Á heimssýningunni í Osaka, Japan, 29. maí verður íslenska þjóðardeginum fagnað í Norræna skálanum með stórfenglegri dagskrá. Yfirskrift dagsins er: Friður og jafnrétti og verður forseti Íslands, frú Halla Tómasdóttir, sérstakur heiðursgestur. Þau Björn Skúlason munu bæði ferðast utan til að vera viðstödd sýninguna.
Forsetahjónin verða í Japan dagana 26. maí-1. júní en sýningin opnaði í apríl og stendur fram í október.
Í tilkynningu á vef forsetaembættisins segir að Ísland taki þátt í samnorrænum sýningarskála ásamt hinum Norðurlöndunum; Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð.
Á íslenska þjóðardeginum verður veitt innsýn í íslenska menningu í gegnum fræðandi samtöl, tónlist, bókmenntir og hönnun.
„Meðal þeirra sem koma fram er tónlistarfólkið Ásgeir, JFDR og Gabríel Ólafs, rithöfundurinn Rán Flygenring sem mun kynna bók sína Vigdísi, bókin um fyrsta konuforsetann sem nýverið kom út á japönsku og hönnuðirnir Flétta og Ýrúrarí sem bjóða gestum upp á verðlaunapítsurnar sínar unnar úr ullarafgöngum,“ segir Álfrún Pálsdóttir, fagstjóri almennatengsla hjá Íslandsstofu.
Norræni skálinn er allur hinn glæsilegasti eins og gefur að líta á meðfylgjandi myndum.