Tóm og lafandi brjóst, hvað er til ráða?

Þórdís Kjartansdóttir lýtalæknir svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá íslenskri konu varðandi brjóstaminnkun. 

Sæl Þórdís.  

Netið er alger frumskógur þegar kemur að því að reyna að finna út hvort einstaklingur eigi mögulega rétt á brjóstaminnkun borgaðri af sjúkratryggingum.

Ég er 173 og 78 kg og á leiðinni niður í vigt. BMI er sem sagt núna 26 sem mér skilst að falli undir. Sums staðar er talað um að það verði að þurfa að vera hægt að taka 500 g af hvoru brjósti. Nú er frekar erfitt að vigta brjóstin en ef ég mæli t.d. frá viðbeini að geirvörtu þá eru 30 cm þar niður. Ég er með frekar tóm brjóst og lafandi þannig að þau líta alls ekki út fyrir að vera eins stór og þau eru, en ég er í stærð 38 G/H. Ég hef verið með axlaverki, verið aum undan brjóstahaldara og rauð og sveitt undir brjóstunum... alltaf. Ég er farin að fá spennuhausverki og án þess að geta fullyrt neitt velti ég því fyrir mér hvort það sé út af brjóstunum.

Ég er búin að panta tíma hjá mínum heimilislækni og ætla að biðja um tilvísun til lýtalæknis sem vinnur á vegum SÍ. Er það rétta skrefið telurðu? og hverjar telurðu að líkur mínar séu miðað við þær tölur sem ég gef upp?

Bestu kveðjur,

Ein ósátt við brjóstin

Þórdís Kjartansdóttir lýtalæknir.
Þórdís Kjartansdóttir lýtalæknir. mbl.is/Árni Sæberg

Sæl og takk fyrir spurninguna

Ég skil að þér finnist þessar reglur vera ruglingslegar og í raun ekki á færi nema lýtalækna að meta hvort kona fellur undir þær eða ekki. Þessar tölur sem þú nefnir eru réttar, EN þessi 500 g af hvoru brjósti sem fjarlægð eru, þá er miðað við þyngd á kirtilvef ekki húð. Þannig að þegar um „tóm og lafandi“ brjóst er að ræða eins og þú lýsir, þá gæti alveg verið að enginn kirtilvefur verði fjarlægður heldur einungis húð. Þá fellur þú ekki innan reglna um greiðsluþátttöku. Konur, þar sem einungis brjóstalyfting er framkvæmd en ekki minnkaður kirtilvefur, lýsa samt oft miklum breytingum til hins betra varðandi verki í hálsi og herðum. Skilyrði fyrir greiðsluþátttöku er líka að vera reyklaus og ekki í yfirþyngd.

Ég ráðlegg þér að panta þér tíma hjá lýtalækni til þess að fá mat í þínu tilviki.

Með bestu kveðjum og gangi þér vel,

Þórdís Kjartansdóttir lýtalæknir

mbl.is