Er hægt að laga stór ör á maga?

mbl.is/ThinkstockPhotos

Þórdís Kjartansdóttir, lýtalæknir á Dea Medica, svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér er hún spurð út í ör á maga. 

Góðan daginn,

ég er með mörg og stór ör eftir aðgerðir á maganum, er hægt að gera svuntuaðgerð í svoleiðis tilfellum? Einnig, á ég rétt á niðurgreiðslu á þannig aðgerð? 

Kveðja, Þ

Þórdís Kjartansdóttir, lýtalæknir á Dea Medica.
Þórdís Kjartansdóttir, lýtalæknir á Dea Medica. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sæl og takk fyrir spurninguna.

Það fer allt eftir hvers konar ör þú ert með hvort hægt er að fjarlægja þau með aðgerð. Ef örin eru neðan við nafla og laus húð ofan við getur sk. svuntuaðgerð komið til greina, örin fjarlægð en ör neðst á kvið og umhverfis nafla kemur í staðinn. Ef örin eru dreifð um magann og kannski inndregin þá getur lagfæring á örunum, losa þau frá vöðvalaginu og jafnvel fitusog, komið til greina. Ef örin eru mikil og hafa áhrif á þitt daglega líf þá taka sjúkratryggingar stundum þátt í kostnaðinum. Best er að byrja á að hitta lýtalækni og fá hans álit á því hvað kemur til greina í þínu tilviki.

Gangi þér vel og bestu kveðjur, 

Þórdís Kjartansdóttir lýtalæknir. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Þórdísi spurningu HÉR. 

mbl.is