Ekki fara í varafyllingu í heimahúsi

Jenna Huld Eysteinsdóttir húðlæknir segir að þau geri mikið af ...
Jenna Huld Eysteinsdóttir húðlæknir segir að þau geri mikið af því að leiðrétta mistök sem gerð eru í heimahúsum.

Jenna Huld Eysteinsdóttir húðlæknir á Húðlæknastöðinni segir að fólk þurfi að varast „bílskúrsmeðferðir“ þegar kemur að fylliefnum. Hún segir að það gerist reglulega að húðlæknar þurfi að laga mistök sem gerð eru í heimahúsum þar sem ómenntaðir aðilar séu að taka fólk í meðferðir. Á dögunum rakst Jenna Huld á fylliefni á Ali Express og vill vara fólk við að kaupa fylliefni þar. Húðlæknastöðin lét í sér heyra á Instastory á dögunum.

„Við erum bara að fræða almenning um hætturnar sem geta fylgt fylliefnum, sérstaklega í höndum ófaglærða aðila. Þegar fylliefni eru notuð er mjög mikilvægt að þekkja anatómíu andlitsins, t.d. hvar helstu æðarnar liggja og taugar. Ef það er farið óvarlega geta æðarnar annað hvort fallið saman vegna þrýstings eða óvart fylliefni farið í æðarnar. Í versta falli getur það leitt til dreps í húðinni og jafnvel blindu,“ segir Jenna Huld Eysteinsdóttir húðlæknir á Húðlæknastöðinni. Hún biður fólk að fara varlega.

„Auðvitað getur þetta komið upp hjá fagaðilum einnig en þeir eru vel í stakk búnir til að grípa inn í og meðhöndla fylgikvillana. Sem betur fer höfum við ekki heyrt um neinn sem hefur keypt af Ali Express en við höfum verið að leysa upp efni og leiðrétta mistök hjá einstaklingum sem hafa farið til meðferðaraðila sem meðhöndla í heimahúsum. Þá vita þessir einstaklingar oftast ekki hvaða efni voru notuð. Á þetta oftast við um fylliefni sem eru sett í varir,“ segir húðlæknirinn.

Jenna Huld segir að fylliefni njóti mikilla vinsælda. Þau eru til dæmis notuð í varir og í kringum munn til að minnka hrukkur.

„Fylliefni eru meðal vinsælustu fegrunarmeðferðanna í dag. Það er líklega einna helst vegna þess að árangurinn er sjáanlegur strax eftir meðferð, aukaverkanir eru mjög sjaldgæfar í höndum réttra aðila og batatíminn mjög stuttur. En meðferð með fylliefni er áhrifarík og náttúruleg fegrunarmeðferð sem dregur úr hrukkum og eykur ferskleika húðarinnar.“

Húðlæknastöðin birti á Instagram story hjá sér á dögunum skjáskot af fylliefnum sem hægt er að kaupa á Ali Express.

„Húðlæknastöðinni blöskraði við þessi skjáskot, en þau leggja mikla áherslu á að treysta aðeins fagaðilum þegar kemur að slíkum meðferðum. Á Húðlæknastöðinni starfa einmitt 10 sérfræðimenntaðir húðlæknar sem hafa allir tök og leyfi til að grípa inn í ef illa fer. En oft hafa þau þurft að lagfæra eftir svokallaðar „bílskúrsmeðferðir“. Húðlæknastöðin notar líka aðeins fylliefni sem eru samþykkt af FDA, bandarísku lyfjastofnuninni, til að tryggja sjúklingum þeirra bestu gæðin og öryggi.“

Jenna Huld Eysteinsdóttir húðæknir segir að þau á Húðlæknastöðinni geri ...
Jenna Huld Eysteinsdóttir húðæknir segir að þau á Húðlæknastöðinni geri mikið af því að leiðrétta mistök sem gerð eru í heimahúsum.
mbl.is