Féll fyrir ferskri hugmynd og ástinni á Íslandi

Tinna Bergmann fann ástina og flutti til Íslands.
Tinna Bergmann fann ástina og flutti til Íslands. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Tinna Bergmann bjó í Bretlandi í um áratug þar sem hún starfaði á sviði tískunnar. Hún rak verslun Isabel Marant í Mayfair og síðar var hún vinsæll stílisti fyrir Fendi og Stellu McCartney áður en hún féll fyrir áhugaverðu viðskiptatækifæri og kærastanum á Íslandi. 

Tinna Bergmann er fatahönnuður að mennt. Hún starfaði á árunum 2013 til 2017 hjá Isabel Marant í Bretlandi þar sem hún m.a. stjórnaði vinsælli verslun vörumerkisins í Mayfair. Þess á milli vann hún sjálfstætt sem stílisti.

„Ég fór ung út og hafði engan annan en mig að stóla á. Það er mikil samkeppni í London í þessum heimi og af þeim sökum þróaði maður með sér gott vinnulag. Maður heltist fljótt úr lestinni ef maður mætir of seint eða er ekki vakandi í vinnunni.“

Tinna tók stökkið árið 2017 í að starfa sjálfstætt sem stílisti, þá bæði fyrir vinsæl vörumerki en einnig fyrir konur sem vildu kaupa sér faglega ráðgjöf á sviði tískunnar.

Á þessum tíma bjó hún í Notting Hill. „Ég sagði þó aldrei alveg skilið við Isabel Marant þar sem ég vann fyrir þá við að sjá um útlit verslananna. Það gekk vel hjá mér úti, enda var ég búin að koma mér upp góðum og sterkum viðskiptavinahópi. Eins starfaði ég í góðri samvinnu við vörumerki á borð við Fendi, Victoriu Beckham og Roksöndu svo dæmi séu tekin.“

Tinna starfar núna sem rekstrarstjóri fyrir GK Reykjavík á Hafnartorgi. Ástæðan fyrir því er sú að upphaflega byrjaði hún að starfa fyrir Regin á Hafnartorgi við að tengja þá við erlend tískuhús og aðstoða við samningagerð um að opna ýmis vörumerki á Hafnartorgi. Á þessum tíma kynntist hún Svövu Johansen sem fékk hana í verkefnið. Á sama tíma hafði hún einnig kynnst ástinni á Íslandi; kærastanum Guðbrandi Jóhannessyni lögmanni.

mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Kynntist ástinni á Þorláksmessu

„Við Guðbrandur kynntust á Þorkláksmessu árið 2016 hér á Íslandi. Ég var á leiðinni til útlanda og hann hafði aldrei komið til London. Við urðum fljótt ástfangin.“

Tinna útskýrir að Guðbrandur hafi verið ákveðinn að halda tengslunum og stuttu eftir að þau kynntust keypti hann sér þrjá flugmiða til Bretlands; einn í mánuði í þrjá mánuði strax eftir jólin.

„Það sem ég fann að heillaði mig strax var hvað við áttum mikið sameiginlegt. Við erum jafnaldrar og við áttum svipaða fortíð og deildum sömu gildum. Það var alveg nýtt fyrir mér.“

Saknar London á hverjum degi

Hún segist sakna London daglega enda sé engin borg betri en sú borg að hennar mati.

„En það er dýrt að búa í London og maður þarf að vinna mikið til að halda öllu gangandi.“

Tinna er hugrökk í eðli sínu en ákaflega skynsöm. Hún var með sitt eigið vörumerki á þeim tíma sem hún byrjaði að starfa fyrir Isabel Marant og hefur því ráð sem hún getur gefið áfram ungu fólki sem dreymir um sitt eigið á sviði tískunnar.

„Ég hannaði fatnað undir merkjum Tiaber í nokkur ár og fékk ágætis móttökur í Bretlandi og Frakklandi. Ég lærði hins vegar fljótt að hönnun er eitt og viðskipti annað. Það var án efa grunnurinn að því að ég hóf störf hjá Isbel Marant; til að læra á viðskiptavininn og viðskiptahliðina.

Við vorum fimm sem komum að opnum Isabel Marant í London, sex mánuðum síðar var ég orðin stjórnandi verslunarinnar og gegndi því verkefni þar til ég stofnaði mitt eigið.

Á þessum tíma kynntist ég mörgu góðu fólki; allt frá frægu fólki á heimsvísu upp í leiðandi konur í viðskiptaheiminum og allt þar á milli.“

Mikilvægt að vera varkár

Tinna segir mikil mistök hjá ungu fólki að fara beint í eigin rekstur. Hún ráðleggi fólki alltaf að vera með fastar tekjur með eigin verkefnum. „Ég réð sem dæmi aðstoðarstjórnanda á sínum tíma sem leiðir nú tískuhúsið, hún er frábær tónlistarkona en vinnur hjá Isabel Marant til að fá fastar og góðar tekjur. Að tileinka sér gott vinnueðli og skipulag er eins og alltaf kostur.“

Hvernig vannstu með fólki sem stílisti í eigin rekstri?

„Ég vinn með konum þannig að ég byrja alltaf á að skoða hvað þær eiga í fataskápnum. Ég fæ þar til að máta og við skoðum saman hvað gæti verið góður grunnur og hvað mætti fara.“

Tinnu er umhugsað um umhverfið og bendir á mikilvægi þess að fatnaður sé fjárfesting og það megi alltaf koma afgangsfatnaði í verð.

„Því næst skoða ég styrkleika hvers og eins. Það skiptir máli hvað konan starfar við og hver hún er. Góður stílisti stíliserar enga tvo eins heldur vinnur með einkenni hverrar manneskju.“

mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Hér má gera betur í fjölbreytileika

Tinnu fannst áhugavert að koma til landsins þar sem henni finnst margt hægt að bæta þegar kemur að því að konur og karlmenn búi til sinn eigin fatastíl.

Í GK leggur hún áherslu á að panta aldrei of mikið í einu. Þannig geta konur stólað á gæði sem eru fágæt í landinu.

„Að aðstoða konur við fataval er gefandi. Sumir af viðskiptavinum mínum sögðu persónulega ráðgjöf jafnast á við sálfræðitíma og þá er ég ekki að gera lítið úr fagfólki á sviði sálfræði heldur meira að benda á mikilvægi þess að ná tökum á að klæða sig fallega. Það getur meitt mann mikið að ná ekki að klæða sig vel. Sumir eru góðir í einhverju allt öðru og þurfa þá fagfólk á þessu sviði til að aðstoða sig.“

Tinna segir það sama eiga við sig þegar mataræðið er annars vegar. „Ég borða mikið af því sama og þegar mig langar í meiri fjölbreytileika kaupi ég mér Eldum rétt.“

Tinna er á því að það sé alltaf betra að eiga færri flíkur en góðar.

„Maður tapar aldrei á því að fjárfesta í gæðum á sviði tískunnar. Það er alltaf hægt að koma fallegum hlutum í verð og bendi ég á Vestiaire Collective í því samhengi.“

Hver er uppáhaldsflíkin í þínum fataskáp?

„Þetta er virkilega erfið spurning. Ætli það sé ekki Isabel Marant-leðurjakkinn minn eða Stellu McCartney-blazerinn.“

mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Margt á óskalistanum í sumar

Hvað er á óskalistanum að eignast fyrir sumarið tengt tískunni?

„Anine Bing-leðurjakki og pils. Síðan langar mig í Victoriu Beckham-blazer og skyrtu og eitt stykki Rotate-kjól.“

Hvað verður vinsælt að þínu mati í sumar?

„Ætli það sé ekki ljós litur (e beige) í öllu fataformi, ásamt blúndu og prenti, og „artician handiwork“ sést meira og meira í hátískunni.“

Hvað keyptir þú þér síðast?

„Ég keypti mér síðast Stellu McCartney-íþróttaskó.“

Hvað hefur þig alltaf dreymt um að eignast?

„Það er svo margt. Efst á listanum væri kannski taska frá JW Anderson.“

Hvað langar þig að gera í framtíðinni?

„Halda áfram að læra og vaxa í starfi mínu hjá GK Reykjavík.

Þá hef ég draum um að byrja aftur með mína eigin fatalínu þegar rétti tíminn kemur.“

Hefurðu breytt því hvernig þú klæðir þig með árunum?

„Já heldur betur. Ég hef ekki alltaf haft þægindin í fyrirrúmi. Ég hef gengið í gegnum það tímabil að vera hippi, síðan hef ég verið „minimalísk“, gengið í gegnum kúrekatímabil, rokk og ról og lengi mætti áfram telja.“

Málar sig aldrei

Hvernig myndirðu lýsa þínum stíl?

„Ég myndi lýsa honum sem „effortless chic“, en ég er samt líka mjög mikið fyrir rokk og ról. Þess vegna er ég mjög spennt fyrir Anine Bing í GK.“

Hver er uppáhaldssnyrtivaran þín?

„Besta húðvara sem ég hef nokkurn tíma prufað er Bio Effect og ég er ekki bara að segja það, því ég er að selja þær í GK. Þær einfaldlega virka og hef ég fundið verulegan mun á minni húð. Svo kann ég að meta Doctor Organic líkams- og hárvörurnar frá þeim.

Ég mála mig ekki og þar af leiðandi á ég enga uppáhaldssnyrtivöru.“

Tinna hvetur alla til að koma við í GK Reykjavík Hafnartorgi þar sem hún og teymið hennar munu taka vel á móti fólki.

„Hvort sem þú ert að leita að einhverju sérstöku eða stíliseringu, þá erum við til þjónustu reiðubúin. Alltaf heitt á könnunni eða jafnvel búblur ef vel liggur á okkur.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál