Leiðir til að fá meira „volume“ í hárið

Baldur Rafn Gylfason.
Baldur Rafn Gylfason.

„Stórt og umfangsmikið hár er eitthvað sem ansi margar konur langar í. Það eru til mörg trix, tæki, tól og vörur til að fá meiri fyllingu í þunnt, líflaust, fíngert eða jafnvel hvaða hár sem er,“ segir Baldur Rafn Gylfason, eigandi bPro, í sínum nýjasta pistli: 

Hér eru nokkur af mínum helstu ráðum: 

Það er stundum sagt að „volume“ sé í tísku, en eins og svo margt þá er það inni núna og úti eftir einhvern tíma og svo, þið fattið. Það eru reyndar bara örfá tímabil og eiginlega bara eitt sem mér dettur í hug þar sem „volume“ var engan veginn málið. Það tímabil er hippatíminn eða blómatímabilið, einhvers staðar í kringum 1968 og ég þakka kærlega fyrir að hafa ekki ætlað á toppinn í mínu fagi þá. Á þeim tíma virðist allt hafa verið í lagi og reyndar eins og allir vita var líka ýmislegt í gangi sem sljóvgaði skilningarvitin hjá sumum. Sítt, sítt, sítt, krullur, liðir, upplitað hár, ólitað hár, lítil sjampónotkun og ekki vottur af volume.

Þarna var enginn að spá í vörur og dót eins og Thickening Shampoo, Volume Shampoo, Volume Mousse, Blow out spray, Sea salt spray, lyftidufti fyrir hár, Dry Shampoo, Texturizing Volume spray, Thickening Tonic, Volume Creator, Volume iron, vöfflujárn, túberingabursta, rúllubursta, hártæki með ionic-tækni.

Í dag er nefnilega til alveg endalaust af vörum sem hjálpa til við að ná hinu rétta „volume“. Það er reyndar alveg magnað hversu snögg þróunin hefur verið í vörum á þessu sviði og örugglega margir sem muna þegar það var ekki svo margt hægt að fá, þrátt fyrir að úrvalið sé endalaust í dag.    

  1. Sjampó sem gefur hárinu kraft og gefur „volume“.
  2. Notaðu góðan blástursvökva. Þannig lyftirðu hverju hári upp við rótina.
  3. Góður hárblásari með ionic-tækni og alvöru hringbursti. 
  4. Túbering, lyftiduft, volume-rótarjárn.
  5. Texturizing spray, hárspray.

Eitthvað af þessu gæti hjálpað þér. Ef þú átt ekkert af þessu er kannski ekkert skrýtið að hárið þitt sé flatt. 

Það er alveg gríðarlega mikilvægt í þessu öllu að vera með hárvörur sem passa fyrir þitt hár og því nauðsynlegt að fá ráðgjöf hjá þínum hármeistara. Það er ekki gömul lumma eða saga að það sé gott að eiga 2-3 gerðir af sjampói. Létt dæmi sem er mjög algengt. Þú ert með týpískt íslenskt hár sem er líklega ekki eins þykkt og þú myndir vilja. Það er búið að lita það alveg ljóst eða með strípum í nokkur ár og það fitnar hugsanlega fyrr í rótinni en þú myndir vilja. 

Þarna erum við að tala um:

  1. Sjampó/vörur sem koma jafnvægi á og hreinsa hársvörðinn.
  2. Sjampó/vörur sem byggja upp raka, styrk og glans.
  3. Sjampó/vörur sem þykkja eða gefa „volume“.

Það er hellingur að spá í og margt sem maður þarf að eiga en maður á það líka lengi og byrjar aldrei á öllu í einu. Það er því miður ekki þannig að einn brúsi geri allt „djobbið”, þó að það væri óskandi.

Eins og í öllu þá gildir þetta: Ef grunnurinn er góður eða traustur verður það sem á eftir kemur betra. Það eru til alls konar töfralausnir sem poppa upp reglulega. Sumar af þeim virka jafnvel að einhverju leyti, EN ég er sannfærður um að með réttu prógrammi og réttu efnunum sem þinn hármeistari ráðleggur þér og þú notar eins og sýklalyf (þar sem þú ferð eftir leiðbeiningum læknis) gerast hlutirnir betur til lengri tíma litið. 

Mig langar til að deila með ykkur minni uppskrift að því hvernig ég næ „volume“ í blæstri.

Þvo hárið vel og ekki nota rakasjampóið og næringuna þína, það notar þú hina dagana eða þá sem þú ætlar ekki að vera með allt „volume“-ið. Næring bara rétt í elstu endana og alltaf skola vel eða eins og minn meistari sagði, þangað til þú ferð að heyra brak hljóð í hárinu, en þá má hætta að skola. Strax eftir að þú ert búin að þurrka hárið með handklæðinu skal setja blástursvörurnar í og byrja að blása. Ef þú bíður lengi þá fer hárið að þorna eins og það vill og ræður ferðinni, ekki viljum við það. 

Það er líka nauðsynlegt að fá ráðgjöf varðandi blásturs- og mótunarvörurnar því það þurfa ekki allar hártýpur það sama. Enn frekar viljum við fá að vita með ráðgjöf hvað þarf í rótina, mitt hárið og svo endana. Einmitt, hellingur af alls konar EN, við viljum hafa þetta í lagi. 
Volume Mousse í rótina, Blow Out spray í lengdina og ef hárið er t.d. lengra en fyrir neðan kjálka þá er stundum ágætt að setja örlitla olíu eða krem til að mýkja endana aðeins (ekki nauðsynlegt). 

Þegar efnin eru komin í er gott að snúa sér aðeins á hvolf og djöflast á rótinni, það ruglar í skiptingunum sem hárið vill leita náttúrulega í. Þegar rótin er orðin nokkuð þurr er það gamli góði hringburstinn en auðvitað eru til alls konar ofurburstar sem er gott að vinna með. Þær sem vilja slétt en volume gera nákvæmlega eins en þær geta líka notað slétta bursta, oft kallaðir „paddel" eða blástursburstar fyrir slétt hár. 

Það má alveg nefna snilldarbursta sem eru sérstaklega góðir fyrir hár sem er ekki of sítt ca. axlir og alveg stutt. Þeim er stungið í samband við rafmagn og hitna álíka mikið eins og sléttujárn. Þegar þeir eru notaðir er hárið þurrkað fyrst með blásara og fingrunum og svo er þessi magnaði bursti notaður eftir á. 

Þegar þessi góði grunnur er kominn er það loka „touch-ið“.

Þar er margt hægt að gera og endalaust af tækjum og efnum til. Ein af mínum nauðsynlegu græjum sem allar dömur ættu að eiga og ég giska á að 80% af flugfreyjum eigi er galdrasprotinn minn eða túberingaburstinn. Hann er ekki bara góður við að túbera og fá fyllingu og þéttleika, heldur einnig snilld til að eiga við erfiða sveipi. Lítið vöfflujárn eða volume iron er algjört trix (fáðu að prófa næst þegar þú ferð í klippingu). Það er notað rétt í rótina þar sem þú vilt, og BÚMM, mega lyfting sem rennur ekki úr. 
Eftir allt þetta eru það efnin góðu. Ég gæti ekki greitt hár án mest selda efnis label.m Texturising Volume spray sem er hárspray og þurrsjampó í sömu dollu, notað eins og hárspray. 

Það er líka hægt að nota bara hárspray, smá vax eða olíu/glansspray í endana.
Enn og aftur segi ég, ráðgjöf frá fagmanni er algjörlega málið svo hægt sé að velja það rétta fyrir hvern og einn, því það eru tugir eða hundruð efna í boði. Þær vörur sem ég talaði um eru auðvitað mínar uppáhalds og eru úr línum label.m og Davines. 

Ég vona að þú hafir haft gagn og gaman af þessari lesningu sem ég hefði getað lengt um helming með því að skoða hverja hártýpu fyrir sig. Sem betur fer er það ekki nauðsynlegt því við erum heppin á litla Íslandi að hafa gott fagfólk út um allt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál