Ekki vera goslaus 2019


Janúar er ekki bara mánuður tiltektar og leikfimisiðkunar og ekki heldur mánuður fagurra fyrirheita og loforða um að nú verðir þú loksins upp á tíu á öllum sviðum lífsins. Janúar er mánuðurinn þar sem þú tekur til í fataskápnum og ákveður að hleypa einhverju nýju inn. Það er nefnilega bannað að vera goslaus 2019.

Það er fátt eins óspennandi og fólk sem talar í frösum, gerir alltaf sömu hlutina, klæðir sig alltaf eins og segir aldrei neitt frumlegt. Ef þú vilt breyta þér og verða aðeins hressari og skemmtilegri, byrjaðu þá á því að taka til í fataskápnum þínum. Fólk í litríkum fötum er nefnilega miklu áhugaverðara. Ef þú vilt uppfæra þig fyrir vorið og vera alveg löðrandi þegar kemur að straumum og stefnum þá má sjá hér hvað stóru tískuhúsin leggja til.

Tískukóngur augnabliksins er án efa Alessandro Michele, listrænn stjórnandi ítalska tískuhússins Gucci. Hann náði að dusta rykið af gömlum prentum og stælum og koma þeim í móð á ný eftir hlé. Þegar vortíska Gucci er skoðuð kemur í ljós að glundroðinn er í forgrunni. Margvíslegum munstrum er blandað saman á heillandi hátt og fötin eru vel merkt svo það fari örugglega ekki fram hjá neinum hvaðan fötin koma. Franska tískuhúsið Chanel gerir þetta líka. Ekki er víst að eldri Chanel-frúr myndu láta sjá sig í hvítri skyrtu með CHA á öðrum vasanum og NEL á hinum en kannski er verið að reyna að höfða til yngri markhóps. Það sem er líka áberandi er að lógó Chanel er gert sýnilegt á eins mörgum stöðum og hægt er og ofgnóttin er allsráðandi. Það er náttúrlega glatað að vera með eina Chanel-tösku þegar þú getur „flexað“ tveimur.

Ef þú hélst að hlébarðaefni væru búin að vera þá …
Ef þú hélst að hlébarðaefni væru búin að vera þá var það misskilningur. Hér er Gucci sumar 2019.

Ef við ætlum að draga einhvern lærdóm af Gucci og Chanel þegar við tökum til í fataskápnum þá gætum við mögulega prófað nýjar samsetningar eins og að fara í klassískan jakka við leikfimisbuxurnar, klætt okkur í gallabuxur og gallajakka, blandað saman ólíkum munstrum og farið nokkrum skrefum lengra en við myndum annars þora.

Ef það er eitthvað sem þú ættir að láta eftir þér 2019 þá er það það að prófa þig áfram. Finndu nýjar fatasamsetningar í þínum eigin fataskáp og þegar þú ferð í fatabúð prófaðu þá að máta föt sem þú heldur að fari þér ekki. Prófaðu liti, munstur og ný snið. Ef þú gerir þetta mun eitthvað skemmtilegt gerast! Áfram þú árið 2019!

Blandaðu saman ólíkum efnum og sniðum eins og Gucci gerir.
Blandaðu saman ólíkum efnum og sniðum eins og Gucci gerir.
mbl.is