Fór líklega of snemma í andlitslyftingu

66 ára gömul kona spyr út í andlitslyftingu.
66 ára gömul kona spyr út í andlitslyftingu. mbl.is/GettyImages

Þórdís Kjartansdóttir lýtalæknir svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá 66 ára gamalli konu sem er að velta fyrir sér andlitslyftingu. 

Sæl Þórdís,

Ég er 66 ára og kinnarnar eru farnar að hanga á mér, ég fór í andlitslyftingu fyrir 15 árum og hef sennilega verið of fljót á mér. Einnig er ég með djúpar hrukkur milli augna, á enni og kringum augun. Hver væri lausnin fyrir mig að láta laga þetta og hver væri kostnaðurinn?

Kær kveðja, 

BB

Þórdís Kjartansdóttir, lýtalæknir á Dea Medica.
Þórdís Kjartansdóttir, lýtalæknir á Dea Medica. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sæl og takk fyrir spurninguna.

Það getur ýmislegt komið til greina fyrir þig.  Ef þú ert farin að missa fyllingu í kinnunum og þær eru þess vegna „farnar að hanga“ þá getur fitufylling (lipofilling) í kinnarnar verið möguleiki fyrir þig. Þá er þín eigin fita fjarlægð (t.d. af magasvæði), hún hreinsuð og einangruð, henni síðan sprautað í kinnarnar til þess að fá meiri fyllingu á þær. Sú fylling er að mestu leyti varanleg þó svo alltaf hluti af fitunni rýrni. Ef aftur á móti húðin á andlitinu er farin að „lafa“ og myndar fellingar neðan og til hliðar við munnvik, þá gæti verið möguleiki að framkvæma andlitslyftinguna aftur hjá þér. Þetta þarftu að meta með lýtalækninum þínum. Fyrir hrukkurnar milli augna, á enni og kringum augun  þá hefur botox yfirleitt besta árangurinn. Það þarf að endurtaka reglulega, yfirleitt á 6 mánaða fresti.

Gangi þér vel og bestu kveðjur,

Þórdís Kjartansdóttir, lýtalæknir á Dea Medica. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Þórdísi spurningu HÉR. 

mbl.is