Þarftu smálán fyrir sumartískunni 2018?

Sumarlína Gucci 2018.
Sumarlína Gucci 2018.

Sumartískan hefur sjaldan verið eins sjarmerandi og akkúrat núna. Ef við ætlum að ganga í takt við helstu tískustrauma þurfum við að hætta að vera hræddar og leyfa okkur. Frelsi og óttaleysi er lykilorðið þetta sumarið. 

Ef þú ert vön að vera alltaf uppstríluð á himinháum hælum og ofurþröngum fötum er þessi sumartíska kannski dálítið óþægileg. Það tekur nefnilega tíma að venjast litríkum og víðum fötum. Taka eitt skref í einu og hleypa nýjum tískustraumum inn smátt og smátt. Eða þangað til þú finnur fyrir sjálfstraustinu á nýjan leik.

Hlébarðamunstur eru áberandi hjá Ganni.
Hlébarðamunstur eru áberandi hjá Ganni.

Tískumerkið Ganni, sem selt er í Geysi, er með stórkostlega sumarlínu þar sem öllu er blandað saman: Hlébarðamunstur við rósótt, blómakjólar, gulir gallajakkar og röndóttar peysur. Þar að auki koma pífur og púff við sögu. Efnin eru létt og falleg og það sem er gott við þessa línu er að hún er á ágætu verði. Það er kannski ekki hægt að segja að systurmerkið Gucci, sem kemur frá Ítalíu, sé á sama góða verðinu. Það breytir því ekki að fólk virðist ekki láta verðmiðann á Gucci stoppa sig og virðast allt of margir vera lögerfingjar Jóakims aðalandar yfirgreifa í Andabæ.

Hugmyndir hönnuða Ganni og Gucci eru þó ekki svo ólíkar.

Sumartíska Ganni 2018.
Sumartíska Ganni 2018.

Mögulega er hönnuður Ganni undir áhrifum frá Alessandro Michele, sem er listrænn stjórnandi Gucci. Hann tók við starfinu í janúar 2015 og hefur síðan hann tók við gert mjög áhugaverða hluti með Gucci og gert merkið að einu eftirsóttasta tískumerkinu á markaðnum í dag.

Michele hefur gert lógóa-tískuna óendanlega heita á ný enda enginn maður með mönnum nema vera sérmerktur í bak og fyrir. Það sem er merkilegt við þessar vinsældir er að það eru ekki bara forríkar frúr sem eru sérmerktar heldur eru það unglingspiltar sem sækja hvað mest í Gucci. Og til þess að geta fjárfest í Gucci-belti eða -stuttermabol eru menn farnir að vinna fyrir sér því Gucci-æðið spyr hvorki um stétt né stöðu eins og sagt er. Og ef fólk langar nógu mikið í eitthvað þá vinnur það bara meira með skólanum. Það er að segja ef það á ekki foreldra með samviskubit sem borga brúsann án athugasemda.

Gallinn við nútímaforeldra er að þeir eru svo uppteknir við að sigra sinn eigin heim að þeir eru með stöðugt samviskubit gagnvart börnunum sínum sem gerir það að verkum að þessir foreldrar bara borga (til þess að kaupa sér sálarfrið). Sá friður er reyndar ekkert sérstaklega góð fjárfesting til lengri tíma, en getur veitt augnabliks-hugarró.

Sumarlína Gucci 2018.
Sumarlína Gucci 2018.

Einu sinni var hægt að greina út frá klæðaburði hvort fólk ætti eitthvað undir sér eða ekki en það er snúnara í dag. Fólk virðist setja merkjavörukaup í forgang meðan mín kynslóð og kynslóð foreldra minna lagði meiri áherslu á að eignast þak yfir höfuðið en að vera í flottum fötum. Í þá daga var hvorki hægt að fá yfirdrátt né smálán og því neyddist fólk til að safna fyrir hlutunum. Það þurfti að safna því það hafði ekki val. Það þurfti að greiða afborganir af húsnæðislánum og þegar búið var að kaupa það allra nauðsynlegasta var sjaldnast eitthvað eftir til að kaupa skrautleg föt. En svo breyttust tímarnir. En nóg um það.

Sumartíska Gucci og sumartíska Ganni á það sameiginlegt að vera skrautleg og frjáls. Hjá Gucci má til dæmis finna rósótta kjóla og eru íþróttajakkar með áberandi lógóum hafðir yfir. Gucci er líka með þröngar bleikar glansbuxur sem eru ekki ósvipaðar þeim sem mín kynslóð klæddist á Skuggabarnum um síðustu aldamót. Nema mín kynslóð hefði alltaf valið eitthvað mjög þröngt og flegið við buxurnar, ekki prjónapeysu eins og Gucci gerir.

Gucci sýnir líka síð plíseruð pils við víðar pallíettupeysur og stóra og víða rykfrakka. Svo er það mónógrammið frá Gucci sem er að koma sterkt inn aftur eftir nokkurt hlé. Það er ekki bara prentað á töskur og skó heldur eru heilu gervipelsarnir þrykktir með GG.

Það sem er heillandi við þessi litríku og víðu föt er að þau koma með gleði inn í líf fólks. Það er að segja ef fólk á peninga fyrir þeim. Smálán hafa aldrei verið góð hugmynd og alls ekki þegar kemur að tískufötum.

Hlébarðaskyrta við doppóttar buxur eru alveg í takt við sumartískuna.
Hlébarðaskyrta við doppóttar buxur eru alveg í takt við sumartískuna.
Mónógrammið er áberandi hjá Gucci. Hver vill ekki vera sérmerktur …
Mónógrammið er áberandi hjá Gucci. Hver vill ekki vera sérmerktur GG.
Sumartíska Gucci.
Sumartíska Gucci.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál