Haldið ykkur fast, COS opnar kl. 12

Sænska verslunin COS verður opnuð kl. 12 á Hafnartorgi í miðbæ Reykjavíkur en íslenskar tískuskvísur hafa beðið eftir þessari verslun í mörg ár. Smartland hefur jafnvel heyrt af konum sem hafa farið úr landi gagngert til þess að komast í góssið frá COS en það verður ekki farið nánar út í það hér. 

COS er í eigu H&M en fyrirtækið rekur einnig Weekday og Monki svo einhverjar verslanir séu nefndar en þessar tvær síðarnefndu voru opnaðar í gær í Smáralind. 

Einfaldleikinn hefur ráðið ríkjum hjá COS en töluvert er lagt í góð efni og snið. Fötin eru örlítið dýrari en fatnaðurinn í H&M og hentar vel fyrir hina útivinnandi mömmu sem hefur lítinn tíma til að raða saman fötum á morgnana eða vera alltaf með straujárnið á lofti, en vill á sama tíma vera smart. 

Samfestingarnir frá COS, skyrturnar og kjólarnir hafa náð miklum vinsældum enda eru sniðin klassísk og ekki of lituð af ráðandi tískustraumum. 

Á dögunum var verslunin GK opnuð á Hafnartorgi og svo er þar einnig H&M og H&M Home auk Collections sem er glæsileg merkjavöruverslun sem selur föt frá Anine Bing, Ralph Lauren og Sand svo einhver merki séu nefnd. 

mbl.is