Of dökkar augabrúnir gera okkur „ódýrar“

Of dökkar augabrúnir gera okkur
Of dökkar augabrúnir gera okkur "ódýrar".

Margrét R. Jónasar förðunarmeistari og eigandi Make Up Store er ekki hrifin af allt of dökkum augabrúnum eins og hafa verið ákaflega vinsælar síðustu ár. Hún segir að útlitið verði dálítið „ódýrt“þegar augabrúnirnar eru litaðar of dökkar.

„Augabrúnirnar eiga sér uppruna í Liverpool á Bretlandi. Þessar augabrúnir einkennast af því að vera þykkar, dökkar og mikið teiknaðar og þekkjast sem „Scouse“ Brows. Þetta er svona „ódýrt“ útlit ef svo má að orði komast,“ segir Margrét og játar að þetta útlit sé sem betur fer á útleið. 

„Sem betur fer virðist þetta fara minnkandi því þetta fer nánast engum vel. Þetta gerir það að verkum að yfirbragð andlitsins verður þyngra, augun virka minni og svo er þetta það eina sem fólk veitir athygli sem er náttúrulega bara kjánalegt.“

Hún segir að það fyrsta sem fagaðilar geri sé að lýsa augabrúnir á þeim sem þrá að ná langt.

„Það sést gjarnan þegar stjörnurnar „meika“ það í bransanum og fara að vinna með fagaðilum eins og „Make Up Artistum“ og stílistum þá eru augabrúnirnar gjarnan teknar í gegn með því að lýsa þær og gera þær náttúrulegri.“

Margrét segir að augabrúnir séu yfirleitt fallegastar þegar þær eru náttúrulegar og haldi sínu grunnformi.

„Oft þarf að forma þær aðeins betur þ.e. fylla inn í og/eða skerpa. Það má gera með föstum lit, blýanti eða augabrúnaskugga. Augabrúnir skipta gífurlega miklu máli rétt eins og húðin hvort viðkomandi er farðaður eður ei. Vel snyrtar augnabrúnir sem hafa réttan boga, þykkt, upphaf og endi miðað við beinabyggingu skapa meira jafnvægi milli augnanna og með réttri lögun er hægt að framkalla meiri simmetríu í andlitinu. Þegar ég fæ til mín viðskiptavini í förðun þá útskýri ég eftir bestu getu afhverju viðkomandi ætti að tóna niður augabrúnirnar ef þær eru of teiknaðar.“

Allt of dökkar augabrúnir.
Allt of dökkar augabrúnir.
mbl.is