Þekkið þið þessa konu?

Leikkonan Patricia Arquette hlaut Golden Globe-verðlaun fyrir frammistöðu sína í þáttaröðinni Escape at Dannemora. Þáttaröðin byggist á sönnum atburðum sem áttu sér stað árið 2015 þegar tveir dæmdir morðingjar náðu að strjúka úr fangelsi í New York-ríki. Arquette leikur Joyce „Tilly“ Mitchell, konuna sem aðstoðaði fangana við flóttann.

Til þess að fanga Tilly betur í þáttunum þurfti leikkonan að breyta útliti sínu umtalsvert. Hún bætti á sig mörgum kílóum, aðallega með því að drekka mikið af mjólkurhristingi. Hún fékk einnig aðstoð förðunarmeistarans Bernadette Mazur sem segir að það hafi verið erfitt að fela náttúrulega fegurð leikkonunnar.

„Arquette vildi ekki hefðbundna kvikmyndaförðun. Hún var alveg tilbúin til að fórna sér fyrir hlutverkið,“ segir Mazur.

Öll þáttaröðin af Escape at Dannemora er í Sjónvarpi Símans Premium en það er Ben Stiller sem leikstýrir þáttunum.

Patricia Arquette árið 2016.
Patricia Arquette árið 2016. mbl.is/AFP
Patricia Arquette.
Patricia Arquette. mbl.is/AFP
mbl.is