Ingvar E. Sigurðsson, einn virtasti leikari Íslandssögunnar, rölti nýverið með Haraldi „Halla“ Þorleifssyni í gegnum miðborg Reykjavíkur í hlaðvarpsþættinum Labbitúr. Þar deilir hann dýrmætum viskuperlum, myndrænum líkingum og persónulegum sögum af löndum og farsælum ferli á sviði, í þáttum og kvikmyndum.
Hann lýsir því að þó áhuginn hafi verið þar snemma, hafi draumurinn lengi virst fáránlegur:
„Þetta var svo óraunhæfur draumur fyrir mig. Þetta var alveg fáránlegur draumur. Þetta var ekkert þannig draumur að ég hugsaði einn daginn að ég gæti þetta,“ segir Ingvar í þættinum og segir frá því að hann hafi verið feiminn sem krakki.
„Í grunnskóla var boðið upp á leikræna tjáningu. Ég var alveg að drepast úr feimni og mér fannst ég þurfa að gera eitthvað í því. Maður þurfti að stíga á svið og fara með ljóð. Það var svona byrjunin á því að ég tók skrefið í þessa átt.“
Ingvar mætir með glænýja mjöðm eftir að eiga við mikla verki vegna þess að vera, eins og hann orðar það sjálfur, fýsískur leikari. Hann lýsir því sem lífsgæðum að vera laus undan þessum verkjum.
„Svo vorum við að frumsýna þarna King and Conqueror, það eru þættir þannig að við sáum fyrstu tvo þættina. Ég er að leika aðalráðgjafa Vilhjálms sigursæla eða Villa bastarðs,“ segir Ingvar.
„Balti leikstýrir fyrsta þættinum og er framleiðandi. Þetta er allt skotið hérna heima og í þykjustunni á þetta að vera Evrópa á miðöldum, sem sagt Normandí, Belgía og England. Allt tekið upp í nágrenni Reykjavíkur og RVK Studios.“
Aðspurður hvort þetta hafi alltaf verið draumur hans svarar Ingvar af einlægni:
„Sko, já, þetta hefur alltaf heillað mig. Ég man eftir að fara í leikhús með pabba og mömmu þegar ég var lítill og mér fannst þetta rosalega heillandi. Fyrsta leikhúsupplifun mín – þá var ég hræddur. Ég man hvað ég var skelfingu lostinn við Bessa (úr Litla og Stóra Kláusi). Þetta eru fyrstu leikhúsminningarnar.“
Leiklistin hefur verið ferðalag sjálfskoðunar, aga og tjáningu fyrir Ingvar. Hann segist í dag vera orðinn þjálfaður í að horfa hlutlaust á eigin frammistöðu.
„Ég er orðinn svo þjálfaður í því að taka sjálfan mig út úr þessu dæmi. Sjá þetta svona hlutlaust. Næstum því, maður getur það náttúrlega ekki alveg.“
Aðspurður hvort hann hafi einhvern tíma horft og fundist hann lélegur gefur hann skýrt svar en ræðir lærdóminn sem felst í ferlinu:
„Maður getur líka lært af þeim sem eru að byrja. Þetta er eilífur skóli. Mér finnst líka gott að hugsa það þannig að maður er alltaf að æfa sig. Af því þá er hætta á því að maður þykist hafa þetta allt í hendi. Verður eiginlega alltaf að hugsa þetta eins maður sé að byrja.
Þetta er alltaf nýtt, meira að segja þegar þú ert að leika á sviði. Hvert einasta kvöld er nýtt fyrir þér. Þótt þú sért búinn að leika efnið hundrað og eitthvað sinnum, þá er alltaf nýr áhorfendahópur og nýr dagur.
Ég man eftir einni sýningunni þar sem ég var að leika eitthvert mesta karlrembusvín í heimi og ég man mér fannst vanta einhverja þyngd. Svo ég fór í leiðangur að finna þunga karlmannsskó og mér fannst þeir hjálpa mér svo mikið. Fannst þeir hafa kveikt á þessu jarðarelementi sem ég þurfti.“
Ingvar er einstaklega sjónrænn í sínum svörum og notar sterkar líkingar. Hann rifjar til dæmis upp orð ítalsks leikstjóra:
„Leikarinn ætti að gera sem minnst og ekki neitt. Eins lítið og hann kemst upp með. Jafnvel þótt hann sé í skerandi angist, þá er kannski búið að byggja það þannig upp að ekki þurfi að sýna það.“
Ingvar segir að það sé ekki hægt að þvinga neitt fram.
„Það er líka þessi þjálfun í því að vera spontant, kvikur, eins og allt sé nýtt. Þú lærir þá tækni líka, að koma sjálfum þér á óvart. Ég hef stundum lýst því þannig að það að vera leikari er eins og að vera knapi og hesturinn undir þér er karakterinn. Hesturinn er frjáls af því að hesturinn vill leika. Þá þvingar þú ekki hestinn, heldur þú tekur í tauminn ef hann er að fara of mikið. Þú getur stjórnað honum. Leikarinn stjórnar karakternum sem hann er að leika, en karakterinn er frjáls og leikarinn má ekki stjórna honum of mikið.“
Hægt er að hlusta á þáttinn hér fyrir neðan: