IKEA-ferðin breytti framtíðarplönunum

Auður Helga Guðmundsdóttir snyrtifræðingur rekur Snyrtistofu Grafarvogs ásamt eiginmanni sínum, …
Auður Helga Guðmundsdóttir snyrtifræðingur rekur Snyrtistofu Grafarvogs ásamt eiginmanni sínum, Óla Hrafni Ólafssyni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Auður Helga Guðmundsdóttir snyrtifræðingur rekur Snyrtistofu Grafarvogs ásamt eiginmanni sínum, Óla Hrafni Ólafssyni. Í dag fagnar stofan 25 ára afmæli en Auður Helga hefur þó ekki verið þar allan tímann heldur keypti hún stofuna af stofnanda stofunnar í fyrra eftir örlagaríka IKEA-ferð. 

„Sú umræða um að ég tæki við rekstri stofunnar kom einstaka sinnum upp milli mín og Berglindar Ólafsdóttur, fyrrverandi eiganda stofunnar, þegar ég starfaði áður á stofunni á árunum 2010 til 2014. Á þeim tíma vorum við hjónin ekki alveg tilbúin í þá skuldbindingu að fara út í eigin rekstur. Ég fór svo í fæðingarorlof í byrjun árs 2014 og þá fjaraði þessi hugmynd alveg út. Ég fór svo í annað starf eftir fæðingarorlof og var ekki með hugann við þetta þegar ég hitti Berglindi í IKEA vorið 2017. Hún spyr mig svona að gamni hvort ég sé tilbúin núna til að kaupa stofuna. Það var þá sem við hjónin fórum að hugsa um það af meiri alvöru. Ég hóf svo störf aftur á stofunni um haustið 2017 og með það að markmiði að kaupa stofuna. Það fór svo þannig að við keyptum og tókum við rekstrinum í maí 2018 og sjáum sko alls ekki eftir því,“ segir Auður Helga. 

Þegar Auður Helga er spurð að því hvers vegna hún hafi valið snyrtifræðina segist hún hafa verið á algerum krossgötum og systir hennar sé mikill áhrifavaldur. 

„Það er nú gaman að segja frá því að ég var alls ekkert að spá í þetta nám þegar litla systir mín segir við mig sumarið 2009 að hún sé búin að skrá sig í snyrtifræði við Snyrtiakademíuna, sem var og hét, og að námið byrji eftir mánuð. Þarna var ég búin að vera velta fyrir mér hvað ég ætti nú að verða þegar ég yrði stór. Ég var búin að taka eina önn í Kennaraháskóla Íslands en ætlaði ekki að halda áfram þar um haustið. Ég vissi í raun ekkert hvað mig langaði til að læra. Þarna ákvað ég að fara bara líka í snyrtifræðina eins og hún. En svo er það þannig í dag að hún hefur aldrei starfað við fagið en ég meira og minna frá útskrift,“ segir Auður Helga og hlær. 

Þegar hún er spurð að því hvað konur sækist í á hennar snyrtistofu segir Auður Helga að konur kunni að meta það að eiga tíma fyrir sig. 

„Ég held að allar sækist fyrst og fremst eftir því að eiga smá stund fyrir sjálfar sig í rólegu og notalegu umhverfi. En sú meðferð sem er algengust er litun og plokkun á augabrúnum. Annars finnst mér margar konur í dag hugsa vel um sig og koma í dekurmeðferðir eins og andlitsböð eða fótsnyrtingu.“

Nú eru þykkar og miklar augabrúnir ákaflega móðins. Finnur þú fyrir því á stofunni?

„Augabrúnatískan gengur í hringi eins og allt annað og hafa brúnir verið allt frá því að vera örmjóar og út í mjög þykkar og hvassar. En það eru alls ekki allar sem elta þessar bylgjur. Mér finnst konur oftast vilja halda í sínar náttúrulegu brúnir og erum við mikið í skerpa á þeirra náttúrulegu línum. Margar konur eru farnar að koma í Microblade sem er tækni í varanlegri förðun og felst í því að gera örfínar hárlínur á milli ekta háranna í augabrúnum til að móta og gera augabrúnirnar þykkari eða í stað hára sem ekki eru til staðar.“

Í dag ætlar Auður Helga að slá upp veislu á snyrtistofunni og ætlar að bjóða upp á afslátt. 

„Á milli klukkan 16.00-18.00 verður létt afmælispartý þar sem við bjóðum upp á veitingar, verðum með kynningu á Acedémie vörunum og skálum fyrir áfanganum. Það eru allir velkomnir,“ segir hún. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál