Bestu snyrtivörurnar 2017

Í fyrsta sinn tekur Smartland saman þær snyrtivörur sem þóttu skara fram úr á árinu. Mikill metnaður var lagður í að setja saman þennan lista þannig að hann yrði heiðarlegur. 

SNYRTIVÖRUR

Farði ársins:

ESTÉE LAUDER DOUBLE WEAR NUDE
Sérlega léttur farði sem veitir húðinni ljómandi og jafna ásýnd en formúlan býr einnig yfir andoxunarefnum og sólarvörn SPF 30 svo hann er frábær kostur til daglegrar notkunar.

Púðurfarði ársins:

AVEDA INNER LIGHT DUAL FOUNDATION
Umhverfisvænn púðurfarði sem er talkúmlaus og hægt að nota þurran til að fá mikla þekju eða blautan fyrir léttari þekju. Endist mjög vel á húðinni og veitir náttúrulega ásýnd þrátt fyrir að vera í púðurformi. Farðinn er keyptur sem fylling og svo er hægt að kaupa sérstakar umbúðir utan um hann. Hrósa skal Aveda sérstaklega fyrir að vera fyrsta snyrtivörufyrirtækið sem framleiðir vörur sínar með 100% vindorku.

Litað dagkrem ársins:

BARE MINERALS COMPLEXION RESCUE

Mjög rakagefandi gelkennt krem sem gefur húðinni aukinn frískleika og jafnar húðlitinn. Inniheldur sólarvörn SPF 30 sem gerir kremið að frábærum kosti fyrir hversdagslega notkun.

Hyljari ársins:

LANCOME TEINT IDOLE ULTRA CAMOUFLAGE CONCEALER

Mjög þekjandi hyljari sem felur allt sem þú vilt ekki að sjáist. Endist vel á húðinni og kemur í hentugum umbúðum.

Baugabani ársins:

BECCA UNDER EYE BRIGHTENING CORRECTOR

Það allra besta til að taka burt bauga og virka ferskari samstundis. Sömuleiðis er formúlan mjúk og rakagefandi svo hún veitir augnsvæðinu unglegra yfirbragð og endist vel yfir daginn.

Farðagrunnur ársins:

BIOEFFECT EGF DAY SERUM

Þetta serum var sérstaklega hannað til að vera gott að nota undir farða og Bioeffect tókst sannarlega ætlunarverk sitt. Það veitir húðinni góðan raka sem sléttir úr fínum línum og farðinn helst mjög vel ofan á seruminu. Það skemmir svo ekki fyrir að formúlan bætir ásýnd húðarinnar til lengri tíma.

Mattandi púður ársins:

ILIA FADE INTO YOU SOFT FOCUS FINISHING POWDER
Mjög áhugaverð formúla sem blandar saman mattandi innihaldsefnum og aloe vera, vítamínum og öðrum nærandi innihaldsefnum. Létt gegnsætt púðrið er frábært yfir allan farða til að festa hann í sessi, matta ásýndina eða bara eitt og sér til að minnka umframhúðfitu og ásýnd svitahola.

Ljómapúður ársins:

BECCA SHIMMERING SKIN PERFECTOR

Becca hefur bókstaflega lýst upp skammdegið eftir að þjóðin fór að nota ljómavörurnar frá merkinu. Þetta ljómapúður er svo fínlega malað að það virðist verða eitt með húðinni. Jafnframt býður Becca upp á þó nokkra litatóna svo allir finna ljóma við sitt hæfi.

Kinnalitur ársins:

MAC POWDER BLUSH

Það á enginn séns í MAC þegar kemur að úrvali af kinnalitum, bæði þegar kemur að litum og áferðum.

Sólarpúður ársins:

BECCA SUNLIT BRONZER

Einstaklega fallegt sólarpúður sem býr yfir litarögnum sem eru ekki fullþekjandi svo þetta er mjög náttúrulegt á húðinni og auðvelt í notkun. Hægt er að byggja litinn upp en það kemur í fimm litatónum.

Augabrúnavara ársins:

ANASTASIA BEVERLY HILLS BROW WIZ

Þessi örfíni augabrúnablýantur er mjög auðveldur í notkun og hægt að fylla upp í augabrúnirnar á nákvæman hátt. Sama hvað er prófað þá er þessi blýantur alltaf tekinn upp á endanum.

Maskari ársins:

CHANEL LE VOLUME DE CHANEL

Burstahausinn er hannaður eins og snjókorn í laginu og greiðir augnhárin vel og eykur umfang þeirra. Formúlan er ilmefna- og parabenlaus og þykir jafnvel henta viðkvæmum augum ágætlega.

Augnskuggi ársins:

MAC EYE SHADOW

Augnskuggarnir frá MAC eru bæði litsterkir og boðið er upp á úrval af áferðum. Hægt er að kaupa þá einnig sem fyllingar sem er hagkvæmt.

Augnskuggapalletta ársins:

SMASHBOX COVER SHOT EYE PALETTES

Sérlega litsterkar augnskuggapallettur sem koma í sex mismunandi litasamsetningum og innihalda átta augnskugga hver. Augnskuggaformúlan er mjúk og hentar byrjendum í förðun sem og lengra komnum.

Kremaugnskuggi ársins:

MAC PRO LONGWEAR PAINT POT
Þessir kremaugnskuggar frá MAC koma bæði í möttum og metalkenndum formúlum og mjög fallegum litum. Þeir haggast ekki á augunum.

Augnblýantur ársins:

URBAN DECAY 24/7 GLIDE-ON EYE PENCIL
Silkimjúkir, koma í fjölda litatóna og endast allan daginn.

Blautur eyeliner ársins:

YVES SAINT LAURENT COUTURE LIQUID EYELINER

Burstinn auðveldar nákvæma ásetningu, formúlan hreyfist varla á augunum í langan tíma og litirnir skemmtilegir og gera mikið fyrir augnförðunina.

Varalitur ársins:

URBAN DECAY VICE LIPSTICK

Nærandi varalitir sem koma í fjölmörgum áferðum og fallegum litum. Sömuleiðis gefa þeir okkur mikið fyrir peninginn sem skilar þessum varalitum fyrsta sætinu.

Varalitablýantur ársins:

URBAN DECAY 24/7 GLIDE-ON LIP PENCIL

Líklega býður Urban Decay upp á mesta litaúrval landsins þegar kemur að varalitablýöntum en allir eru þeir silkimjúkir og mjög endingargóðir.

Fljótandi varalitur ársins:

GUERLAIN INTENSE LIQUID MATTE

Fljótandi varalitir hafa verið mjög áberandi á árinu en margir oft þurrkandi og gera varirnar ekkert voðalega girnilegar. Guerlain kom með frábæra formúlu af fljótandi varalit sem inniheldur rakasýru og nærandi innihaldsefni svo varirnar verða aldrei krumpaðar og litirnir eru hver öðrum fallegri. 

Naglalakk ársins:

GUERLAIN LA PETITE ROBE NOIRE NAIL COLOR

Ilmandi naglalakk sem endist vel og þekjan á því er góð. 

HÚÐVÖRUR

Húðvara ársins:

CLINIQUE FRESH PRESSED
Clinique kom með stórfenglega húðvöru á markað á árinu sem nefnist Fresh Pressed Daily Booster og inniheldur 10% af hreinu C-vítamíni sem kemur ferskt út úr umbúðunum þökk sé nýrri tækni. Tveimur dropum af formúlunni er blandað við dagkrem að eigin vali kvölds og morgna en samhliða er andlitshreinsir sem nefnist Fresh Pressed Renewing Powder Cleanser með hreinu C-vítamíni. Hann kemur í duftformi sem virkjast þegar því er blandað saman við vatn. Saman veitir þessi tvenna sjáanlegan árangur á skömmum tíma; húðin verður bjartari, jafnari og yfirborð hennar hreinna og sléttara.

Andlitshreinsir ársins (venjuleg/blönduð/olíukennd húð):

PAULA’S CHOICE RESIST PERFECTLY BALANCED FOAMING CLEANSER

Mjúkur og ilmefnalaus andlitshreinsir sem kemur jafnvægi á húðina og ertir hana ekki. Formúlan er jafnframt sérstaklega hönnuð til að vinna á fínum línum húðarinnar og inniheldur andoxunarefni ásamt húðgræðandi efnum á borð við keramíð.

Andlitshreinsir ársins (venjuleg/þurr/viðkvæm húð):

PAULA’S CHOICE RESIST OPTIMAL RESULTS HYDRATING CLEANSER

Fjarlægir farða af andliti og augum ásamt umfram húðfitu og önnur óhreinindi án þess að þurrka húðina. Formúlan inniheldur efni sem róa og vernda húðina og vinna gegn fínum línum.

Serum árins:

HYLAMIDE SUBQ ANTI-AGE

Serum sem býr yfir framúrstefnulegri tækni og færir okkur næstu kynslóð af formúlu gegn öldrunarmerkjum húðarinnar. 

Andlitskrem ársins:

AVEDA TULASARA RENEW MORNING CREME

Þetta rakakrem gengur fljótt inn í húðina og veitir henni góðan raka ásamt því að vernda hana gegn óæskilegum umhverfisáhrifum.

Andlitsolía ársins:

RMS BEAUTY OIL
Lífræn blanda af exótískum olíum og jurtaþykknum sem mýkja húðina samstundis og næra hana.

Augnkrem ársins:

CLARINS SUPER RESTORATIVE TOTAL EYE CONCENTRATE
Augnkrem sem kemur í pumpuformi og varðveitir þannig innihaldsefnin betur. Formúlan tekur á öllu frá fínum línum yfir í þrota.

Andlitsskrúbbur ársins:

APOEM DETOX FACE SCRUB
Náttúrulegur og mjúkur andlitsskrúbbur sem djúphreinsar húðina án þess að raska jafnvægi hennar. Laus við örplast að sjálfsögðu.

Djúphreinsimaski ársins:

HERBIVORE BLUE TANSY RESURFACING CLARITY MASK
Djúphreinsandi og kælandi maski sem endurnýjar yfirborð húðarinnar með náttúrulegum BHA- og AHA-sýrum. Yfirborð húðarinnar verður sléttara og þéttara.

Rakamaski ársins:

ORIGINS DRINK UP INTENSIVE OVERNIGHT MASK

Andlitsmaski sem samstundis veitir húðinni vellíðan og næringu og árangur sést við fyrstu notkun.

Handáburður ársins:

CHANEL LA CREME MAIN

Formúlan gengur hratt inn í húðina svo hendurnar eru ekki sleipar eftir notkun. Þessi handáburður lýsir einnig upp dökka bletti á höndunum og gerir þær unglegri ásýndar svo ekki sé talað um sérlega flottar umbúðir.

Líkamskrem ársins:

AVEDA STRESS FIX BODY LOTION
Stress Fix-líkamslínan býr yfir ilmi sem klínískar rannsóknir sýna að vinni gegn streitu svo þetta líkamskrem vinnur í raun bæði á sál og líkama.

Líkamsskrúbbur ársins:

LAVERA SMOOTHING BODY SCRUB

Inniheldur grænt te og kaffi sem örvar blóðrásina þegar formúlunni er nuddað yfir húðina og vinnur þannig gegn appelsínuhúð.

HÁRVÖRUR

Hárvörulína ársins gegn þurrki og skemmdum:

DAVINES OI

Sérlega mýkjandi hárvörur sem innihalda Roucou-olíu til að gera við hárið, mýkja og auka gljáa þess.

Hárvörulína ársins fyrir umfangsmeira hár:

BRIOGEO BLOSSOM & BLOOM

Með innihaldsefni á borð við engifer, ginseng og B5-vítamín er hárið vel hreinsað svo það komi meiri fylling í það og hársekkirnir örvaðir um leið til að greiða fyrir auknum hárvexti.

Hárvörulína ársins gegn vandamálum í hársverði:

MARIA NILA HEAD & HEAL

Sérlega góð formúla sem vinnur gegn flösu og öðrum vandamálum í hársverði, dregur úr hárlosi og örvar hárvöxt.

Hárolía ársins:

AVEDA DRY REMEDY DAILY MOISTURIZING OIL

Sílikonlaus hárolía sem samstundis eykur rakastig hársins um 41% með lífrænni buriti-olíu meðal annars. Verandi sílikonlaus hjúpar olían ekki hárið heldur vinnur að lagfæringu þess til lengri tíma.

Þurrsjampó ársins:

BRIOGEO SCALP REVIVAL CHARCOAL+BIOTIN DRY SHAMPOO

Þetta þurrsjampó lendir fyrsta sætinu því það veitir árangur bæði samstundis og til lengri tíma en það notar meðal annars Binchotan-kol til að hreinsa hársvörðinn. Það inniheldur einnig biotin-vítamín til að næra hársekkinn og styðja við aukinn hárvöxt.

Hárkrem ársins:

LABEL.M MIRACLE FIBRE

Inniheldur örtrefjar sem styðja við hvers konar hárgreiðslu án þess að þyngja hárið.

ILMUR


Dömuilmur ársins:

CHLOÉ EAU DE PARFUM

Þetta ilmvatn heldur áfram að vera táknmynd fágunar og kvenleika. Ilmurinn býr yfir sterkum ferskleika með ilmi af hvítum blómum, rósum, hunangi og sedrusvið.

Herrailmur ársins:

BOSS THE SCENT INTENSE
Kraftmikill og ómótstæðilegur herrailmur sem blandar saman leðri og krydduðum tónum.

Ilmvatnsframleiðandi ársins:

CARNER BARCELONA

Fjölskylda Söru Carner vann við leðurgerð og þegar Sara hóf að hanna ilmvötn áttu þau að endurspegla ilminn af leðri og minningum af verkstæðinu. Ilmvötnin eru að öllu leyti framleidd í Barcelona, ilmurinn og umbúðirnar, og notast við bestu spænsku hönnuðina og framleiðendurna til að skila ómótstæðilegum ilmvötnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál