Er hættulegt að fara í laser-háreyðingu?

Íslensk kona spyr út í aukaverkanir tengdar laser-aðgerðum.
Íslensk kona spyr út í aukaverkanir tengdar laser-aðgerðum. mbl.is/Thinkstockphotos

Jenna Huld Ey­steins­dótt­ir húðlækn­ir á Húðlækna­stöðinni svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá konu sem spyr út í laser varðandi háreyðingu. 

Sæl Jenna. 

Mig langaði til þess að vita hvort það sè einhver þekkt hætta af laser sem er notað við háreyðingu, til dæmis æðaslit. Eru einhverjar aukaverkanir eða möguleikar á auknum líkum á sjúkdómum í framtíðinni?

Kveðja, G

Jenna Huld Eysteinsdóttir húðlæknir á Húðlæknastöðinni.
Jenna Huld Eysteinsdóttir húðlæknir á Húðlæknastöðinni.

Komdu sæl og takk fyrir spurninguna.

Meðferð með háreyðingarlaser er mjög hættulítil meðferð í höndum fagfólks og varanlegir skaðar af háreyðingarlaser sjaldgæfir. Það er þó margt sem ber að varast þar sem það er hægt að brenna húðina, til dæmis ef sólbrún húð er meðhöndluð. Ef það gerist grær það yfirleitt og jafnar sig á nokkrum vikum án nokkurs varanlegs skaða en mjög leiðinlegt þegar það kemur fyrir. Einnig ber að hafa í huga að ef viðkomandi er með húðflúr þá er ekki hægt að fara með laserhausinn nálægt því þar sem litarefnið í húðflúrinu getur dregið í sig orkuna frá lasernum og húðflúrið skemmst.

Æðaslitslaser er yfirleitt öflugari laser og vandmeðfarnari. Það þarf sérfræðikunnáttu til að meta hvort húðin sé yfirhöfuð tilbúin fyrir meðferð með æðalaser. Það er mjög algengt að einstaklingar með áberandi æðaslit í andliti séu einnig með aðra húðsjúkdóma til staðar, til dæmis bólgusjúkdóma eins og rósroða eða þá sólarskemmdir eða forstigsbreytingar vegna mikillar útiveru eða sólarnotkunar. Ef viðkomandi er með rósroða og æðaslit er mikilvægt að meðhöndla alla bólgu í húðinni áður en meðferð er hafin. Ef bólgin húð er meðhöndluð með laser þá getur húðin snarversnað á eftir svo ég tala nú ekki um peningasóunina þar sem áhrifin verða sama og engin. Einnig er varasamt er að meðhöndla einstaklinga með mikið af sólarflekkjum (brúnum blettum) og húðbreytingum í andliti með laser án þess að húðlæknir sé búinn að meta húðina áður. Einhverjir varanlegir skaðar eru sem betur fer sjaldgæfir en kemur þvi miður fyrir og þá er það oftast vegna þess að of hart hefur verið farið í húðina, húðin brennst og skaði komið á eftir í formi litabreytinga. Það er yfirleitt alltaf hægt að leiðrétta og jafna en getur tekið langan tíma. Þannig, mitt ráð til þín er að leita til húðlækna sem eru með sérmenntun í notkun lasera ef þú ert að spá í meðhöndlun með háreyðingarlaser eða æðalaser.

Kær kveðja, 

Jenna Huld Eysteinsdóttir húðlæknir á Húðlæknastöðinni. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Jennu Huld spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál