Enski þjálfarinn sá best klæddi á HM

Gareth Southgate er alltaf glerfínn á leikjum Englands.
Gareth Southgate er alltaf glerfínn á leikjum Englands. AFP

Gareth Southgate, landsliðsþjálfari Englendinga, er af mörgum talinn best klæddi þjálfarinn á HM í knattspyrnu í Rússlandi. Jakkafatavesti er einkennisklæðnaður Southgate í Rússlandi en hann hefur verið í vestinu á öllum leikjum Englands á mótinu hingað til.

Ekki er óalgengt að bestu fótboltamenn heims verði að tískufyrirmyndum en nú virðist vera komið að þjálfurunum. Fram kemur á vef Harper's Bazaar að breska verslunarkeðjan Marks & Spencer hafi fundið fyrir þessu og sala á jakkafatavestum hefur rokið upp um 35 prósent að undanförnu. Rétt eins og íslenska landsliðið mætti til leiks í jakkafötum frá Herragarðinum sér Marks & Spencer um að klæða Englendingana. 

Marks & Spencer eru þó ekki þeir einu sem finna fyrir meiri áhuga á jakkafatavestum en leit af slíkum flíkum jókst um 24 prósent á eBay um síðustu helgi. Fleiri merki og vefverslanir hafa séð svipaðan eða jafnvel meiri áhuga.

Það ætti ekki að koma á óvart að dökkblár er vinsælasti liturinn en Southgate klæðist litnum vanalega við ljósbláa skyrtu og kemur bindinu haganlega fyrir undir vestinu. 

Gareth Southgate er ekki í neinum íþróttagalla á hliðarlínunni.
Gareth Southgate er ekki í neinum íþróttagalla á hliðarlínunni. AFP
Southgate hefur gert jakkafatavestin vinsæl.
Southgate hefur gert jakkafatavestin vinsæl. AFP
mbl.is