reykjavíkur við mikinn fögnuð borgarbúa árið 2007. Þegar Þórunn lauk stjórnartíð sinni fór hún að kenna, kenndi nemendum við Listaháskóla Íslands og Háskólann á Bifröst, og gerðist einnig stjórnarformaður Ago, rekstrarfélags Hörpu.

Finnst þér þú ekkert eiga skilið að pústa eftir öll þessi ár í menningarbransanum?
„Nei, það á enginn neitt skilið, mér finnst það ekki. Ég held áfram á meðan ég geri gagn, hef heilsuna í lagi og finnst þetta skemmtilegt. Ef ég ætti að horfa yfir ævina og segja hvað skiptir mestu máli þá er það samstarf mitt við annað fólk, ég vil halda því áfram.“

Þjóðarópera skiptir máli

Þórunn er formaður undirbúningsnefndar um stofnun Þjóðaróperu, sem nýverið skilaði af sér frumvarpi sem fór fyrir síðasta þing en tókst ekki að ljúka.

Hvernig komst þú inn í þetta verkefni?
„Fyrir tveimur árum bað Lilja Dögg Alfreðsdóttir, þáverandi menningar- og ferðamálaráðherra, mig að koma inn í þetta verkefni, sem hefur étið upp allan tíma minn síðustu misseri. Þetta er ekki nýtt af nálinni, enda 70 ár síðan fyrsta frumvarpið í þessa veru kom fram. Mönnum finnst einfaldlega kominn tími til að sönglistinni verði komið í fastara form og söngvarar fái kost á sambærilegu starfsumhverfi og leikarar, hljóðfæraleikarar og dansarar.“

Um hvað snýst þetta?
„Frumvarpið leggur til að listgreinin starfi undir regnhlíf Þjóðleikhússins en verði með aðsetur í Hörpu, nýti innviðina sem fyrir eru, hafi listrænt sjálfstæði og ráðherraskipaðan óperustjóra. Það leggur til öfluga og metnaðarfulla stofnun með samfellda starfsemi sem getur fært íslensku menningarlífi aukinn kraft og fagmennsku og loksins veitt óperulistinni fastan sess á Íslandi. Við leggju áherslu á að vinna með grasrótinni, skólum og landsbyggð að nýsköpun og fjölbreyttri starfsemi.“

Ertu bjartsýn á framhaldið?
„Já, ég er það. Logi Einarsson, nýskipaður menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, hefur tekið þetta föstum tökum, við treystum því að nú takist að klára þetta. Hér ríkir mikil söngmenning, annar hver maður syngur, kóramenningin er stórkostleg hér. Söngröddin er eiginlega þjóðarhljóðfæri Íslendinga. Það er mikil samstaða á bak við frumvarpið, söngvarar hafa leitt þessa miklu vinnu og í opinberri samráðsgátt birtust 22 umsagnir og í umsagnargátt Alþingis 34. Af öllum þessum 56 umsögnum var aðeins ein sem talaði gegn frumvarpinu. Hún var frá Íslensku óperunni. Mér finnst það synd, því frumvarpið byggist sannarlega á löngu og farsælu starfi Íslensku óperunnar. En nú er ekki eftir neinu að bíða að klára þetta, málið hefur verið í fimm ár í vinnslu í ráðuneytinu og nú er allt tilbúið til að taka skrefið. Það verður gríðarleg framför fyrir íslenskt menningarlíf og löngu tímabært.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda