Svona lítur endurunna línan frá H&M út

Sænska móðurskipið H&M fer nýjar leiðir í Conscious Exclusive-línunni sem kemur í verslanir í dag. Línan er búin til úr endurunnum efnum og er silfrið í skartgripalínunni einnig endurunnið úr gömlum silfurmunum. Smartland heimsótti á dögunum Ósló, þar sem línan var kynnt fyrir tískusérfræðingum.

Conscious Exclusive er ævintýraleg á köflum og óendanlega kvenleg. H&M sótti innblástur í listrænt heimili sænsku listamannanna Karinar og Carls Larsson þegar hún var hönnuð. Línan er því mjög sænsk, sem er kostur ef fólk fílar Svíþjóð, og hún á án efa eftir að heilla þá sem elska vönduð efni og munstur. Léttir síðir kjólar eru til dæmis áberandi í línunni og fólk langar bara að drekka epladjús og lifa innihaldsríku lífi þegar það er komið í þessi föt. Það myndi enginn sprauta sig með heróíni í þessum endurunnu efnum.

Sem sagt, þetta er ekki beint partí-fatalína heldur lína fyrir þá sem vita hvað þeir ætla að gera við líf sitt.

Líf í jafnvægi

Kvenleiki og handverk koma við sögu í þessum fallegu munstrum sem einkenna línuna og að hluta til er línan gamaldags með sniðum sem henta þeim sem vilja sýna fallegar línur líkamans.

Það sem er merkilegt við línuna er að hún sjálfbær og búin til úr endurunnum efnum. Hluti af flíkunum er gerður úr endurnýttum trefjum úr fiskinetum og nælonúrgangi.

Ann-Sofie Johansson hjá H&M segir að línan marki tímamót hjá fyrirtækinu.

„Það er ótrúlega spennandi að kynna nú til sögunnar tvö sjálfbær efni. Með því að búa til ótrúlega fallegt blúnduefni úr econyl og fallega skartgripi úr endurunnu silfri höldum við áfram að stækka rammann fyrir sjálfbæra tískuhönnun. Verk Karin Larsson hafa um leið verið sett í nýtt samhengi, enda voru stílfærð mynstur hennar, djarflegar línur og notkun lita langt á undan hennar samtíð, svo sem sjá má hvarvetna á heimili þeirra hjóna. Hún var sterk og áhrifamikil kona og það er sá andi sem við reyndum að virkja,“ segir Ann-Sofie.

Þetta er sjöunda Conscious Exclusive-línan frá H&M. Í þetta skipti er línan ákaflega rómantísk og söguleg. Í henni eru til dæmis mjög heillandi nærföt, skór, skart, kjólar, skyrtur og buxur sem heilla.

Í línu ársins eru notuð lífrænt ræktuð efni á borð við hör, bómull og silki, tencel og endurunnið pólýester, en auk þessara efna er H&M með tvö ný efni á boðstólum; endurunnið silfur og econyl, sem eru 100% endurnýttar trefjar úr fiskinetum og öðrum nælonúrgangi.

Í línunni eru falleg munstur og útsaumur frá Karin sjálfri. Hún lagði mikinn metnað í heimili sitt og eiginmannsins sem var fullt af andstæðum. Hönnunarteymi H&M nýtti sér þennan innblástur til að skapa gullfalleg mynsturofin efni með blómamyndum, abstrakt útsaumsefni og þrykkt efni með mynstri sem byggir á tilteknum hlutum úr húsinu.

Flíkurnar í línunni eru margar hverjar eins og listaverk. Þar er til dæmis hvítur, skósíður, ermalaus kjóll úr econyl með útsaumi úr lífrænum bómullarþræði og grænn, skósíður kjóll úr mynsturofnu efni með málmáferð og blómamyndum, úr endurunnu pólýester.

Þar er líka buxnadragt með mynsturofnu svörtu efni með blómum sem er með klauf aftan á jakkanum og aðsniðnum buxum með útvíðum skálmum, sem gefur henni nútímalegt yfirbragð.

Litapallettan er heillandi. Hún er bæði grá og græn en svartur og hvítur koma líka við sögu ásamt dimmbláum og ljósbleikum.

Á meðal fylgihluta má nefna fíngerða en djarflega skartgripi, skreytta túlípönum, úr endurunnu silfri, glæsilega satínsandala úr endurunnu pólýester, fallegar, mynstraðar slæður úr tencel-blöndu og netta handtösku með skreytingum úr perlum og pallíettum úr endurunnu plasti.

„Þegar ég fór að kynna mér þessa línu hreifst ég mjög af hugmyndafræðinni á bak við hana og hönnunin er ekki síður heillandi. Tíska og sjálfbærni eru ekki lengur mótsagnir og mér finnst ótrúlega mikilvægt að innleiða endurnýtingu og endurvinnslu við alla tískuhönnun. Það er því gífurlega hvetjandi að sjá svona spennandi og framsækna hönnun sem byggir á endurvinnslu efnis,“ segir Christy Turlington Burns, sem er andlit H&M Conscious Exclusive-herferðarinnar í ár.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál