Kauphegðun fólks er að breytast

Brynja Dan Gunnarsdóttir, markaðsstjóri S4S.
Brynja Dan Gunnarsdóttir, markaðsstjóri S4S. mbl.is/Rax / Ragnar Axelsson

Brynja Dan Gunnarsdóttir, markaðsstjóri S4S, segir að netverslun á Íslandi sé alltaf að aukast og að kauphegðun fólks sé að breytast mikið. Fyrst hafi fólk skoðað varning á netinu og mætt svo í búðina og keypt en nú sé þetta að breytast. Brynja er „prímus mótorinn“ í Stóra netverslunardeginum sem haldinn er í ár í þriðja sinn á laugardaginn. Þar sameinast aðilar í netverslun á Íslandi og bjóða mögnuð tilboð. 

„Þetta er risa söludagur og frábært að klára jólin á sólarhring. Í 24 klukkutíma eru allir vinir í skóginum og hjálpast að við að ýta [sic] vefverslun á Íslandi. Ég tel netið vera framtíðina svo um að gera að nýta sér þetta. Ég hef fengið ótrúlega góð viðbrögð og fullt af snöppurum og bloggurum sem taka þátt í að kynna þetta verkefni,“ segir hún. 

Hvernig er kauphegðun fólks að breytast?

„Fólk er alltaf að treysta meira og meira á netið. Fyrst var það þannig að netið var eingöngu notað til þess að skoða úrval en svo kom fólk alltaf á staðinn til þess að versla. Hins vegar er verslun að færast töluvert yfir á netið. Það eru alltaf fleiri og fleiri sem treysta veraldarvefnum fyrir kortaupplýsingunum sínum, enda engin ástæða til þess að vera hræddur við það í dag. Þetta er allt svo öruggt og allar upplýsingar trúnaðarmál að sjálfsögðu. Hins vegar er alltaf hópur sem vill frekar mæta á staðinn og ég hef alveg verið og er enn sú týpa, sem þarf að skoða og finna afurðina og máta og svona,“ segir Brynja.

Hún segir þó að fólk þurfi ekki að óttast neitt því það sé lítið mál að panta varning á netinu og skila honum ef hann passar ekki. Brynja segir að þau hjá S4S finni fyrir mikilli aukningu á netsölu á milli ára þótt Ísland sé kannski frekar aftarlega þegar kemur að þessu. 

„Unga kynslóðin er óhrædd við að versla á netinu og finnst það mun eðlilegra og þægilegra en eldri kynslóðinni. En það eru alltaf fleiri og fleiri að nýta sér þennan kost. Bæði er þetta tímasparnaður og mjög hentugt í alla staði. Að versla til skemmtunar er svo bara upplifun sem verður seint tekin af okkur en svona það sem þarf að kaupa af nauðsyn er mjög hentugt að hafa að minnsta kosti þann valkost að geta gengið frá því með nokkrum smellum og fengið það sent til sín.“

Hvað er óskalistanum þínum fyrir jólin?

„Það eru heyrnartól, svo þarf maður alltaf jóladressið. Ég er ekki enn komin á þann stað að vera bara í sama og síðast. Svo er alltaf gaman að fá eitthvað fallegt inn á heimilið og svo síðast en ekki síst þá þarf maður alltaf jólaskó. Ætli þeir verði ekki rússkins þetta árið, það er mikið um það núna. En ég fer pottþétt ekki í jólaköttinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál