Benedikt Erlingsson leikari, leikstjóri og rithöfundur er gestur í hlaðvarpsþættinum Labbitúr. Haraldur Þorleifsson er umsjónvarmaður þáttarins. Í þættinum röltu þeir um götur miðbæjarins og í samtali þeirra var ýmislegt rætt.
Benedikt, sem hóf feril sinn í grínþáttunum Fóstbræður árið 1997, hefur síðan þá vakið alþjóðlega athygli fyrir kvikmyndir á borð við Hross í oss og Kona fer í stríð. Hann lýsir ástríðu sinni fyrir frásögn sem listrænni iðju. Hann ber hana saman við tónverk þar sem allt snýst um að halda áheyrendum við efnið – með því að leika sér með væntingar og flæði.
Þrátt fyrir að kvikmyndir hans hafi oft sterk tengsl við náttúru og sveitir landsins, á Benedikt djúpar rætur í borginni.
„Afi minn var einn af þeim sem byggði Hljómskálann. Hann kom hingað til Reykjavíkur frá Eyrarbakka, gekk í lúðrasveitina Hörpu,“ segir hann og rekur einnig ættartengsl sín til Skúla Magnússonar, föður Reykjavíkur, og hvernig forfeður hans misstu eignarrétt yfir Viðey.
Þessi tenging við borgarsögu Íslands endurspeglast í næmni hans fyrir þjóðarsálinni og þeirri spennu sem liggur í samspili einstaklings og samfélags – þema sem oft kemur fyrir í verkum hans.
Aðspurður hvað hann sé að vinna að um þessar mundir svarar Benedikt:
„Ég er að ganga frá þessari dönsku seríu – eða þetta er ekki dönsk, þetta er íslensk sería. Sjónvarpssería sem heitir Danska konan.“
Serían, sem Benedikt skrifar ásamt Ólafi Agli Egilssyni, verður frumsýnd á RÚV á næsta ári og segir frá danskri konu sem flytur til Íslands og er óvenjuleg blanda af Rambó og Línu Langsokk, að sögn Benedikts.
„Serían er mikil fantasía og allegoría. Ég skrifaði þetta eiginlega fyrir mína yndislegu fyrrverandi eiginkonu... Ég bauð henni meira að segja hlutverkið eftir skilnaðinn. Ég var náttúrulega algjör sjálfhverfa að ætlast til þess að hún myndi það. Ég vildi bara vera eins og Ingmar Bergman að leikstýra fyrrverandi eiginkonu minni,“ segir Benedikt og er þá að vísa í leikkonuna Charlottu Böving en leiðir þeirra skildi 2020.
Það er ekki nýtt fyrir Benedikt að skrifa sterka og eftirminnilega kvenkaraktera. Kvikmyndin Kona fer í stríð hlaut mikið lof fyrir bæði myndræna nálgun og persónudýpt. Hann hefur lýst mikilvægi þess að skapa umhverfi þar sem allir í sköpunarteymi geta kastað fram hugmyndum, góðum sem slæmum.
„Því góðu hugmyndirnar koma af þeim slæmu,“ segir hann.
Hægt er að hlusta á þáttinn hér fyrir neðan: