Keypti þrjú dress fyrir minna en 7 þúsund

Hildur hefur alltaf keypt stóran hluta af fötum sínum í …
Hildur hefur alltaf keypt stóran hluta af fötum sínum í búðum á borð við Hjálpræðisherinn og Kolaportið. Ljósmynd/Birta Rán

Tónlistarkonan og lagahöfundurinn Hildur Kristín Stefánsdóttir keypti þrjú dress á undir 7 þúsund krónur fyrir myndtöku fyrir nýjasta lag sitt, Work. Hildur gaf lagið út fyrir helgi og því fylgir að gera cover-myndir fyrir lögin. Hún valdi að vera í notuðum fötum í myndatökunni og kom það sjúklega vel út. 

Af hverju ákvaðstu að vera í notuðum fötum á myndunum fyrir nýja lagið þitt?

Það vill bara þannig til að langflest fötin sem ég á og nota, sérstaklega þegar ég kem fram eða er í myndatökum, eru notuð. Þannig að það var ekki beint meðvituð ákvörðun, en ég held það lýsi bara því hversu stórt hlutfall af fataskápnum mínum eru notuð föt frekar en ný. Þegar ég sé outfit sem ég sé fyrir mér að gætu verið geggjuð í myndatöku eða uppi á sviði þá kaupi ég þau og „á inni“ þegar ég fer í næstu myndatöku eða spila næst. 

Hildur segir það sé ekki beint gaman að vera uppi …
Hildur segir það sé ekki beint gaman að vera uppi á sviði í nákvæmlega sömu fötum og manneskja í salnum. Ljósmynd/Birta Rán

Hvar keyptirðu fötin?

Kjóllinn sem ég er í á EP-koverinu er frá eins konar Rauða kross-búð sem ég rakst á í Chicago. Hræódýr með alls konar fínu. Svo er bæði settið á Work koverinu og bleiki jakkinn frá einni af mínum uppáhalds hér á landi, Trendport í Kópavogi. Þar hef ég bæði selt mín föt og gert alveg rosalega góð kaup nýlega. Held það sé varla hægt að finna ódýrari og umhverfisvænni leið á Íslandi en það. Þetta er sama konsept og Barnaloppan er með og ég varð hrikalega glöð þegar ég frétti að væri komin búð með sömu hugmynd fyrir fullorðna. Svo hef ég líka keypt mikið af sviðsfötum á Fatamarkaðnum Hlemmi, Spúútnik og vintage-búðum úti um allan heim.

Er þetta eitthvað nýtt hjá þér eða hefurðu klæðst notuðum fötum lengi?

Ég hef elskað notuð föt síðan ég var í menntaskóla. Þá uppgötvaði ég Hjálpræðisherinn og Kolaportið og ég myndi segja að 80% af fötunum sem ég gekk í í MR hafi verið hræódýr úr þeim búðum. Ég get verið mikill gramsari þegar ég er í stuði og finn því oft ótrúlegustu hluti. Mér finnst líka mjög fyndið hvað margir halda að ég sé oft í einhverju „designer dressi“ þegar ég er bara í einhverju sem ég setti saman fyrir nokkra þúsundkalla.

Kjólinn keypti Hildur í eins konar Rauða kross-búð í Chicago …
Kjólinn keypti Hildur í eins konar Rauða kross-búð í Chicago í Bandaríkjunum. Ljósmynd/Birta Rán

Af hverju finnst þér mikilvægt að kaupa notuð föt eða fá lánuð föt frá hönnuðum fyrir myndatökur og annað sem tengist vinnunni þinni sem tónlistarkona?

Það eru nokkrar ástæður. Ég hef alltaf elskað að „finna fjársjóði“ og vita að næsta manneskja verður ekki í sama outfitti. Það er ekki beint gaman að standa uppi á sviði og sjá manneskju úti í sal í eins kjól. Svo finnst mér líka smá flókið hvað það er mikil pressa að vera alltaf í nýjum fötum þegar ég kem fram svo með því að vera alla vega ekki að kaupa glænýtt dress í hvert skipti minnka ég kaupsamviskubitið.

Hvað varðar það að fá lánuð föt frá hönnuðum finnst mér það frábært "cross-promotion" fyrir mig og hönnuðinn og við græðum bæði. Þá get ég verið í alveg nýrri hönnun sem er oft ekki einu sinni til sölu og gefið líka upprennandi eða spennandi fatahönnuðum tækifæri til að hönnun þeirra sjáist víðar. 

 

 

mbl.is