Munu bjóða upp á „gríðarlegt úrval af strigaskóm“

Andrea Röfn.
Andrea Röfn.

„Ég hef starfað sem fyrirsæta í tíu ár og svo verið bloggari á Trendnet.is frá opnun bloggsins árið 2012. Ég hef því verið viðloðandi tísku- og búðabransann lengi. Frá opnun Húrra Reykjavík hef ég verið dugleg að kaupa mér föt, skó og aukahluti jafnvel þó að búðin sé herrafataverslun. Þeir Jón Davíð og Sindri Snær lýstu svo yfir áhuga sínum á samstarfi við mig fyrir kvenfataverslunina og þannig fór þetta allt saman af stað,“ segir Andrea Röfn sem verður verslunarstjóri nýrrar kvenfataverslunar sem strákarnir á bak við Húrra Reykjavík eru að opna.

Að sögn Andreu verður svipaður stíll í kvenfatabúðinni og í Húrra Reykjavík fyrir karla. „Já, stíllinn er mjög svipaður. Við leggjum áherslu á „sneakers“ og falleg „streetwear“-merki í bland við fínni merki sem höfða til breiðari hóps. Sem dæmi má nefna Libertine-Libertine, Norse Projects, Carhartt WIP ásamt nýjum merkjum sem tilkynnt verða við tækifæri. Þar að auki verður gríðarlegt úrval af strigaskóm.“

Krefjandi og lærdómsríkt verkefni

Andrea segir undirbúninginn hafa gengið vel og mikla spennu vera í loftinu. „Við erum nýkomin heim af tískuvikunni í Kaupmannahöfn þar sem við gerðum pantanir, völdum merki og fengum innblástur fyrir nýju búðina. Ég hef fengið mjög mikið traust frá strákunum sem gerir þetta krefjandi en á sama tíma læri ég heilmikið á hverjum einasta degi.“

Ekki er komið á hreint hvar verslunin verður en það mun skýrast á næstu dögum að sögn Andreu. „Það sem ég get sagt núna er að verslunin verður staðsett í miðbæ Reykjavíkur, nálægt herrafataversluninni. Við stefnum á opnun í sumar.“

Libertine-Libertine, Norse Projects og Carhartt WIP eru dæmi um merki …
Libertine-Libertine, Norse Projects og Carhartt WIP eru dæmi um merki sem verða seld í versluninni.
mbl.is