Fæ ég bólur út af mjólkinni?

Jenna Huld Eysteinsdóttir húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá 27 ára konu sem er ennþá með unglingabólur. Hún heldur mögulega að hún sé með mjólkuróþol.

Hæ Jenna. 

Ég er alltaf að berjast við bólur þrátt fyrir að ég sé orðin 27 ára. Hef lesið mikið á netinu að mjólkurvörur hafi slæm áhrif á bólur og að það hjálpi að hætta að borða þær. Er það satt?

Kveðja, HK

Jenna Huld Eysteinsdóttir húðlæknir hjá Húðlæknastöðinni.
Jenna Huld Eysteinsdóttir húðlæknir hjá Húðlæknastöðinni.

Sæl HK.

Já, það er ekki skemmtilegt að berjast við bólur langt fram eftir aldri en við erum einmitt að sjá alls staðar í vestrænum löndum aukningu á því sem er kallað „adult acne“ eða bólusjúkdómur á fullorðinsaldri. Orsökin er óljós og því mikið verið skoðað hvort það finnist einhver tengsl við matarræði. Það sem rannsóknir hafa sýnt fram á er að óhollur matur sem inniheldur mikið af sykri, t.d. eins og sælgæti og sykrað gos, hefur slæm áhrif á bóluhúð og getur valdið versnunum. Mjólkurvörur hafa aftur á móti engin tengsl við bólur og því algjörlega óhætt að neyta mjólkurvara. Þó svo að einhverjar rannsóknir hafi sýnt fram á tengsl við mjólkurvörur eru margar sem sýna fram á það gagnstæða, þá er að segja engin tengsl. Einnig hafa aðrar fæðutegundir verið skoðaðar í tengslum við bólur eins og hveiti og fleira, en það er sem sagt ekki neitt í matarræðinu nema sykraður matur sem hefur sýnt fram á ótvíræð tengsl. Það eru margar góðar meðferðir til við bólum og ráðlegg ég þér því endilega að leita til húðlæknis til að fá einhverja meðferð sem hentar þér.

Kær kveðja,

Jenna Huld Eysteinsdóttir húðlæknir. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Jennu Huld spurningu HÉR. 

mbl.is