Fór í misheppnaða brjóstastækkun

Íslensk kona er óánægð með brjóstastækkun sem hún fór í …
Íslensk kona er óánægð með brjóstastækkun sem hún fór í fyrir 14 árum. mbl.is/Thinkstockphotos

Þórdís Kjartansdóttir lýtalæknir á Dea Medica svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá konu sem fór í brjóstastækkun fyrir 14 árum en er nú orðin öryrki. 

Komdu sæl Þórdís

Mig langaði að spyrja þig nokkurra spurninga. Ég fór í lagfæringu á brjóstum fyrir 14 árum, vildi láta jafna þau eftir að hafa verið með 3 börn á brjósti.

Læknirinn sagði að ég væri svo há og grönn og mætti alveg vera með stór og góð brjóst. Ég bað aldrei um það þannig, bara jöfn og að stærra brjóstið sem börnin vildu bara á sinum tíma yrði aðeins minna og þéttara eins og hitt brjóstið.

Er ég vaknaði þá tjáir hann mér það að hann hafi verið svo lengi með stærra brjóstið því það hefði verið orðið svo tómt, þurft að færa báðar geirvörturnar og skera þversum niður frá þeim og undir.

Brjóstin hafa verið mér til trafala í öll þessi ár, stingir og verkir og ég fór aftur til hans og hann var bara yfir sig ánægður sem er bara algjör steypa. Staðan í dag er sú að ég er alltaf með verki í öxlum upp í hnakka, verki í brjóstunum og sé fram á það að ég vil losna við þá og setja brjóstin mín bara í eðlilega stærð. Ég nota í dag 36 D en myndi vilja fara niður 36 B til þess að losna við þessa ömurlegu verki

Á ég rétt á niðurgreiðslu hjá sjúkratryggingum vegna þeirra aðgerða og aðstæðna? Ég er orðin öryrki vegna mikilla verkja, gigtarverkja og slitverkja ásamt því að það voru gerðar axlaaðgerðir á mér til þess að létta á þessum verkjum. Getur þú aðstoðað mig með hver næstu skref mín eru varðandi þetta mál og hvernig ég sný mér í þessu? Ef það kæmi í ljós að ég gæti farið í aðgerð á kostnað sjúkratrygginga er þá inni í því lagfæring þannig að minni púðar eru settir í því annars held ég að þau yrðu bara tóm. Ég er 173 á hæð og 68 kg, þannig séð í kjörþyngd Takk kærlega fyrir. 

Kveðja, KK

Þórdís Kjartansdóttir lýtalæknir.
Þórdís Kjartansdóttir lýtalæknir. mbl.is/Árni Sæberg

Sæl og takk fyrir spurninguna.

Aðgerðin sem þú fórst í fyrir 14 árum var væntanlega gerð á þinn kostnað, en það á yfirleitt við þegar brjóstum er lyft og settir inn púðar. Ég tel það mjög ólíklegt að sjúkratryggingar taki þátt í kostnaði á nýrri aðgerð þar sem púðarnir yrðu minnkaðir og hugsanlega brjóstunum lyft aftur þrátt fyrir örorku og verkjavandamál. Aftur á móti ef þú myndir vilja einungis losna við púðana vegna heilsufarsvandamála, gætir þú hugsanlega fengið greiðsluþátttöku frá sjúkratryggingum. Ræddu þetta við þinn heimilislækni, hann gæti þá sent beiðni til lýtalæknis eða á Landspítalann.

Gangi þér vel og bestu kveðjur

Þórdís Kjartansdóttir lýtalæknir.

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Þórdísi spurningu HÉR. 

mbl.is