Fæddist með skarð í vör og er ósáttur

Þórdís Kjartansdóttir lýtalæknir á Dea Medica svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá manni sem hefur barist við kerfið lengi en viðkomandi fæddist með skarð í vör. 

Hæ.

Ég fæddist með skarð í vör og holgóma og Árni Björnsson sá um allar aðgerðir nema kannski eina sem Ólafur framkvæmdi en ég er ekki með þennan Venusarboga. Þó að þokkalega hafi tekist til þá er samt fólk alltaf að horfa á mig meira eins og glápa sem er ókurteisi en þetta er svolítill pakki þannig að til dæmis tennurnar í mér eyðilögðust af járnhringjum sem voru notaðir til að reyna að rétta í mér tennurnar þannig að ég fékk krónur en núna eru tennurnar farnar uppi öðrum megin en niðri hinu megin. Ég hef reynt að komast í „implant“ en gengur illa. Reynir yfirtryggingatannlæknir sagði að það væri bara réttlætanlegt að gera við í kringum skarðið, ekki gáfulegt. Þórður Eydal er löngu hættur og búinn að henda öllu en annars hefði hann léttilega getað talað máli mínu við hann þar sem ég var frá barnsaldri til 16 ára held ég. Þar fyrir utan hef ég reynt að fara í tannlæknaskólann og minna á mig þar í sirka fjögur ár, en ekkert gengið. Málið er að ég hef rýrnað í framan en held  samt að kinnarnar séu farnar að síga. Ég prófaði að lyfta þeim upp um daginn og ég breyttist svo mikið við það. Mér fannst ég vera mörgum árum yngri en ég ætla ekki að hafa þetta erindi lengra því ég er með held ég svo langan lista. Málið er að við sem fæddust svona fengum alltaf fríar aðgerðir og fríar tannlæknigar en svo tók Gamli kommúnisminn við eins og Gunnar Helgason tannlæknirinn minn orðaði svo vel en já ég er fæddur 1. apríl 1960.

Kveðja, S

Þórdís Kjartansdóttir lýtalæknir á Dea Medica.
Þórdís Kjartansdóttir lýtalæknir á Dea Medica. mbl.is/Árni Sæberg

Kv.

Sæll og takk fyrir spurninguna. Þú hefur greinilega átt langa og erfiða sjúkrasögu og baráttu við kerfið!  Þú átt alla mína samúð en ekki gefast upp. Við vitum öll að þegar við eldumst þá er „allt á niðurleið“, minnkar fyllingin í kinnunum og fellingar myndast við nef, munnvik og kjálka. Þegar undirliggjandi vandamál eru til staðar, eins og brotthvarf tanna með samfarandi beinarýrnun, gerast þessar aldursbreytingar mun hraðar.  Andlitslyfting eða jafnvel fitufylling í kinnar gæti örugglega gagnast þér.

Þegar fólk hefur leitað til mín vegna öra á vörum er það oft með kæki eins og setja „hendur fyrir munn“ þegar það talar eða „sleikja út um“. Þessir kækir beina oft athygli fólks að lýtinu og það ósjálfrátt horfir á það. Það er stundum hægt að venja sig af þessu með æfingu og oft bendi ég fólki á að gera einhverja nærliggjandi staði meira áberandi. Til dæmis geta karlmenn látið sér vaxa skeggrót umhverfis munn og konur sett áberandi varalit. Eins geta áberandi hálsmen „falið“ ör eða fellingar á hálsi.  Ég ráðlegg þér að reyna betur við kerfið og sjá hvort einhverjir möguleikar séu ekki fyrir hendi hjá þér bæði hjá tannlæknum og lýtalæknum.  

Gangi þér vel og bestu kveðjur,

Þórdís Kjartansdóttir lýtalæknir.

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Þórdísi spurningu HÉR. 

mbl.is