„Það er ekki mikill fókus í mínu lífsverki“

Bragi Valdimar ræddi við Harald Þorleifsson í hlaðvarpsþættinum Labbitúr.
Bragi Valdimar ræddi við Harald Þorleifsson í hlaðvarpsþættinum Labbitúr. mbl.is/Árni Sæberg

Bragi Valdimar Skúlason er gestur Haraldar Þorleifssonar í hlaðvarpsþættinum Labbitúr. Bragi Valdimar hefur um árabil verið hluti af lífi þjóðarinnar – með skop, söng, framkomu á skjá og, eins og hann segir sjálfur, smekkleysu.

Í nýjasta þætti Labbitúrs gengur hann um götur borgarinnar með Haraldi „Halla“ Þorleifssyni, þar sem þeir ræða allt frá þungarokki og jólalögum yfir í íslenskuna og gervigreind.

Varð til í kringum vefsíðuna Baggalútur

Það sem byrjaði sem tæknitilraun um aldamótin hefur á undarlegan hátt þróast í eitt vinsælasta jólaskrímsli landsins – Baggalút.

„Baggalútur er mjög einkennilegt fyrirbæri. Gamall vinahópur sem einhvern veginn raðaðist saman og þá var það í kringum vefsíðuna Baggalútur.is. Þetta var í kringum 2000. Okkur vantaði eitthvað til að prófa kerfið svo við fórum að setja inn fréttir og eitthvað bull. Upp úr því förum við að gera einhver lög og það breytist svo í þetta jólaskrímsli sem við erum enn að keyra í dag.“

Halli spyr hvort jólin hafi bara verið peningaspurning.

„Nei,“ svarar Bragi hlægjandi. „Þeir eru það kannski í dag að einhverju leyti en þetta var bara eitthvað djók að gefa út jólalag. Ég held að fyrsta jólalagið hafi verið KISS, Crazy Crazy Nights með einhverjum jólatexta sem var jólajólasveinn... okkur fannst þetta sjúklega fyndið.“

Fyrstu jólahljómarnir komu úr Iðnó árið 2006 – með ekki minni gestum en KK og Björgvini Halldórssyni. „Það voru eiginlega líka útgáfutónleikar á Hawaii-plötunni okkar.“

Hér er Bragi Valdimar ásamt félögum sínum í hljómsveitinni Baggalút.
Hér er Bragi Valdimar ásamt félögum sínum í hljómsveitinni Baggalút.

„Ég varð að orðakallinum“

Fáir vita að á bak við þennan hæfileikaríka tónlistarmann leynist háskólagenginn íslenskufræðingur sem einhvern veginn endaði sem þjóðlegur quiz-meistari. Bragi segist sjálfur hafa ratað inn í orðræðuna af rótlausri tilviljun.

„Ég varð einhvern veginn að orðakallinum. Ég var náttúrulega í íslensku þegar ég var í háskólanum og í þessu auglýsingastússi og hef alltaf haft mjög gaman af íslensku og orðaleikjum.“

Fyrst kom útvarpsþátturinn Tungubrjótur, svo Orðbragð í sjónvarpi – og loks:

„...ofan í skúffu lá hugmynd að svona gameshow-skemmtiþætti. Úr því verður þessi Kappsmálsþáttur sem ég hélt að myndi ekki beint trylla lýðinn á föstudagskvöldum en við erum að gera núna sjöunda skammtinn.“

Þótt hann virðist vera með alla greinina á hreinu segir hann leyndarmál sitt liggja í góðu baklandi:

„Fólk byrjar að passa sig mikið hvernig það talar í kringum mig en fólk veit ekki að ég er með svona tíu manns í eyranu meðan þátturinn fer í loftið, gargandi og að fletta alls konar upp. Ég læt bara mata mig á þessu. Ég veit ekki neitt. Það er bara þessi áhugi á málinu.“

Íslenskan er sprelllifandi og þess virði að streitast á móti

Bragi hefur sterkar skoðanir á stöðu íslenskunnar og framtíð hennar – en ekki endilega áhyggjur.

„Íslenskan er sprelllifandi en hún er að breytast svakalega hratt og maður sér það á krökkunum. Það eru komin ný orð inn. En ég hef engar áhyggjur af íslenskunni og við hættum að tala hana.“

Hann bætir við: „Þetta er erfið barátta. Ég veit ekki hvar þetta endar eftir 100 eða 200 ár en ég held það sé þess virði að streitast á móti.“

Á eftir að trunta upp söngleik

Þó Bragi stýri stórri markaðsstofu og fjölmiðlaþáttum kraumar skapandi óreiðan undir yfirborðinu. Hann rifjar upp verkefni sem lá í skúffu í fimmtán ár:

„Jú, ég á eftir að trunta upp söngleik. Ég setti saman handrit af diskó uppi í MH með góðu fólki... búið að liggja ofan í skúffu í fimmtán ár. Það kveikti alveg svakalega í mér.“

Og svo kemur þessi setning – sem fangar Braga Valdimar betur en flest annað:

„Maður er búinn að koma sér á stað þar sem maður getur gripið í skemmtilega hluti. Það er rosalega þægilegur staður að vera á þegar maður er jafn svona tættur í. Það er ekki mikill fókus í mínu lífsverki, erfitt að finna eina línu.“

Hér fyrir neðan er hægt að hlusta á Labbitúr: 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

tannlæknir svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu og umsjónarmaður Meðvirknipodcastsins

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda

fasteignasali svarar spurningum lesenda