„Fegurðarsamkeppnir eru ekki saklaus skemmtun“

Arna Ýr Jónsdóttir var krýnd ungfrú Ísland árið 2015. Hún …
Arna Ýr Jónsdóttir var krýnd ungfrú Ísland árið 2015. Hún dró sig úr keppninni Miss Grand International á dögunum eftir að hafa fengið þau skilaboð að hún þætti of feit. Ljósmyndari / Eggert Jóhannesson

Um helgina vakti mál Örnu Ýrar Jónsdóttur mikla athygli, en hún dró sig úr fegurðarsamkeppninni Miss Grand International eftir að hafa fengið þau skilaboð frá eiganda keppninnar að hún þætti of feit og þyrfti að grenna sig. Fegurðarsamkeppnir hafa lengið verið umdeildar, og vilja margir meina að þær ýti undir óheilbrigðar staðalmyndir. Þórdís Rúnarsdóttir, klínískur sálfræðingur, er sama sinnis, en hún segir sálfræðinga lengi hafa haft áhyggjur af áhrifum slíkra keppna.

Frétt af mbl.is: Segir Ungfrú Ísland of feita

„Sálfræðingar sem sérhæfa sig í meðferð átraskana og sjálfmyndarvanda ungs fólks hafa lengi haft áhyggjur af fegurðarsamkeppnum og þeim áhrifum sem þær hafa. Fegurðarsamkeppnir eru ekki saklaus skemmtun sem engin áhrif hefur á samfélagið,“ segir Þórdís.

„Í raun er erfitt að átta sig á því hver jákvæðu áhrif þessara samkeppna eru, eða hver tilgangurinn með þeim er. Fegurðarsamkeppnir eru einn af mörgum áhrifavöldum í samfélagi okkar sem senda út þau skaðlegu skilaboð að allar konur þurfi að falla í sama horf til að teljast samþykktar eða í lagi. Athuganir sýna að um fimm prósent kvenna falla náttúrulega í það form sem verið er að halda á lofti, 95 prósent kvenna gera það ekki nema beita hættulegum meðölum eins og krónískri megrunarhegðun sem er skaðleg fyrir líkama og sál. Allar átraskanir byrja með megrun, það er staðreynd. Þannig að við höfum mjög réttmætar áhyggjur af þessum áhrifum,“ bætir Þórdís við.

Áhrifin verst fyrir almenning

„Aðstandendur þessara keppna hafa í áratugi talað um að ekki sé sett nein pressa á keppendur hvað varðar megrun og annað, en við vitum að það er ekki rétt. Stundum er þessi pressa mjög bein og uppi á borði, stundum er hún lúmskari og meira svona milli línanna. Sum skilaboðin og ráðin sem ég hef heyrt um eru með ólíkindum, eins og að nota reglulega stólpípu, hægðalosandi lyf, notast við ýmis lyf til að ýta undir vökvatap, borða bara annan hvern dag og svo framvegis. Sumir keppendur koma út úr þessum keppnum án þess að hafa skaðast neitt, aðrar gera það hins vegar alls ekki og er allur skalinn í gangi þar. Áhrifin eru samt alltaf verst fyrir almenning sem fylgist með, eða samfélagið í heild,“ segir Þórdís og bendir á að í lokin sé þetta alltaf keppni í fegurð, sama hverju keppnishaldendur haldi fram.

„Í lokin er þetta keppni í fegurð þar sem einn staðall er augljóslega sá sem talinn er bestur. Aldrei sést neinn sérstaklega mikill munur á keppendum hvað varðar líkamsgerð og útlit. Keppnishaldarar hafa einnig í áratugi haldið fram þeim rökum að þessar keppnir auki sjálfstraust þeirra sem keppa í þeim, oft sem leið til að réttlæta keppnina sjálfa. Það er í raun virkilega merkileg staðhæfing sem gengur samt bara upp í samfélagi sem okkar, þar sem útlitspressan er gríðarleg. En raunin er sú að heilbrigt sjálfstraust byggir fyrst og fremst á því sem innra er, ekki hinu ytra. Skilaboð þessara keppna til almennings, og þá sérstaklega yngri aldurshópanna, er ekki þau að mikilvægast sé að byggja upp sjálfstraust óháð ytri viðurkenningu. Sama hvað keppnishaldarar reyna að spila fram þessu sjálfstraustsspili samræmist það ekki áhrifum þessara keppna á almenning, sérstaklega yngri aldurshópanna.“

Þórdís segir að það þurfi enga gráðu í sálfræði til …
Þórdís segir að það þurfi enga gráðu í sálfræði til þess að átta sig á því hvaða áhrif skilaboð, líkt og sú sem Arna Ýr fékk frá aðstandendum keppninnar, hafi á konur almennt. Ljósmynd / Þórdís Rúnarsdóttir

Þá segir Þórdís að ekki þurfi gráðu í sálfræði til að átta sig á þeim áhrifum sem skilaboð á borð við þau sem Arna Ýr fékk frá aðstandendum keppninnar hafi á konur almennt.

„Skilaboð sem þessi eru skaðleg því þau hafa svo mikil áhrif út frá sér. Ég get samt ekki sagt að þetta komi mikið á óvart, eftir að hafa fylgst með þessu á hliðarlínunni í 20 ár. Þessi skilaboð eru nokkuð skýr og augljós; keppnin snýst um að uppfylla væntingar sem byggja á útlitsdýrkun - ef þú spilar ekki með 100% ertu ekki gjaldgeng/ur. Ég leyfi lesendum að giska á hvaða áhrif svona skilaboð hafa á unga 13 ára stelpu sem er ekkert sérstaklega ánægð með sjálfa sig, maður þarf enga gráðu í sálfræði til að átta sig á því.“

Snýst fyrst og fremst um peninga

Þórdís telur einnig öll skilaboð þess efnis að konur eigi að vera stoltar af sjálfri sér, eins og þær eru, vera mikilvæg. Auk þess telur hún mikilvægt að konur neiti að taka þátt í umræðu um að þær séu aðeins gjaldgengar ef þær breyti sér á einhvern hátt.

„Því fleiri sem setja mörk og taka ábyrgð, þeim mun betra. Þessi markaðsöfl eru svo sterk og í lokin snýst þetta bara um peninga, það er augljóst. Eigendur þessara keppna eru engir sérstakir áhugamenn um alheimsfrið, sjálfstraustseflingu keppenda eða að greiða fyrir háskólagöngu kvenna. Þetta snýst um peninga fyrst og fremst.“ 

Þórdís segir auk þess að mikilvægt sé að sporna við þeirri útlitsdýrkun og fullkomnunaráráttu sem viðgangist í samfélaginu, enda valdi þetta tvennt mikilli óhamingju.

„Það ófullkomna er fallegt og sjarmerandi. Fullkomnun er ekki möguleiki fyrir okkur mannfólkið. Þessi útlitsdýrkun dregur okkur frá því sem skiptir virkilega máli í lífinu. Því meiri tómleiki að innan, þeim mun meiri peningum eyðum við.“

„Ein besta leiðin er að sporna við útlitsdýrkunni með öflugum forvörnum, við þurfum að kenna börnunum okkar hvað það er sem skiptir mestu máli í lífinu og það gerum við ekki ef við tökum fullan þátt í þessum leik sjálf. Við þurfum að styrkja sjálfsmynd barna, kenna þeim samkennd með sjálfum sér og öðrum, kenna þeim að það sé í lagi að vera öðruvísi, engir tveir séu eins. Við þurfum að kenna þeim að vera þakklát fyrir líkamann sinn og hvað hann getur gert, en ekki festast í gagnrýni á hann og pirringi yfir því að hann sé ekki eins og hann „ætti að vera“. Við þurfum að kenna börnum að fullkomnun sé ekki möguleg og ætti ekki einu sinni að vera æskileg. Við getum einnig skoðað okkar eigin kauphegðun og verið meðvitaðri hvað það varðar. Markaðsöflin vilja að við séum óánægð með okkur sjálf, þá kaupum við meira af vörum sem eiga að veita okkur meiri lífsfyllingu en gera það svo ekki. Ég hef líka oft nefnt hvað það skiptir miklu máli að foreldrar tali ekki illa um líkama sinn í barnanna eyru. Það skiptir rosalega miklu máli,“ segir Þórdís að endingu. 

Frétt mbl.is: Átröskun eykst hjá 40 ára og eldri

Arna Ýr uppskar mikið hrós eftir að hafa dregið sig …
Arna Ýr uppskar mikið hrós eftir að hafa dregið sig úr keppninni. Ljósmynd/Facebook síða Örnu Ýrar
mbl.is