Rýnt í hausttískuna - rúskinn og leður áberandi

Hvaða týpa ætlar þú að vera í vetur? Ætlarðu að vera þessi sem hefði gert allt vitlaust í atvinnulífi áttunda áratugarins eins og Diane von Furstenberg eða?

Áhrifa áttunda áratugarins gætir í tísku haustsins. Í raun og veru áttu bara að klæða þig svolítið eins og drottningar fyrri tíma gerðu. Hönnuðurinn Diane von Furstenberg átti til dæmis mörg góð augnablik þegar kemur að fatastíl þess tíma. Og þá er ekki endilega verið að tala um fyrri fatalínur, heldur bara útganginn á henni. Gamlar myndir af henni geta veitt hinn besta innblástur þegar gosleysið í fatastíl líðandi stundar er algert.

Í vetur verður rúskinn áberandi, bæði í flíkum og skótaui. Mikið verður um rúskinnsstígvél og -ökklaskó og kúrekastíllinn er ekki langt undan.

Ef þú varst síðast í kúrekastígvélum í kringum 1990 við Levi's-buxur og breitt belti með risasylgju get ég vel skilið að þú sért ekki alveg tilbúin að keyra á þetta en það má samt reyna. Bara ekki fara í Guns N' Roses-bol við eins og þú gerðir á þessum tíma. Há rúskinnsstígvél í kúrekastíl eru til dæmis mjög flott við gamla Furstenberg-kjóla og geta umbreytt útlitinu á þeim á augabragði.

Það sem er líka áberandi hjá stóru tískuhúsunum er að setja þröngar gallabuxur ofan í stígvél sem ná alveg upp í hnésbót. Þetta er mjög hentugt fyrir þær sem eiga þröngar niðurmjóar gallabuxur á lager. Það er nefnilega töluvert snúið að girða útvíðar buxur ofan í stígvélin en þú getur hins vegar farið í útvíðar gallabuxur við kúrekaskóna.

Hvort sem þú ert í útvíðum gallabuxum eða þröngum sem ná ofan í stígvélin má klára þetta mál með kamellitri kápu og rúllukragapeysu eða bara með loðkápu. Hún gæti til dæmis verið með belti eins og þessi frá Salvatore Ferragamo.

Litapalletta haustsins er brún, vínrauð og svolítið beige-lit. Svo er bara að skella á sig risasólgleraugum með ljósu gleri og þá getur þú tekist á við öll heimsins verkefni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »