Calvin Klein kom með einkaflugvél

Calvin Klein verður með fyrirlestur á HönnunarMars í dag.
Calvin Klein verður með fyrirlestur á HönnunarMars í dag. mbl.is/AFP

Calvin Klein kom til landsins í gær með einkaflugvél sinni en hann heldur fyrirlestur á vegum HönnunarMars í Hörpu kl. 15.00.

Það er kannski óþarfi að kynna Calvin Klein fyrir lesendum en það sakar þó ekki að rifja aðeins upp hvaða áhrif hann hafði á undirritaða.

Ferill hans hófst 1968 þegar hann stofnaði Calvin Klein-verslun sem seldi eingöngu kápur. Verslunin var á Manhattan í New York og vakti strax athygli. Ári síðar fóru hjólin að snúast fyrir alvöru þegar Klein komst á forsíðu Vogue. Fljótlega bætti hann við undirfatalínu, sportlegum hversdagsfatnaði og lagði áherslu á blazerjakka sína.

Það var svo árið 1973 sem hann fékk sín fyrstu verðlaun, Coty American Fashion Critics' Award, fyrir kvenfatalínu sem innihélt 74 hluti. Næstu ár á eftir, 1974, 1975 og 1977, fékk hann einnig sömu verðlaun. Í framhaldinu fór hann að hanna belti, skó, sólgleraugu og slæður svo eitthvað sé nefnt. Þá fór hann líka að hanna herraföt, gallaföt og setti á markað snyrtivörulínu.

Undrrituð á nokkrar Calvin Klein-minningar. Fyrst má nefna þegar allt varð tryllt þegar ilmurinn CK One kom á markað 1994. Um var að ræða fyrsta „unisex“-ilmvatnið sem sló rækilega í gegn. Í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti, þar sem undirrituð stundaði nám á þessum tíma, má segja að skólinn hafi gjörsamlega ilmað fyrir allan peninginn - þökk sé CK One. Ég legg ekki í að ímynda mér hvernig lyktin hefði verið ef allir hefðu verið hver með sinn ilminn. Það hefði náttúrlega verið agalegt ...

Ári síðar kom kennaraverkfall sem undirrituð nýtti til að fara til Bandaríkjanna sem au-pair-stúlka. Þar varð ekki þverfótað fyrir Calvin Klein og þetta sumar áttaði ég mig á hvað hann var mikil stjarna. Tískublöðin voru full af fatnaði frá honum og svo blöstu risastór auglýsingaskilti við undirritaðri þegar hún hjólaði um miðborg Boston klædd eins og kani í kakíbuxum og stuttermabol. Það sem einkenndi auglýsingarnar var hvað allir voru afslappaðir og hamingjusamir (í gallabuxum og hvítum bol). Það var líka í þessari ferð sem undirrituð eignaðist Calvin Klein-sundbol. Því miður eyðilagði klórinn í Árbæjarlauginni bolinn að lokum en hann var svo mikið uppáhalds að hvorki fyrr né síðar hefur fundist arftaki hans. Sundbolurinn var flöskugrænn með ákaflega mjóum hlýrum, alveg beinn að framan og sérstaklega vel sniðinn. Ætli hann hafi ekki verið svona mikið uppáhalds því hvorki fyrr né síðar hefur undrrituð átt jafngrennandi baðföt.

Nú svo var það Calvin Klein-gallabuxnaæðið sem gerði allt vitlaust í Reykjavík City í kringum árið 2001. Gallabuxurnar voru beinar í sniðinu og frekar lágar í mittið. Rassvasarnir á gallabuxunum þekktust í kílómetrafjarlægð enda mynduðu þeir fallega sveigu sem gerði afturendann sérstaklega lögulegan. Hver einasta „gugga“ á Reykjavíkursvæðinu átti slíkar gallabuxur. Ég notaði mínar í drasl eða þangað til það kom í alvöru gat á þær - þá breytti ég þeim í gallapils.

Hin síðari ár hefur sá gamli aðallega séð undirritaðri fyrir undirfötum - brjóstahöldum og naríum sem hefur nú aldeilis komið að góðum notum. Og ennþá gerir kappinn bestu gallabuxur í heimi sem afar gott er að kaupa í Bandaríkjunum.

Vorlína Calvin Klein 2013.
Vorlína Calvin Klein 2013. mbl.is/AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál