Fyrsta svarta konan til að stjórna hátískuhúsi

Rihanna er fyrsta svarta konan til að stjórna hátískuhúsi.
Rihanna er fyrsta svarta konan til að stjórna hátískuhúsi. AFP

Tónlistarkonan Rihanna er fyrsta svarta konan til að stjórna hátískuhúsi. Rihanna kom nýlega á laggirnar tískuhúsinu Fenty sem er undir franska tískuhúsinu LVMH. Þetta er ekki fyrsta tískuverkefni Rihönnu en hún hefur byggt feril sinn upp sem tískuhönnuður hægt og rólega síðustu ár. 

Rihanna hefur lengi verið tísku-icon og hefur oft verið lofuð fyrir fötin sem hún klæðist. Nú hannar hún föt á aðra. 

Fyrst hannaði hún vörur í samstarfi við íþróttavörurisann Puma, því næst gaf hún út sína eigin nærfatalínu, SavageXFenty. Hún hannar einnig snyrtivörur undir sínu eigin merki, Fenty Beauty. Fenty Beauty hefur vakið mikla athygli fyrir fjölda litatóna í andlitsfarða en þeir eru 40 talsins og til stendur að bæta 10 litatónum við línuna. 

Rihanna hefur unnið hörðum höndum við að byggja upp feril …
Rihanna hefur unnið hörðum höndum við að byggja upp feril sinn í tískuheiminum. AFP

Síðasta plata Rihönnu kom út árið 2016 og naut mikillar hylli á meðal aðdáenda hennar. Hún hefur lítið gert á tónlistarsviðinu síðan platan kom út, enda verið upptekin við að byggja upp feril sinn í tískuheiminum.

Í viðtali við New York Times segir Rihanna að hana hafi aldrei dreymt um feril í tískuheiminum þegar hún var lítil stelpa. „Mig dreymdi um að gera tónlist. Ekkert meira. Ég hugsaði ekki einu sinni um frægðina, svo kom hún og ég var bara „Er ég raunverulega hrifin af þessu? Elska ég tónlistina nógu mikið til að nenna þessu?“ Síðan heyrði ég ummælin um að ég væri „one-hit-wonder“ og þá var eins og einhver hefði kveikt eld undir mér og ég hætti ekki að vinna,“ segir Rihanna. Hún segir að hún hafi alltaf reynt að skora á sjálfa sig og vann hörðum höndum að gera betur og betur.

Hún hafði erindi sem erfiði og hefur unnið til fjölda verðlauna á tónlistarferli sínum. Hún segist alltaf hafa verið að hugsa um hvað kæmi næst og að hverju hún ætti að vinna næst. „Það er hræðilegt því fólk á að lifa í nútíðinni. Ég var að byrja á að færa mig yfir í aðra listsköpun og það gerir mig hamingjusama,“ segir Rihanna. Hún hefur þó ekki lagt tónlistarferilinn á hilluna og vinnur nú að reggí-plötu.

Fer óhefðbundnar leiðir í hefðbundnum tískuheimi

Tískuhúsið hóf starfsemi í gær, 22. maí, og mun fara óhefðbundnar leiðir hvað varðar útgáfu lína. Gefnar verða út línur mánaðarlega frá mismunandi hönnuðum. Rihanna segir að hún vilji gefa ungum og óreyndum hönnuðum tækifæri til að koma tímabundið inn og hanna línur.

Fötin frá Fenty koma í mörgum stærðum, en nærfatalína Rihönnu er einmitt þekkt fyrir að vera fyrir allar stærðir og gerðir af konum. Rihanna sjálf hefur fitnað síðustu ár en hefur ekki látið það halda aftur af sér. „Maður klæðist því sem maður lítur vel út í og það er bara þannig. Ég er þybbin og með línur núna og ef ég get ekki klæðst fötunum sem ég hanna? Það virkar ekki þannig er það nokkuð? Stærðin mín er ekki einu sinni stærsta stærðin hjá Fenty. Hún er nær því að vera ein af minnstu stærðunum,“ segir Rihanna. 

Fenty verður fyrir konur af öllum stærðum.
Fenty verður fyrir konur af öllum stærðum. AFP
mbl.is