Þetta notar Ísak til að farða stjörnurnar

Ísak Freyr Helgason.
Ísak Freyr Helgason.

Ef þig langar að verða sérfræðingur í förðun eða langar að líta út eins og stjörnurnar á rauða dreglinum er Ísak Freyr Helgason maðurinn að leita til. Hann er á því að það sér gott fyrir sjálfsvirðinguna að vera vel farðaður.

View this post on Instagram

Closeup of gorgeous @katyperry from yesterday. Makeup by me using @tomfordbeauty. Hair by @stefanbertin for @inparlour

A post shared by Ísak Helgason (@isakhelgason) on Sep 27, 2018 at 4:17am PDT

Það er sérlega gaman að fylgjast með Ísak Frey Helgasyni á samfélagsmiðlum (@isakhelgason) þar sem hann ferðast á milli heimshluta og farðar þekktar fyrirsætur, leik- og söngkonur. Ég var forvitin að vita hvaða förðunarvörur hann notar helst í verkefnum sínum, hvað ætti helst að vera í snyrtiveskinu. 

Með þráhyggju vegna nokkurra vara frá Yves Saint Laurent

Ísak hefur úr fjölmörgum merkjum og vörum að velja svo fyrsta spurning mín er einfaldlega sú hvort honum finnist eitthvert ákveðið förðunarmerki standa upp úr í augnablikinu? „Ég nota mikið vörur frá Yves Saint Laurent og er með ákveðna þráhyggju vegna nokkurra þeirra. Fyrst og fremst verð ég að nefna YSL Volupté Tint-In-Oil en þetta er varaolía með lit sem ég prófaði fyrir um 2 árum og þetta er algjörlega minn heilagi andi hvað varðar förðunarkittið mitt. Bæði finnst mér þetta gefa varalitum ákveðið líf, sérstaklega appelsínuguli tónninn því hann ýtir undir alla undirtóna og skerpir á þeim, auk þess sem varirnar fá meiri raka án þess að líta út fyrir að vera of glossaðar. Ég nota þetta líka mjög mikið á kinnar og kringum augu svo þetta er eins og ég segi alveg mitt helsta vopn í kittinu,“ segir Ísak og nefnir einnig nýja farðann frá YSL sem nefnist Touche Éclat All-In-One Glow. „Ég er alveg sérstaklega erfiður með farða og í rauninni skiptir mig mestu máli hvernig farði helst á en ekki hvernig hann lítur út um leið og þú ert búin að setja hann á. Þessi farði gefur mikinn raka en hreyfist ekki mikið á húðinni og helst vel.“

Ísak segir einnig að fólk ætti að fylgjast með augnskuggapallettunum frá YSL því merkið sé framúrskarandi þegar komi að litum og tónum sem erfitt geti verið að finna annars staðar. Þegar ég spurði Ísak um fimm mest notuðu förðunarvörurnar í augnablikinu nefnir hann YSL Volupté Tint-in-Oil og YSL Touche Éclat All-In-One Glow-farðann. Sömuleiðis segist hann mikið nota lausa púðrið frá Laura Mercier og svo eitt vinsælasta rakakremið á markaðnum en það er Skin Food frá Weleda og að lokum nefnir hann Hocus Focus Instant Visual Flaw-Softening Illuminator frá Soap & Glory.

YSL Volupté Tint-in-Oil.
YSL Volupté Tint-in-Oil.
YSL Touche Éclat All-In-One Glow.
YSL Touche Éclat All-In-One Glow.

Þetta notar Ísak fyrir rauða dregilinn

Mörg verkefni Ísaks felast í að farða fyrirsætur og söng- og leikkonur fyrir hina ýmsu viðburði og því verð ég að forvitnast um hvaða farða hann noti fyrir slík tilefni?

„Ég fer svolítið á milli nokkurra en nota engan farða með púðuráferð því hann endurkastar oft frá sér flassi myndavélanna og virkar því allt of ljós, ég hef alveg lært af þeim mistökum. Yfirleitt nota ég YSL All-In-One Glow-farðann eða Luminous Silk-farðann frá Giorgio Armani og svo nota ég Traceless Foundation Stick frá Tom Ford sem hyljara. Þetta fer þó eftir húðgerð hvers og eins en ég notast einnig við matta farðagrunna og svo góð púður eins og lausa púðrið frá Laura Mercier eða Prep & Prime-púðrið frá MAC. Ég gef alltaf kúnnunum mínum Face Blotting Paper frá Muji ef þeir vilja rétt aðeins fara yfir andlitið áður en mætt er á rauða dregilinn,“ segir Ísak.

En hver ætli sé uppáhaldsmaskarinn hans? „Upp á síðkastið hef ég verið mjög hrifinn af Glamolash Mascara XXL frá Rodial og The Shock-maskaranum frá YSL en fyrir fíngerð augnhár og fyrir þá sem vilja ná vel í rætur augnháranna er Extended Play Gigablack frá MAC mjög góður. Ég fíla líka Volum' Express The Colossal-maskarann frá Maybelline á neðri augnahárin þegar ég er að farða kúnna fyrir rauða dregilinn þar sem hann er vatnsheldur og smitast ekki á húð. Það skiptir ótrúlega miklu máli að velja vatnshelda maskara á neðri augnhárin því margir eiga það til að smitast á augnsvæðið undir augunum og stórslys getur átt sér stað. Ömurlegt að sjá myndir af rauða dreglinum og það eru svartar klessur undir augunum. Ljósin eru oft svo sterk og það skiptir miklu máli að passa upp á svona smáatriði.“

Weleda Skin Food.
Weleda Skin Food.

Fljótandi töfrakrem

Ísak segir að allar konur ættu að eiga Skin Food-rakakremið frá Weleda í veskinu sínu til að hressa upp á húðina yfir daginn og segist hann elska að nota það yfir farða á kinnbein. Eins nefnir hann að Volupté Tint-in-Oil frá YSL sé góð vara í snyrtiveskið sem hægt sé að bæta ofan á varirnar eða til að fá lit í kinnarnar. Þegar ég spurði Ísak um helstu mistök sem fólk gerði reglulegu í förðun nefndi hann nokkur: „Ljós vetrarfarði yfir sólbrúnku, púður yfir augnhár, ljóst ljómapúður yfir dökkar skyggingar og þegar fólk gleymir að taka farðann lengra en á kjálkalínu og þar af leiðandi koma gjarnan skil. Önnur mistök eru augabrúnablýantar með of rauðum undirtónum en þetta er mjög lúmskt því sumir tónar koma ekki í ljós nema þegar flassið frá myndavélunum kemur á þá.“

Þegar Ísak minntist á vetrarfarðann spurði ég hann hvort hann lumaði á góðu ráði til að framkalla frísklega ásýnd þegar manni finnst veturinn engan enda ætla að taka. Hann segist eiga sér eitt mjög ódýrt leyndarmál sem hefur fylgt honum frá því hann flutti fyrst til London en það er Hocus Focus Instant Visual Flaw-Softening Illuminator frá Soap & Glory. „Þetta er fljótandi töfrakrem í rauninni, ég bursta því léttilega yfir farða og það gefur farðanum hlýju og ótrúlega fallegan ljóma. Hægt er að kaupa það í stórum Boots-verslunum hér í Bretlandi.“

Tom Ford Traceless Foundation Stick, Giorgio Armani Luminous Silk Foundation …
Tom Ford Traceless Foundation Stick, Giorgio Armani Luminous Silk Foundation og YSL Touche Éclat All-In-One Glow.

Stressaður áður en hann farðaði Katy Perry

Ísak segist mikið blanda saman bæði dýrum og ódýrum snyrtivörumerkjum og segist ekki vera merkjasnobb þegar kemur að kittinu sínu. „Ég er á sama tíma mjög heppinn að fá mikið af vörum sent til mín í dag en ég á algjörlega mína uppáhaldshluti sem ég nota enn þá frá því að ég var að byrja. Á sama tíma hefur förðunarbransinn stækkað gífurlega síðan árið 2008 þegar ég lærði förðun og úrvalið af vörum á viðráðanlegu verði orðið miklu meira. Ég reyni þó oftast að hafa vörurnar sem ég nota fyrir rauða dregilinn í fínni kantinum þar sem fólk er kannski í skarti og kjólum upp á milljónir og það er skemmtilegra að mæta ekki með hundrað króna varablýant,“ segir hann og talandi um fræga fólkið: hver hefur verið uppáhaldskúnninn hans hingað til? „Þetta er erfið spurning. Ég hef aldrei verið jafn stressaður og ég var þegar ég farðaði Katy Perry en hún var sú allra yndislegasta og svo var ótrúlega gaman að farða Cate Blanchett fyrir einkaviðburð á snekkju í fyrra. Charli XCX er ótrúlega fyndin og ég hef lent í ýmsu með henni og svo var Dua Lipa líka yndisleg. Myndi samt segja að uppáhaldskúnnarnir mínir væru listafólk, mikið af stórfurðulegum týpum í risahúsum sem líta út eins og undraland og sögurnar sem ég hef fengið að heyra hafa verið afar skrautlegar.“

MAC Prep&Prime Transparent Finishing Powder og Laura Mercier Translucent Loose …
MAC Prep&Prime Transparent Finishing Powder og Laura Mercier Translucent Loose Setting Powder.

Fólk á ekki að þurfa fimmfaldan skammt af farða

Talið berst að hinum misgóðu stefnum í förðun sem eru í gangi og segir Ísak að honum finnist mikil YouTube- og Instagram-förðun orðin allt of algeng og geti haft skaðleg áhrif á sjálfsmynd bæði karla og kvenna. „Fólk á ekki að þurfa að fimmfalda skammtinn af farða til að vera ánægt með sjálft sig og í raun og veru held ég að þó svo að fólk sé ekki meðvitað um þessi áhrif þá í undirmeðvitundinni getur þetta orðið eins og ákveðin fíkn. Á sama tíma er ég mjög hlynntur túlkunarfrelsi hvers og eins og allir eiga að fá að gera það sem þeir vilja en mér finnst miklu skemmtilegara að fá að sjá húð og freknur og ferskari förðun og ég vona innilega að þessi bylting fari að rúlla yfir á það belti,“ segir Ísak.

YSL The Shock, Rodial Glamolash Mascara XXL, MAC Extended Play …
YSL The Shock, Rodial Glamolash Mascara XXL, MAC Extended Play Gigablack og Maybelline Volum’ Express The Colossal.

Auðvelt að klúðra förðun ef maður þekkir ekki innihaldsefnin

Á dögunum hélt Ísak förðunarmasterclass í Make-up Studio Hörpu Kára . Námskeiðið stóðyfir í 6 klukkustundir. „Ég fór í gegnum tvær mismunandi tegundir af förðun og útskýrði hvert skref og atriði. Af hverju þarf að þekkja muninn á venjulegri förðun og förðun fyrir rauða dregilinn? Mér fannst ég alltaf mjög öruggur í förðun þangað til fyrir 7 árum þegar ég var beðinn um að mála Suki Waterhouse fyrir GQ-verðlaunin en síðan þá hef ég þurft að læra mikið og þróast á þessu sviði. Í rauninni er mjög létt fyrir förðunarfræðing að klúðra förðuninni ef hann þekkir ekki til innihaldsefna og hvaða formúlur vinna vel með sterkum ljósum og flassi o.s.frv. Ég fór í gegnum öll þau tips sem ég hef safnað saman auk þess fór ég í gegnum formúlur og aðalvörurnar sem mér hefur fundist virka best fyrir rauða dregilinn. Þessi hlið í förðunarbransanum stendur algjörlega ein og sér og auk þess er maður undir gríðarlegri pressu og það er mjög mikilvægt að vita hvernig maður á að díla við þann sem maður er að farða og tryggja að maður sé bókaður aftur.“

Hocus Focus Instant Visual Flaw-Softening Illuminator frá Soap & Glory.
Hocus Focus Instant Visual Flaw-Softening Illuminator frá Soap & Glory.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál