Félag sem kallar sig Smókingfélagið eða „Tuxedo Society“ hefur vakið mikla athygli undanfarið. Félagið er aðeins fyrir þá ríku og myndarlegu en yfirskrift félagsins er; „Aðlaðandi fólk sem gerir aðlaðandi hluti á aðlaðandi stöðum.“
Félagið er nýr evrópskur einkaklúbbur og eru meðlimir sérstaklega valdir inn. Það má sækja um aðild á heimasíðu félagsins og þeir sem komast í gegnum nálaraugað verða að heilla eigendur í einkaviðtali. Ársgjaldið er í kringum 860 þúsund krónur en það er aðeins byrjunin.
Í Smókingfélaginu eru nokkrar ferðir á ári sem kosta frá 700 þúsund krónum og hátt í 8,5 milljónir króna fyrir hvern og einn. Hver viðburður er festur á filmu af ljósmyndurum og kvikmyndatökufólki og viðburðunum deilt af meðlimum klúbbsins. Fagurfræðin spilar stórt hlutverk í klúbbnum en þar verða allir að vera fallegir, vel klæddir og helst grannir.
Stofnendur klúbbsins eru þeir ítölsku Gabriele Bonini og Filippo P M di Custoza. Samkvæmt þeirra samfélagsmiðlum njóta þeir lífsins á stórum snekkjum, helst með kampavínsglas, klæddir rúskinnsmokkasínum og auðvitað fínustu ítölsku jakkafötum sem völ er á.
„Við búumst við að Tuxedo Society verði einn virtasti klúbbur í heiminum,“ sagði Bonini í samtali við GQ.
Eftir að félagið opnaði fyrir umsóknir hefur það verið harðlega gagnrýnt á samfélagsmiðlum. Fólki þykir félagið helst vandræðalegt, pínlegt og óraunverulegt. Aðrir segja smókingstrákana hafa kveikt á svokölluðum stéttarkvíða á meðal fólks á samfélagsmiðlum.
Ferðirnar sem meðlimir klúbbsins hafa farið í hingað til eru meðal annars til staða eins og Mónakó, Toskana, Como-vatns á Ítalíu og Cannes í Suður-Frakklandi.
„Við erum ekki alltaf í smóking en við klæðum okkur alltaf með stæl,“ sagði hann um fatnaðinn og bætti því við að ljót föt geti skemmt annars fallega ljósmynd.
Í hjarta félagsins er sú trú um að fágun er ekki aðeins fyrir konungsfólk heldur má kenna það og læra. Félagið býður upp á vinnustofur sem hjálpar meðlimum í að bæta sig í klæðaburði og talanda til dæmis.
Þá læra meðlimir allt um það hvernig skal reykja vindla, haga sér í borðhaldi, læra um vín og hóflega áfengisdrykkju, hvernig það á að kynna sig, klæða sig fyrir brúðkaup eða nota samfélagsmiðla.
Þrátt fyrir mikla gagnrýni fyrir lífsstílinn á samfélagsmiðlum hefur umsóknum rignt inn. Nú eru aðeins 40 meðlimir í klúbbnum en búist er við að 100 manns í viðbót verði hleypt inn á næstu mánuðum.