„Ég var einu sinni látin lita á mér hárið fjórum sinnum á tveimur mánuðum“

Móeiður Ylfa Káradóttir hefur verið á ferð og flugi seinasta …
Móeiður Ylfa Káradóttir hefur verið á ferð og flugi seinasta árið. Ljósmynd/Livio Mancinelli

Móeiður Ylfa Káradóttir hefur verið á ferð og flugi síðan hún lauk stúdentsprófi við Verzlunarskóla Íslands í fyrra. Hún hefur hefur verið að fóta sig í fyrirsætubransanum og í kjölfarið þurft að ferðast mikið þar sem hún er með skrifstofur víða um heiminn. 

„Ég fór beint úr útskriftarferðinni til Mílanó og var þar yfir sumarið, kom svo heim í smá, fór svo til Þýskalands, var bæði í Hamborg og Berlín. Síðan fór ég til Aþenu í smá tíma. Um jólin var ég í Los Angeles hjá systur minni og svo fór ég aftur til Mílanó og var þar í tvo mánuði og hef síðan verið heima eftir það,“ segir Móeiður. Síðustu mánuðir hafa verið annasamir hjá henni en þegar hún minnist á systur sína þá á hún við Sólveigu Káradóttur, sem er einn eigandi tískufyrirtækisins Galvan London sem eru samfeðra. 

Móeiður í Hamborg og mynd af Navigli hverfinu í Mílanó.
Móeiður í Hamborg og mynd af Navigli hverfinu í Mílanó. Samsett mynd

Móeiður er með skrifstofu í Mílanó, Aþenu, París, Þýskalandi og Istanbúl.

„Þegar ég er kölluð út þá er planið alltaf að fá verkefni en það er aldrei víst. Fyrsta árið fer rosalega mikið í uppbyggingu þannig að þú ert að reyna að fara í sem flestar myndatökur til að safna í möppuna þína og síðan færðu einhverjar vinnur samhliða því en ekkert endilega eitthvað stórt.“

Hún segir það geta verið einmanalegt að flakka svona mikið á milli staða ef þú hittir ekki á rétta fólkið. Hún hefur þó verið heppin að geta verið mikið með vinkonu sinni, Áslaugu Maríu Guðjónsdóttur, sem er í sama bransa og hún. Þær bjuggu saman þegar hún dvaldi í Mílanó. Hún segir þetta allt hafa verið mjög þroskandi og lærdómsríkt.

Móeiður ásamt vinkonu sinni Áslaugu Maríu, þær bjuggu saman í …
Móeiður ásamt vinkonu sinni Áslaugu Maríu, þær bjuggu saman í Mílanó. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig er týpískur dagur sem fyrirsæta?

„Haha, það er góð spurning, það getur verið svo mismunandi en maður fær alltaf tölvupóst á kvöldin með áætluninni fyrir næsta dag. Ég var til dæmis núna á tískuvikunni í Mílanó og þá er maður bara að hlaupa á milli staða. Þetta eru tvær vikur þar sem þú ert kannski að fara í fimm prufur (e.casting) á dag á mismunandi stöðum. Þú þarft bara að bíða í röð í marga klukkutíma í von um að þeim lítist vel á þig og vilji taka myndir eða þú þarft bara að fara strax og fara á næsta stað.“

„Svo koma dagar þar sem maður er ekki að gera neitt. Þetta hentar mér vel því mér þykir gaman að gera ólíka hluti þar sem dagurinn er aldrei eins. Svo hef ég kynnst svo mikið af ólíku fólki og það hefur verið gaman að vera með mörgum svona skapandi og fá innblástur frá þeim.“

Móeiður þurfti að lita á sér hárið fjórum sinnum á …
Móeiður þurfti að lita á sér hárið fjórum sinnum á tveimur mánuðum. Samsett mynd

Heill dagur fór í að taka myndir af fótunum

„Í fyrstu vinnunni sem ég fékk í Mílanó fór heill tökudagur í það að taka myndir af fótunum mínum. Þetta var fyrir myndir af sokkum og sokkabuxum, það var mjög áhugaverð vinna. Svo var ég reyndar látin skipta um öll fötin í leiðinni þótt það hefði bara verið að mynda á mér fæturna.“

„Ég var einu sinni látin lita á mér hárið fjórum sinnum á tveimur mánuðum því að allar skrifstofurnar mínar vildu sitthvort „lúkkið“, það lýsir því vel hvað þetta er einstakur bransi.“

Ljósmynd/Livio Mancinelli

Hvað er skemmtilegasta verkefni sem þú hefur tekið að þér?

„Mér þótti mjög gaman núna nýlega þegar ég var í verkefni fyrir Yeoman, það var mjög skemmtilegt og teymið var líka mjög skemmtilegt. Svo þegar ég var í Berlín þá skipulögðu ég og systir mín svona prufutökur (e. testshoot) fyrir möppuna mína og við unnum saman að því að velja flíkur og svo var ljósmyndarinn frábær, en systir mín á tískufyrirtæki með vinkonum sínum og við notuðum föt frá þeim í þessum tökum.“ 

„Á tískuvikunni í Mílanó labbaði ég fyrir nokkur minni merki og það var mjög góð reynsla. Svo fór ég í prufu (e. casting) hjá fullt af merkjum sem ég lít mikið upp til eins og Gucci, Prada og Armani og það var mjög gaman að fá að sjá höfuðstöðvarnar þeirra.“

Hér er Móeiður á veitingastaðnum Gloria Osteria sem er í …
Hér er Móeiður á veitingastaðnum Gloria Osteria sem er í Brera-hverfinu í Mílanó sem hún mælir með. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig fannst þér að búa í Mílanó?

„Mílanó er í raun frekar lítil borg. Eitt uppáhaldshverfið mitt heitir Brera og þar er fullt af litlum sætum búðum og mjög næs veitingastaður sem heitir Gloria Osteria. “

„Hverfið sem við bjuggum fyrst í heitir Navigli og þar eru alltaf ótrúlega skemmtilegir og sætir markaðir, mig minnir seinasta sunnudag hvers mánaðar. Þar er verið að selja föt, skartgripi og antíkvörur. Það var líka bara gaman að fylgjast með tískunni hjá fólkinu sem býr þarna og ég fékk mikinn innblástur frá þeim. Ég og Áslaug fórum mjög oft á veitingastað í Navigli sem heitir Shri Gansesh, hann er ekki fínn en mjög heimilislegur og þetta er besti indverski matur sem ég hef fengið.“

Markaðurinn í Brera er skemmtilegur.
Markaðurinn í Brera er skemmtilegur. Samsett mynd

Finnst þér stíllinn þinn hafa breyst eftir að þú fluttir út?

„Já hundrað prósent, ég hef alltaf verslað mikið „second hand“ og ég er kannski meira í því að kaupa eitthvað sem er aðeins dýrara og ég veit að ég get notað í lengri tíma. Ég hef alltaf klætt mig í frekar hlutlausum litum en núna hef ég kannski frekar verið að fá mér fleiri liti. Eins og þegar það var enn kalt úti fannst mér gaman að vera með litríkan trefil eða húfu.“

Móeiður segist taka eftir mun á klæðaburði ungra stráka heima á Íslandi og úti í Mílanó.

„Ég hef líka tekið eftir því að yngri strákar þar eru meira að spá í tísku heldur en heima. Fólk setur mikinn metnað í það sem þau klæðast.“

Hér er Móeiður í hlutverki fyrirsætunnar.
Hér er Móeiður í hlutverki fyrirsætunnar. Ljósmynd/Saga Sig

Hvar þykir skemmtilegast að versla?

„Á Íslandi elska ég að versla í Hringekjunni og úti er ég mikið að versla á mörkuðum og svo er fullt af „vintage“ búðum í Mílanó sem eru mjög flottar. Maður getur verið rosa heppinn bara í búðum eins og Humana en svo eru líka svona aðeins dýrari búðir eins og Bivio og Cavalli e Nastri, mig langar alltaf að kaupa allt inni í þeirri búð,“ segir Móa kímin.

Hefurðu rekist á einhverja fræga á öllu þessu ferðalagi?

„Þegar ég fór til Parísar að hitta skrifstofur þegar tískuvikan var í gangi þar, þá sá ég Jared Leto, Sófíu Vergara, Adríönu Lima og Jaden Smith. “

Hér má sjá ljósmyndir af ævintýrum Móeiðar eins og til …
Hér má sjá ljósmyndir af ævintýrum Móeiðar eins og til dæmis röðina í prufur fyrir myndatöku. Samsett mynd

„Hundrað prósent harður heimur“

Kröfurnar í fyrirsætuheiminum geta verið harðar. Móeiður lýsir því hvernig þær hafi batnað um tíma og voru því ekki jafn brenglaðar en nú sé þetta aftur að versna af einhverri ástæðu.

„Það eru sérstakar kröfur um mælingar sem þú þarft að uppfylla en í raun og veru skiptir það ekki máli ef þú nærð ekki alveg að uppfylla þær ef að fyrirtækið fílar þig, þá skiptir það ekki máli. Það eru kannski frekar skrifstofurnar sem eru með þessar kröfur en maður verður bara að standa með sínu og ekki bera sig saman við aðra. Þetta er hundrað prósent harður heimur og maður þarf að vera góður við sjálfan sig og hugsa vel um sig.“

„Maður er ekki látinn fylgja einhverju ákveðnu mataræði en þetta snýst líka bara um það að vera heilbrigður og hreyfa sig og borða hollan mat. Svo þarftu líka að leyfa þér eitthvað annars bara gengur þetta ekki, þetta snýst allt um jafnvægi.“

Móeiður segir að það sé mikilvægt að huga að heilsunni …
Móeiður segir að það sé mikilvægt að huga að heilsunni og standa með sér sjálfum. Ljósmynd/Livio Mancinelli
Móeiður verslar mest af notuðum fötum eða „second hand.“
Móeiður verslar mest af notuðum fötum eða „second hand.“ Samsett mynd
Móeiður fór til Aþenu á seinasta ári til að sinna …
Móeiður fór til Aþenu á seinasta ári til að sinna fyrirsætustörfum. Ljósmynd/Aðsend






mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu og umsjónarmaður Meðvirknipodcastsins

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda

fasteignasali svarar spurningum lesenda