„Já, ég er svona nýbyrjaður sko. Ég er ekki búinn að vera neitt svaka duglegur í því en ég er kominn með reikning og allt það,“ sagði Kristófer þegar blaðamaður innti hann eftir hvort hann væri að spara.
Þegar ein dýrasta vertíð heimilanna er rétt handan við hornið; jólavertíðin, er forvitnilegt að sjá hvað Íslendingar hafa að segja um fjármálin. Á dögunum renndi Smartland við í Kringlunni og ræddi við fólkið á ferðinni um sparnað og sparnaðarráð.
„Ég eiginlega bara hlusta á það sem mamma segir,“ sagði vinur Kristófers, Ívar, og þegar hann var spurður um hvaða ráð móðir hans gæfi honum var svarið: „Að spara eins mikið og ég get.“
Drengirnir voru alveg með þetta á tæru enda um að gera að byrja nógu ungur að spara ef fyrstu íbúðarkaup eiga að vera í sjónmáli um sextugt.
„Já, ég lenti bara sjálf í því að ég er nýbúin að vera í áfengismeðferð og það fór mikill peningur í það en nú er ég byrjuð að spara. Ég ætla að eiga góð efri ár,“ sagði Harpa og er ekki annað hægt en taka ofan af fyrir henni.
Bíbí og Ómar voru ekki alveg sammála um hvort sparað væri á heimilinu. Hann svaraði spurningunni neitandi en hún játandi, enda hefur hann enga vitneskju um það, að hennar sögn.
Að borga upp skuldirnar er eitt af sparnaðarráðunum sem komu fram í Kringlunni þennan daginn og er Dísa ein þeirra sem ráðleggur það.