Blankur um þrítugt og milljarðamæringur um fimmtugt

Charlie Munger á sínum yngri árum.
Charlie Munger á sínum yngri árum. Skjáskot/Youtube

Milljarðamæringurinn Charlie Munger hefur verið kallaður goðsagnakenndur fjárfestir og var í rúma sex áratugi hægri hönd eins þekktasta fjárfestis heims, Warrens Buffet, en Buffet sagði sjálfur að bandaríska fjárfestingafyrirtækið og móðurfélagið Berkshire Hathaway hefði aldrei orðið að því sem það varð ef Mungers hefði ekki notið við.

Munger var aðstoðarforstjóri Berkshire Hathaway allt til dauðadags. Berkshire Hathaway var með höfuðstöðvar í Omaha Nebraska, þar sem Munger ólst upp. Fyrirtækið á og rekur tugi dótturfyrirtækja og á hlut í mörgum af stærstu fyrirtækjum heims.

Fyrirtækið er þekkt fyrir óvanalega langtímasýn og varfærni, að kaupa fyrirtæki á sanngjörnu verði og að halda eignum lengi. Ein af stefnum fyrirtækisins er að verja mestum fjármunum í fjárfestingakosti sem gefa mest, t.a.m Coca Cola og American Express.

Warren Buffet til vinstri og Charlie Munger til hægri, þeir …
Warren Buffet til vinstri og Charlie Munger til hægri, þeir voru taldir „góðir“ fjárfestar en ekki „vondir“ eins og svo margir aðrir. Skjáskot/Youtube

Áfall eftir áfall

Munger fæddist inn í millistéttarfjölskyldu, 1. janúar 1924. Faðir hans var lögfræðingur og móðir hans húsfreyja. Þegar Munger var barn reið kreppan mikla yfir Bandaríkin seint á 3. áratugnum og fram til þess fjórða. Fjölskyldan upplifði mikla fjárhagserfiðleika og var Munger ungur að aldri, líkt og aðrir fjölskyldumeðlimir, sendur út á vinnumarkaðinn. Sú reynsla átti þátt í sýn hans á peninga og sparsemi og hvernig hann mat fjármuni síðar á ævinni.

Árið 1943, þá nítján ára, hætti Munger í grunnnámi til að taka þátt í seinni heimsstyrjöldinni með flugher Bandaríkjamanna. Þrátt fyrir að skorta háskólagráðu varð dugnaður og vinnusemi hans til þess að hann fékk stöðu sem liðsforingi og starf sem veðurfræðingur hjá hernum. Leið Mungers einkenndist af því að komast áfram þrátt fyrir að hafa ekki lokið grunnnámi og komst hann m.a. inn í lögfræðideild Harvard-háskóla.

„Stóru peningarnir eru ekki í kaupum og sölu, þá er …
„Stóru peningarnir eru ekki í kaupum og sölu, þá er að finna í biðinni.“ Skjáskot/Youtube

Munger giftist Nancy Jean Huggins 1945, þá 21 árs. Þau skildu átta árum síðar og fékk Huggins hús þeirra hjóna eftir skilnaðinn. Munger eignaðist sjö börn um ævina (níu ef stjúpbörn eru meðtalin), þrjú með Huggins og fjögur með seinni eiginkonu sinni, Nancy Barry Borthwick, en hún átti tvö úr fyrra sambandi. Borthwick lést árið 2010.

Um þrítugt missti Munger son sinn Teddy úr hvítblæði, ári eftir að hann og Huggins skildu. Sem ástríkur faðir gegndi hann skyldum sínum eins og hann gat, varði tíma með hinum börnunum sínum, starfaði sem lögfræðingur, dvaldi löngum stundum með syni sínum á sjúkrahúsinu og varði öllu sínu sparifé í sjúkrahúskostnað – á tímum þar sem sjúkratryggingar voru af skornum skammti og árángursríkar meðferðir skorti.

Teddy lést á tíunda aldursári. Á þeim tíma er sagt að Munger hafi verið þunglyndur, yfirbugaður af sorg og blankur. Munger bjó í lítilli íbúð og keyrði um á bílskrjóði.

„Aldrei vorkenna sjálfum þér, ef barnið þitt er að deyja úr krabbameini, ekki vorkenna þér, aldrei vorkenna sjálfum þér.“ 

Munger hóf starfsferilinn sem lögfræðingur.
Munger hóf starfsferilinn sem lögfræðingur. Skjáskot/Youtube

Leiðin upp

Munger starfaði sem lögfræðingur fyrir lítið fyrirtæki sem framleiddi spennubreyta í Pasadena og hafði á þessum tíma, eftir fráfall sonar síns, áttað sig á að ef hann ætlaði sér einhvern tímann að verða ríkur þyrfti hann að fara eftir elsta bragðinu í bókinni og eignast sitt eigið fyrirtæki. 

Hann keypti því hlut í fyrirtækinu og notaði til þess allt sitt sparifé auk þess að taka fyrir því lán. Fyrirtækið gekk í gegnum rekstrarerfiðleika og þurfti Munger að stíga inn, með góðum árangri. Hann áttaði sig þó á að auðveldara yrði að fjárfesta í „góðum“ fyrirtækjum og fylgdi þeirri stefnu þaðan í frá. 

Um það leyti sem Los Angeles var að verða önnur stærsta borg Bandaríkjanna, þegar um 3.000 manns fluttu til borgarinnar á mánuði, sá Munger tækifæri í því og fjárfesti í byggingafyrirtækjum og má segja að boltinn hafi farið að rúlla. 

Snemma á 7. áratugnum fjárfesti Munger í fyrirtæki Buffets og aðstoðaði hann mikið við reksturinn. Þeir fóru að fjárfesta saman í gegnum Berkshire Hathaway, fyrirtæki sem Buffet átti stóran hlut í. 

Þeir tækluðu hvert verkefnið á fætur öðru í sameiningu, stórt og smátt, og gerðu Berkshire Hathaway að einu áhrifamesta fyrirtæki heims.

Einn þekktasti fjárfestir heims, Warren Buffet, leit alltaf mikið upp …
Einn þekktasti fjárfestir heims, Warren Buffet, leit alltaf mikið upp til Mungers. Skjáskot/Youtube
Berkshire Hathaway, eitt þekktasta fjárfestingafyrirtæki heims.
Berkshire Hathaway, eitt þekktasta fjárfestingafyrirtæki heims. Skjáskot/Youtube

Eitthvað sem hægt er að læra af

Á netinu er víða að finna margar tilvitnanir í orð Mungers, sem voru mjög fróðleg, sem og sýn hans á lífið, sem var afar áhugaverð. Munger lýsir sjálfum sér sem hrokafullum af náttúrunnar hendi í síðasta viðtali sínu við fjölmiðlakonuna Becky Quick fyrir sjónvarpsstöðina CNBC, sem tekið var 14. nóvember 2023, en hann lést tveimur vikum síðar, 28. nóvember, þá 99 ára að aldri.

Í sama viðtali segist hann snemma hafa áttað sig á að hann væri eflaust klárari en meðalmaður og ákvað að nýta sér það. Hann lærði allt frá eðlis- og stærðfræði til félags- og sálfræði. Jafnvel arkitektúr.

Spurður í sama viðtali hvort eitthvað væri eftir á lífslistanum byrjaði Munger á að segja: „Ég er svo miklu eldri í dag heldur en þegar ég var 96 ára að mig langar ekkert lengur til að veiða 90 kílóa túnfisk. Til þess þarf of mikinn líkamlegan styrk.“

Munger í síðasta viðtalinu sínu, sem var tekið tveimur vikum …
Munger í síðasta viðtalinu sínu, sem var tekið tveimur vikum áður en hann lést, við fjölmiðlakonuna Becky Quick. Skjáskot/Youtube

Munger kaus að búa í sama húsinu nánast allt sitt líf. Hann hefði vel getað keypt sér hvaða fasteign sem var og lifað sem greifi en kaus að gera það ekki og segist hafa gert það af ásettu ráði. Þetta kom fram í áðurnefndu viðtali. Spurður um ástæðuna svaraði hann að það hefði ekki orðið gott fyrir börnin. Það hefði spillt þeim. Þau læri það sem fyrir þeim er haft.

„Við fylgdumst með vinum okkar sem urðu ríkir byggja þessi fínu hús. Í nánast öllum tilfellum gerði það manneskjuna minna hamingjusama, ekki hamingjusamari.“

Það er erfitt að hugsa sér það en sjálfum fannst Munger hann hefði getað gert betur í fjárfestingum ef hann hefði verið ögn snjallari og ögn sneggri, og ef svo væri, þá hefði hann orðið mun ríkari en hann hafði þegar orðið. 



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu og umsjónarmaður Meðvirknipodcastsins

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda

fasteignasali svarar spurningum lesenda