Vinna upp úr fötum sem var hafnað

Umhverfismálin er Katrínu Káradóttur hugleikin. Enda mál málanna að hennar …
Umhverfismálin er Katrínu Káradóttur hugleikin. Enda mál málanna að hennar sögn. Ljósmynd/Saga Sig

Misbrigði III: Utangarðs, er andsvar við vestrænni neyslumenningu og unnið í samstarfi við Fatasöfnun Rauða krossins á Íslandi. Verkefnið er nú unnið í þriðja sinn af nemendum í fatahönnun á 2. ári við Listaháskóla Íslands í samstarfi við Fatasöfnun Rauða kross Íslands.  Sá fatnaður og textíll sem unnið er með hefur, fyrir ýmsar sakir lent utangarðs og er ósöluhæfur nema til niðurrifs. 

Katrín María Káradóttir fagstjóri fatahönnunardeildar LHÍ segir orðið utangarðs í samhengi við fatnað á eftirfarandi hátt. „Utangarðs vísar til fatnaðar og textíl sem notaður var í þessa sýningu. Fatnaður og textíll sem var keyptur en féll svo úr náðinni – hafnað af fyrri eiganda og ekki söluhæfur sem fatnaður. Söluhæfur enn sem komið er og endurvinnanlegur að hluta en með auknu framboði stefnir í að lenda meira og meira utangarðs. Utangarðs er líka með vísun í pönkið sem var mjög DIY eða GÞS (gerðu það sjálf/ur) og einhverskonar andóf gegn ríkjandi kerfi. Eitt sinn fólst andóf í að pússa ekki skóna sína og hirða ekki um föt sín – nú má að mörgu leiti segja að andóf felist í pússa skóna sína og láta fötin sín endast í stað þess að fylgja straumnum með því að kaupa stöðugt nýtt,“ segir hún.

Hvaða merkingu hefur verkefnið fyrir þig persónulega? 

„Umhverfisvandamálin er mál málanna hjá flestum sem rýna í framtíðina og hvað hún ber í skauti sér og eru orðin að algeru grunnstefi hjá flestum hönnunarskólum heimsins í dag og er Listaháskóli Íslands einn af þeim. Sem miklum náttúruunnanda er umhverfisvernd einnig mjög mikilvæg fyrir mig persónulega og hefur verið mjög lengi og mér er því bæði ljúft og skylt að varpa ljósi á þann vanda sem fata- og textíl framleiðsla leggur á náttúru jarðar en einnig á góð störf samstarfsaðila okkar, Fatasöfnun Rauðakross Íslands. Að skoða, leita að og benda á mögulegar lausnir samhliða því að kynnast ýmiskonar fatnaði og textíl, að vinna með „volume“ og skapandi hugsun með ungu og kraftmiklu fólki eru svo auðvitað forréttindi.“ 

Katrín María Káradóttir er einn þekktasti hönnuður landsins, hún er …
Katrín María Káradóttir er einn þekktasti hönnuður landsins, hún er einnig fagstjóri fatahönnunardeildar LHÍ. Ljósmynd/Saga Sig

Nú höfum við séð fjölmarga áhugaverða hönnuði sem fara erlendis að starfa, hver er þín skoðun á því?

„Við erum stolt af mörgum fyrrum nemendum sem hafa farið til starfa og framhaldsnáms erlendis sem hafa útskrifast héðan úr Listaháskólanum.  Mætti nefna Guðbjörgu Jakobsdóttur sem starfar hjá Arcteryx í Kanada sem flestir telja besta og framsæknasta útivistarfyrirtæki í heiminum, Signý Þórhallsdóttir starfar hjá Vivienne Westwood í London, Gígja Íris starfar hjá H&M í Svíþjóð og Steinunn Hrólfsdóttir einnig.

Sunna Örlygsdóttir útskrifaðist fyrir um ári frá ArtEZ Fashion Masters, Ragna Bjarnadóttir lauk MA frá KADK í vor og Arnar Már Jónsson útskrifaðist með MA frá Royal Collage of Fashion líka.  Hallgerður Hallgrímsdóttir útskrifaðist frá okkur 2007 fór svo í myndlist með ljósmyndun sem miðil í Glasgow og útskrifaðist þaðan 2011 og núna í MA námi í Svíþjóð.

Nemendur okkar hafa líka tekið þátt í Dutch Design week og nú í haust tóku nemendur á 3. ári þátt í alþjóðlegri samkeppni Balenciaga safnsins á Spáni og stóðu sig vel og áfram mætti telja.“

Að lokum bendir Katrín á að fresturinn til að skila umsóknum í BA við Listaháskóla Íslands  fyrir veturinn 2018 – 19 rennur út 9. apríl sem er nokkuð snemma miðað við marga aðra skóla.

Verkefnið Misbrigði er tvíþætt; fyrri hlutinn er sýndur á tískusýningu í Flóa, Hörpu miðvikudaginn 21.mars kl. 19; seinni hlutinn er hönnunarsýning sem opnar föstudaginn 6. apríl í Listaháskóla Íslands, Þverholti 11, kl. 17 og stendur opin þá helgi. Opnunartími sýningarinnar er frá kl. 13 -17 laugardag og sunnudag.  Hönnunarsýningunni kynnir fatnaðinn í návígi, vinnuferlið, tengt efni og þann hvata sem lá að baki verkefninu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál