Helgi Hrafn Gunnarsson, fyrrverandi þingmaður Pírata, er kominn í flíspeysuna hans Daða Más Kristóferssonar fjármálaráðherra. Það var kærasta Helga, Eva Pandora Baldursdóttir, einnig fyrrverandi þingmaður Pírata og er nú í Viðreisn, sem gaf honum peysuna. Hún greiddi 50 þúsund krónur fyrir peysuna sem var boðin upp um helgina á Landsþingsboði Viðreisnar.
„Helgi Hrafn í frægu flíspeysunni hans Daða Más fjármálaráðherra, sem ég keypti á Landsþingsuppboði Viðreisnar. Ég er ekki frá því að hún sé strax farin að hafa áhrif. Hvar endar þetta, spyr ég nú bara?!“ skrifar Eva undir mynd af Helga Hrafni á Facebook.
Á myndinni situr Helgi í fagurgulum Strandmon-stól úr Ikea, í flíspeysunni og með bók í hönd.
Myndin hefur vakið athygli á samfélagsmiðlum og skrifaði Daði Már við myndina: „Hún fer honum mun betur en mér!“ Þorgerður Katrín skrifaði: „Þetta er bara stórkostlegt og dálítið fallegt!“