Anton Örn: Fitufrysting er ekki megrun

Anton Örn Bjarnason húðlæknir á Húðlæknastöðinni.
Anton Örn Bjarnason húðlæknir á Húðlæknastöðinni.

Anton Örn Bjarnason, húðlæknir á Húðlæknastöðinni, er sérfræðingur í húðlækningum. Hann segir að fitufrysting sé kostur fyrir þá sem vilja halda fyllingu í andliti en losa sig við fitu á ákveðnum stöðum. Hann segir að fitufrysting sé alls ekki megrunaraðgerð heldur notuð á einstaka svæði. 

CoolTech-fitufrysting er áhrifarík og varanleg fitueyðingarmeðferð sem tekur 70 mínútur. Viðkomandi er ekki svæfður á meðan og getur farið beint í vinnuna. Anton segir að fitufrysting sé góð fyrir þá sem hafa safnað óæskilegri fitu á ákveðin svæði.

„Meðferðin virkar þannig að með nákvæmri frystingu á líkamssvæðum sem hafa safnað á sig óæskilegri fitu deyja fitufrumurnar og eru síðan fjarlægðar af sogæðakerfi líkamans. Svona fitueyðing með frystingu er möguleg vegna þess að fitufrumur líkamans eru mun næmari fyrir kulda en húðfrumurnar. Húðin helst því heil og óskemmd við meðferðina.

Á húðina yfir svæðinu sem meðhöndla á er lögð gelhimna til að verja undirliggjandi húð. „Cooltech“-hausinn sogar til sín fituvefinn og kælir síðan fituna undir húðinni þannig að þær fitufrumur sem meðferð er beint að deyja. Þær eru síðan teknar upp af sogæðakerfi líkamans í fyllingu tímans. Kælingin er -3 til -8 gráður. Þegar líður á meðferðina dofnar húðin og vægu óþægindin af soginu hverfa. Eftir um 12 vikur sést árangurinn að fullu en eftir um fjórar vikur má sjá töluverðan mun. Sex til átta vikum eftir fyrstu meðferðina er óhætt að meðhöndla sama svæði aftur. Flestir þurfa tvær til þrjár meðferðir til að ná fullnægjandi árangri en hjá sumum nægir jafnvel ein meðferð. Dreifing fitufrumna er mismunandi hjá fólki og skýrir það muninn á árangrinum,“ segir Anton.

Hér má sjá magasvæði á konu fyrir fitufrystingu.
Hér má sjá magasvæði á konu fyrir fitufrystingu.
Hér má sjá magasvæði eftir fitufrystingu.
Hér má sjá magasvæði eftir fitufrystingu.

– Hvað gerir fólk meðan á þessari meðferð stendur?

„Viðkomandi getur slakað á, lesið, hlustað á tónlist eða jafnvel unnið. Ekki er þörf á sérstökum tíma til að jafna sig eftir meðferð. „CoolTech“-fitufrystingin er örugg og fer fram án skurðaðgerðar. Meðferðin er nánast sársaukalaus og mun mildari en fitusog. Ekki er þörf á að fólk taki frí frá vinnu til að jafna sig eftir meðferðina og ekki er þörf á deyfingu eða svæfingu.“

Engar nálar eru notaðar við fitufrystinguna og hver meðferð tekur um 70 mínútur.

„Fitufrystingarmeðferð með „Cooltech“ hefur verið notuð á meira en eina milljón einstaklinga og eru meira en 90% ánægðir með árangurinn.“

– Er langt síðan þið fóruð að sérhæfa ykkur í fitufrystingu?

„Fitufrystingarmeðferðin var þróuð í Bandaríkjunum fyrir um 10 árum. Við á Húðlæknastöðinni höfum fylgst með þróuninni og beðið eftir áhrifaríku og öruggu tæki sem við getum treyst. 2018 fórum við af stað með „CoolTech“-fitufrystingu sem hefur gefið mjög góðan árangur,“ segir hann.

– Fyrir hverja er fitufrysting?

„„CoolTech“-líkamsmótun er fyrst og fremst hugsuð fyrir fólk sem óskar eftir minni háttar lagfæringu á vissum stöðum líkamans, en ekki sem meðferð við almennri offitu. Meðferðin er sérstaklega áhrifarík gegn „erfiðum“ svæðum, það er að segja svæði líkamans með fitu sem vill ekki hverfa við megrun eða líkamsrækt. Hægt er að meðhöndla kvið, síður („lovehandles“), læri, mjaðmir, svæði kring um hné, fellingar sem myndast undir brjóstahöldurum og rasskinnar. Allt að 25% minnkun á fitu á því svæði sem meðhöndlað er getur sést eftir eina meðferð,“ segir Anton.

– Hvernig verður húðin á eftir, verður hún ekki slöpp?

„Eitt af því sem fólk hefur áhyggjur af þegar það léttist er hvort húðin verði slöpp á eftir. Þegar maður eldist minnkar teygjanleiki húðarinnar og líkur aukast á slappri og lausri húð. Ef fólk grennist mikið á skömmum tíma er einnig hætta á slappri húð. Hinn dæmigerði einstaklingur sem fer í fitufrystingu er hins vegar ekki í yfirvigt og fituminnkunin sem á sér stað fer fram á nokkrum vikum og jafnvel mánuðum. Þannig að ef húðin er með góðan teygjanleika fyrir meðferð mun hún að öllum líkindum dragast saman þegar fitan hverfur. Ef húðin er hins vegar slöpp fyrir mun hún líklegast vera slöpp áfram.“

– Hvað endist fitufrysting lengi?

„Fitufrystingin er varanleg fitueyðing þar sem hún eyðir þeim fitufrumum sem meðhöndlaðar eru. Ef viðkomandi hins vegar innbyrðir fleiri hitaeiningar en hann brennir (þ.e. fitnar) eftir meðferðina er hætta á nýrri fitusöfnun á meðhöndluðu svæðin eins og á önnur svæði. Því er ráðlagt að viðhalda heilbrigðum lífsstíl til að að viðhalda árangrinum.“

– Ertu með dæmi um einstakling sem hefur náð árangri með fitufrystingu?

„Þetta hef ég ekki frá fyrstu hendi en hef lesið um að frægir einstaklingar eins og Jennifer Aniston, Khloe Kardashian, Lindsay Lohan, Molly Sims og Mariah Carey hafi allar verið mjög ánægðar með fitufrystingarmeðferð. Einnig má nefna að Brynja Dan, markaðsstjóri S4S, er nýbúin í meðferð hjá okkur. Það verður gaman að sjá árangurinn koma fram og hægt að fylgjast með því bæði á Instagram-síðu Húðlæknastöðvarinnar og hjá Brynju sjálfri.“

– Hver er munurinn á að grennast hratt og minnka þannig eða fara í fitufrystingu?

„Aðalmunurinn er sá að með fitufrystingu er hægt að einbeita sér að vissum vandræðasvæðum sem fólk á erfitt með að losna við þrátt fyrir að grennast almennt. Þegar einstaklingar grennast almennt eru sumir til dæmis ósáttir við að verða „teknir“ í framan, það er að segja missa fyllingu í andliti sem viðkomandi hefði viljað halda. Með fitufrystingu er þetta ekki vandamál þar sem fitueyðingin er markviss og beinist að vissum svæðum.“

– Hefur þú sjálfur prófað fitufrystingu?

„Ég hef persónulega ekki prófað hana þar sem ég er með þannig líkamsbyggingu að ég á frekar í vandræðum með að halda þyngd en hitt. Hins vegar hefur stór hluti þeirra sem starfa á Húðlæknastöðinni prófað fitufrystinguna með mjög góðum árangri.“

Reglulega birtast fréttir af misheppnaðri fitufrystingu. Skiptir máli að það sé læknir sem gerir þessar aðgerðir?

„Sem betur fer er misheppnuð fitufrysting sjaldgæf. Það er hins vegar þannig að þetta eru öflug tæki sem í höndum rangra aðila geta verið hættuleg. Því er mikilvægt að meðferðirnar séu framkvæmdar af fagaðilum í umsjá húðlækna. Við á Húðlæknastöðinni höfum 20 ára reynslu af því að framkvæma ýmsar leysi- og aðrar húðmeðferðir með góðum árangri,“ segir hann.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »