Atli Steinn Guðmundsson blaðamaður hjá Morgunblaðinu og Unnur Jóhannsdóttir eru nýtt par. Atli Steinn greindi frá þessu í löngu máli á Facebook. Hann nýtti afmælisdag kærustunnar til að greina frá sambandinu.
„Facebook getur komið manni í þá vafasömu stöðu að manni finnist maður skulda einhverjar skýringar. Ég skulda einhverja peninga, annað ekki. En þegar á fjórða þúsund manns sem tengjast manni hér, margir vinir, fleiri kunningjar og jafnvel enn fleiri sem ég þekki bara ekki neitt, deila með manni skírnum, fermingum og útskriftum barna sinna, andlátum foreldra sinna, afa og amma, botnlangaaðgerðum, áferð hægða að morgni, svo og svo mörgum edrú árum í faðmi AA, já, eða því þegar góður vinur minn opinberaði þá gullfallegu staðreynd nýlega að hann væri yfir sig hamingjusamur í sambandi með karlmanni (góður drengur sem ég borðaði með á Hard Rock í Kringlunni fyrir 25 árum á afmælinu hans, pantaði Hurricane-kokteilinn fræga honum að óvörum og hann leit litverpur í augu mér og hvíslaði skjálfandi röddu „Atli, það halda allir að við séum hommar!“)...já, þegar þessir á fjórða þúsund manns, svo ég taki upp þráðinn eftir langar og margar innskotssetningar, deila öllu þessu með manni ætla ég að velja 41 árs afmælisdag nýrrar kærustu til að greina frá sambandi okkar og því að við erum – bæði eftir fjölmörg ár í Noregi – flutt þaðan lengst suður í álfu,“ skrifar hann.
Atli Steinn gifti sig í kringum áramótin en því sambandi lauk eftir aðeins nokkra mánuði.
„Mínu síðasta sambandi, litríkt sem það var, lauk sem sagt, flestir geta líklega lagt þá tvo og tvo saman án þess að fá út fimm. Engin óskapleg dramatík var á bak við það og klárlega ekki framhjáhald í ljósi gildandi sáttmála. Ekki hentar öllum hins vegar að búa saman og ég held að við Unnur getum bæði vottað það með fyrri sambönd til jarteikna að þótt almenna kenningin sé sú að Íslendingar og Norðmenn séu líkari en eineggja tvíburar eru þeir meira eins og tvíeggja einburar. Hér vil ég þó taka fram að á hvoruga þjóðina er hallað í þessari samlíkingu.“
Atli Steinn og Unnur kynntust í Sandefjord og segir hann að saklaust spjall hafi orðið að einhverju mun stærra. Bæði eru þau aðdáendur Bubba Morthens.
„Rokkið hefur sameinað fleiri en það hefur sundrað,“ skrifar Atli.
„Jæja. Ég lýk þessum pistli með upphafsorði hans, hinu merkingarþrungna jæja. Þá vitið þið það kæru vinir, kunningjar og fólkið sem ég þekki ekki neitt hér á bók. Til hamingju með daginn Unnur mín með þökk fyrir gefandi samveru frá því í maí og ákaflega óvænt en fagurt samband frá 22. maí – stúdentsdeginum mínum árið 1993. Þú varst reyndar bara átta ára þá...“