Svona eru nýju Wow búningarnir

Íslenska flugfélagið WOW air mun kynna nýjan einkennisfatnað fyrir flugliða félagsins í vikunni. Gunni Hilmarsson hannaði nýja einkennisfatnaðinn en þetta er sá þriðji sem hann hannar fyrir WOW air. 

„Ég hannaði hina tvo búningana sem hafa verið notaðir á þessum tæpu sex árum frá stofnun WOW air en þessi búningur er alger breyting,“ segir Gunni og segir að flugfélagið sé í stöðugri sókn og þess vegna hafi búningunum verið breytt. 

„Eitt það skemmtilegasta við að vinna með WOW air er að orðið „stöðnun“ er ekki til. Það var engin sérstök ástæða fyrir því breyta núna önnur en sú að gera eitthvað nýtt, skemmtilegt og ferskt. Þannig er WOW air.“ 

Þegar Gunni er spurður út í gamla einkennisfatnaðinn segir hann að þeir hafi verið að virka vel. 

„Gömlu búningarnir voru frábærir, eltust vel og flugliðar voru ánægðir með þá. Við höfðum verið að framleiða þá í fjögur ár ogfyrir hverja framleiðslu breytti ég smáatriðum í sniðunum eftir að hlusta á reynslu flugliðanna. Í raun er hönnun á búningum aldrei lokið þótt útlitið sé klárt. Það þarf alltaf tíma til að fullkomna hvert snið miðað við endingu og reynslu,“ segir hann. 

Hvar sóttir þú innblástur í búningahönnunina?

„Þessi búningur er sá þriðji sem ég geri frá stofnun WOW air. Nálgun hönnunar á fyrri búningunum hafði verið með blæ frá sjötta og sjöunda áratugnum en með nýju búningana þá er ég að vinna með skarpari línur og önnur form en áður. Hann er miklu nútímalegri og meira „stylish“ að mörgu leyti. Flugliðar WOW hafa frá upphafi vakið mikla athygli á flugvöllum heimsins og ég er viss um að nýi búningurinn á eftir að vekja enn meiri athygli. Að sjá fjólubleika hópinn koma labbandi inn gangana er klárlega „WOW moment“.“

Þegar Gunni er spurður hvað einkenni góðan einkennisfatnað segir hann að fötin þurfi að virka fyrir stóran hóp.  

„Að gera búninga sem líta vel út og virka fyrir stóran hóp er ekki einfalt verkefni. Snið og efni verða að vera fullkomin og heildarútlit sterkt, flott og fyrst og fremst passa ímynd félagsins. Þegar allt þetta mætist þá ertu með góðan búning í höndunum.“ 

Hvernig er þinn smekkur á einkennisfatnaði flugfreyja og flugþjóna?

„Nýi búningurinn er klárlega að endurspegla minn smekk. Flott form, glæsileiki, flottar línur og sterk heild er það sem skiptir máli. Það er mikið til af bæði flottum og ljótum búningum hjá flugfélögum heimsins.“

„Nýju búningarnir eru úr ullarefni með örlítilli teygju. Efnið er framleitt fyrir okkur með ákveðinni áferð sem gefur efninu gljáa sem gerir WOW air litinn enn þá flottari og dýpri. Klúturinn er úr silkisiffoni sem er glæsilegt efni sem flæðir vel og skyrturnar úr bómull með smá teygju. Ég fer síðan óvenjulega leið með svuntuna sem er í sama efni og kjóllinn, pilsið og jakkinn svo útlitslega þá höldum við sama „lookinu“ á meðan flugliðar eru að fara með vagnana um ganga vélanna. WOW liturinn er óvenjulegur og ferskur. Að beiðni Skúla Mogensen sem er annálaður smekkmaður þá vildi hann hafa yfirhafnir flugfreyjanna einnig í WOW fjólubleika litnum og mun það klárlega vekja athygli. Það kemur glæsilega út og heildin er sterk. Ég er líka sérstaklega ánægður með hattinn sem er sérstaklega „cool“ og rammar inn heildina.“

Með nýja einkennisfatnaðinum vildi Gunni kalla fram breytingu og ferskara útlit. 

„Nýi búningurinn er kvenlegri og nútímalegri en á sama tíma nota ég reynslu síðustu ára svo fatnaðurinn verður bæði glæsilegur og þægilegur í senn. Ég lagði mikið upp úr að heildin væri sterk og búningarnir væri flottir við allar aðstæður sem flugliðarnir vinna við. Engar málamiðlanir.“

Hvernig eiga nýju búningarnir eftir að breyta stemningunni um borð?

„Fyrir kvenflugliðanna þá eru þeir glæsilegri og nútímalegri og herrafötunum var einnig breytt í sömu átt. Það er engin spurning að þeir sem fjúga með WOW air eiga eftir að veita þeim athygli og flugliðunum á eftir að líða alveg Wow flottum og mun stemningin um borð endurspegla það. Það er einstaklega gaman að vinna með Skúla Mogensen og hans frábæra starfsfólki þar sem gleði, framsýni og kraftur er stemningin á hverjum degi.“

Gunni Hilmarsson.
Gunni Hilmarsson.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál